Fara í efni

SIGURÐUR VILL ENDURHEIMTA MANNORÐ ÍSLANDS

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, kom fram í fréttum í dag og sagði samtökin vilja hverfa frá sölu “upprunavottorða”. Það eru falsvottorð sem íslensk raforkufyrirtæki selja stóriðjufyrirtækjum í Evrópu sem gefi þeim færi á að menga óáreitt því að orka þeirra sé hrein – því til sönnunar séu umrædd vottorð.

Evrópusambandið hefur lag á að koma öllu lifandi og dauðu á markað – allt skal meta á markaðsvísu og allt skal hægt að kaupa og selja, loftið og að sjálfsögðu einnig mannorðið. Markaðsvæðing þessara mengunarkvóta er eitt ósiðlegasta dæmið um þetta sölumennsku-hugarfar.

Af því leiðir síðan ómælt rugl. Þannig var í dag einnig skýrt frá því að Ísland kæmi mjög illa út í skýrslu Sameinuðu þjóðanna yfir þjóðir sem byggju börnum sínum slæma framtíð. Hvernig skyldi standa á því? Jú, Íslendingar menga svo mikið, og þá væntanlega með nýtingu óhreinnar orku.

Sigurður Hannesson er því ekki einvörðungu að enduheimta mannorð Íslands heldur er hann einnig, ef að líkum lætur, að stórbæta hag íslenskra barna, auka lífslíkur þeirra og vellíðan, það er að segja í næstu skýrslu UNICEF.
Minna hafa menn afrekað.