Fara í efni

MÁLEFNI KÚRDA TIL UMRÆÐU Í BRUSSEL

Í dag og á morgun sæki ég fund í þingi Evrópusambandsins, sem vinstri flokkarnir, sósíalistar, kratar og græningjar standa að um málefni Kúrda undir fyrirsögninni: Evrópusambandið, Tyrkland, Mið-Austurlönd og Kúrdar.

Fundurinn er formlega á vegum European Union Turkey Civic Commission, EUTCC. Þetta er nefnd sem sett var á laggirnar upp úr aldamótum til að fjalla um aðildarumsókn Tyrkja að Evrópusambandinu. Nefndin vill grandskoða umsóknina a forsendum mannréttinda í Tyrklandi og þar með nýta hana til að setja þvingu á Tyrkland til að betrumbæta sig á þessu sviði.  Kariane Westerheim, sem er formaður þessarar nefndar, er starfandi við háskólann í Bergen í Noregi. Hún opnaði ráðstefnuna í dag og bauð ráðstefnugesti velkomna.

Þetta er sextánda ráðstefnan á vegum nefndarinnar og er að jafnaði ein ráðstefna á ári. Þetta er þriðja ráðstefnan af þessu tagi sem ég sæki og þótt ég hafi verið hvattur til að koma er ég hér algerlega á eigin vegum í leit að fróðleik.

Að inngangsorðum loknum ávörpuðu okkur þingmenn frá skipuleggjendum ráðstefnunnar:Á vaðið reið danskur þingmaður á þingi Evrópusambandsins, góður félagi minn og vinur Nikolaj Villumsen (MEP, The European United Left/Nordic Green Left (GUE/NGL)) og talaði hann fyrir hönd vinstri-grænu flokkanna. Hann vísaði í þá niðurstöðu belgísks dómstóls fyrir fáeinum dögum þess efnis að PKK (baráttusamtök Kúrda sem hinn fanglesaði leiðtogi Kúrda, Abdulla Öcalan leiddi) væri ekki hryðjuverkasamtök. Færði hann rök fyrir því að Erdogan væri að veikjast og að hægt væri að veikja hann meira. Evrópuvaldamenn létu oft í veðri vaka að ekki væri hægt að “ná til” (not reachable) tyrknesku stjórnarinnar. Þetta væri til að firra sig ábyrgð. Þetta gagnrýndi Nikolaj harðlega.
 Næstur talaði Andreas Schieder (MEP, The Progressive Alliance of Socialists and Democrats (S&D) sem  talaði fyrir hönd sósíaldemókrata á Evrópuþinginu. Sjálfur er hann frá Austurríki. Hann væri nýkominn úr könnunarleiðangri til Rojava sagði hann okkur. Þörf væri á meiri mannúðarhjálp þangað. Rétta þyrfti yfir ISIS – liðum sem gerst hefðu sekir um stríðsglæpi. Þörf væri á lýðræðisvakningu í Tyrklandi; “það verður að opna fangelsin fyrir póltíska fanga”. Tók hann undir með Nikolaj Villumsen um mikilvægi dómsniðurstöðunnar í Belgíu um að rangt væri að líta á PKK sem hryðjuverkasamtök. Andreas talaði fyrir viðskiptaþvingunum.
Þá kom röðin að franska þingmanninum François Alfons (The Greens/European Free Alliance (Greens/EFA). Hann sagði að barátta Kúrda væri mikilvæg fyrir frelsisbaráttu all staðar, frelsi fjölmiðla, minnhluta hópa og fyrir baráttu um jafnrétti kynjanna. Nefndi mikilvægi þess að hafa stöðvað sókn öfgamanna í ISIS/DAESH. Mið-Austurlönd væru nú eins og Evrópa á fyrri hluta aldarinnar sem leið, fasismi í sókn. Tyrkland væri sterkara en það ætti að vera. “Hvernig á að koma í veg fyrir að Tyrkland verði í einu og öllu að einræðisríki?” Evrópa gætti knésett Erdogan því svo háður væri hann Evrópu í viðskiptum. Viðskiptaþvinganir myndu því hafa áhrif. Erdogan væri nú veikari en fyrir tíu árum; hefði tapað kosningum, spilling og ofbeldi hefði verið afhjúpað. Aftur var í máli hans vísað til dómsniðurstöðunnar í Belgíu og hve mikilvægt það hafi verið að taka þetta áróðursvopn úr hendi Erdogans: Allir óvinir hans væru hryðjuverkamenn og fyrir bragðið ómarktækir glæpamenn!    
Dimitrios Papadimoulis, varaforseti Evrópusambandsþingsins mælti með viðskiptaþvingunum gagnvart Tyrklandi, sérstalega banni við vopnasölu. Ekki bara vegna innrásar í Norður-Sýrland, heldur líka fangelsun tugþúsunda í Tyrklandi. Þótti mér athygisvert hve djúpt hann tók í árinni verandi varaforseti þingsins.  

