Fara í efni

UM KVÓTANN FYRIR FULLUM SAL Á AKRANESI

Það var mál manna að hádegisfundurinn um kvótann – Kvótann heim – á Akranesi í dag hafi verið vel heppnaður. Góður rómur var gerður að sögulegu erindi og vangaveltum Gunnars Smára Egilssonar, blaðamanns, um framsalskerfið og umræður í kjölfarið voru líflegar og mjög upplýsandi. Ekki þurfti það að koma á óvart með þá reynslu sem var að finna í fundarsalnum!

Fundurinn fór fram í Gamla Kaupfélaginu. Talningamenn sögðu að á milli áttatíu og níutíu manns hefðu sótt fundinn og voru sjómenn og menn tengdir útgerð í meirihluta en einnig voru þarna mættir fulltrúar úr bæjarpólitíkinni og víðar að.

Myndin að ofan sýnir hluta fundarmanna en að neðan má sjá Vilhjálm Birgisson, verkalýðsleiðtoga, sem fyrstur tók míkrófóninn úr sal og flutti upplýsandi eldræðu um stöðu mála á Akranesi sem misst hefur frá sér veiðiheimildir sem gert hefur það að verkum að útgerð er að leggjast niður á sjálfum Skipaskaga. Fleiri eldræður voru fluttar og fram settar upplýsingar sem vörpuðu ljósi á viðfangsefnið.

Þótt ýmis sjónarmið kæmu fram á fundinum þá voru menn sammála um mikilvægi þess að tryggja eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni og að færa nýtingar- og ráðstöfunarrétt að nýju til byggðanna.
Akranesfundur2.JPG