Nú kom að fyrri panelnum þennan fyrri ráðstefnudag. Honum stýrði Joos Jongerden, prófessor við háskólann í Wageningen í Hollandi : Nú væri þörf á að breyta forsendum umræðunnar um Tyrkland, við yrðum að hætta að normalísera valdbeitingu ríkisins.

Fyrstur tók til máls Benoit Biteau Frakki frá flokkahópi græningja (The Gr/European Free Alliance (Greens/EFA) undir fyrirsögninni, “Tekist á um náttúrauðlindir (Conflict Over Vital Resources). Hann setti Kúrdistan í samhengi umhverfis og lífríkis. Talaði um vatn fyrr og nú, í þessum heimshluta, Mesópótamíu sem áður var. Þetta væri linsa sem vert væri nota til að skoða og skilja átök á svæðinu. 
Þá kom að þjóðverjanum  Özlem Demirel frá sósíalistum (The European United Left/Nordic Green Left (GUE/NGL). Hann spurði hvernig styrkja megi lýðræðið í Tyrklandi. (Strengthening Democratic Forces in Turkey: Challenges vs. Options). Nýta þurfi alla mögulega kanala, þar á meðal verkalýðshreyfinguna. Samtök fréttamanna þurfi að örva samskipti. Verkalýðshreyfingin þurfi að horfa til grasrótarinnar. Verkamenn í bílaiðnaði taki upp samstarf við tyrkneska kollega sína þegar þýskar verksmiðjur opni verksmiðjur í Tyrklandi svo dæmi sé tekið. Talaði hann á gagnrýninn hátt um vopnaiðnaðinn, Þjóðverjar selji Tyrkjum vopn, þarna sé mótsögn sem þurfi að takast á við, nefnilega þegar Evrópuþjóðir tala um frið en kynda svo undir með vopnasölu. Tyrkneska stjórnin sé að veikjast, það skýri aukna árásargirni.
“Opposition Between Unity and Division” hét erindi næsta ræðumanns Cihangir Islam, þingmanns Felicity Party (SP) í Tyrklandi. Gagnrýndi hann fundinn fyrir hve einhliða hann væri. Flokkur hans er íhaldssamur flokkur trúhneigðra íslamista. Sagði hann þörf á öguðu yfirvaldi sem byggi á “legitimacy”: Valdið verði að koma frá fólkinu. Hann var mjög gagnrýninn á tyrknesk yfirvöld. 
Gülistan Koçyiğit, Turkey.) talaði næst. Hún er þingkona fyrir Lýðræðisfylkinguna í Tyrklandi, flokk Kúrda The Peoples' Democratic Party (HDP). Hún velti vöngum yfir því sem farmtíðin kynni að bera í skauti sínu: Turkey 2023: Dictatorship vs. Democracy. Hún rakti söguna, Kúrdar hafi þurft að berjast fyrir lífi sínu og frelsi í langan tíma. Þeir hafi þurft að sanna sig sem samfélag. Friðarferlið hafi gefið Kúrdum tilefni til þess og það hafi gefið þeim von. Ferlið hafi strandað vegna þess að pólitískum hagsmunum þótti vera ógnað. Vék að júníkosningunum 2015 þegar Erdogan missti meirihluta á þingi og Kúrdar styrktu stöðu sína. Tyrknesk stjórnvöld líti á stríð og átök sem úrslita trompspil sitt á hendi.

Á meðal þess sem rætt var í umræðunum eftir framsöguræður var þýðing yfirlýsingar utanríkisráðherra Belgíu í kjölfar fyrrnefnds dóms þess efnis að hann liti enn á PKK sem hryðjuverkasamtök. Bent var á að þetta væri í andstöðu við reglur réttarríkis og þyrfti Evrópusambandið að taka PKK af listanum yfir hryðjuverkasamtök. Fyrir því þyrftu menn nú að beita sér.

Síðari málstofan í dag bar yfirskriftina The EU - Turkey Relationship: Accession Talks, Refugee Crisis and The Kurds. 

Fundarstjóri var nú Cengiz Aktar, stjórnmálafræðingur. Hann sagði í inngangsorðum sínum að samkvæmt sínum skilningi væri innganga Tyrkja í ESB ekki lengur á dagskrá heldur “flóttamannavandinn” sem Tyrkir notuðu sem valdbeitingarvopn gagnvart Evrópu.

Accession talks - (Never) Ending Story? Aðildarumsókn, sagan endalausa? spurði Andreas Schieder austurrískur sósíaldemókrat, sem nú talaði. Menn spyrja hvort nokkuð vit sé í að halda áfram aðildarviðræðum við Tyrki, sagði hann. Vék að peningagreiðslum (til að liðka fyrir aðildarviðræðum, nokkuð sem Íslendingar fengu að kynnast!) og hvort ætti ekki að stöðva þær. Sjálfur kvaðst hann andvígur aðild Tyrkja að ESB.
Næst taliai góðvinkona mín frá Evrópuráðsþinginu Tineke Strik, frá hollenskum græningjum: Refugee Crisis and Europe’s Response. Tineke fjallaði um stöðu flóttamanna í Tyrklandi, margt hefði lagast, aðgengi að skólagöngu en fæstir með vinnu, byggju við yfirþyrmandi fáækt. Grikkland enn verra fyrir flóttamenn en Tyrkland. Gagnrýndi Evrópuríki fyrir að vilja útvista flóttamannavandanum til tiltekinna ríkja, það væri slæmt fyrir alla. Gagnrýndi Merkel kanslara Þýskalands fyrir að setja peninga í uppbyggingu í Rojava fyrir flóttamenn. Þótt hún ræddi það ekki þá rímar þetta við stefnu Erdogans að flytja harðlínu íslamista frá Idlib í Sýrlandi og víðar að, til Rojava til að verða stuðpúði gegn Kúrdum. Tineke sagði að þessi stuðningur Þjóðverja væri til þess fallinn að normalísera ofbeldi Tyrkja.   

 “The Kurdish Question and Europe: Criminalization vs. Responsibility for Peace Building” þetta var heitið á erindi sem Jan Fermon, flutti en hann er stjórnandi lögfræðingateymisins sem vann fyrrnefnt mál fyrir belgíska dómstólnum. Hann var lika sækjandi fyrir dómstólnum í París (The Paris tribunal) sem ég hef áður oft fjallað um þar sem mannréttindabrot gegn Kúrdum voru tekin fyrir, til dæmis hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/brot-a-kurdum-skodud-i-anda-bertrands-russells.
Jan Fermon rakti málsmeðferðina í Belgíu og þær röksemdir sem beitt hafi verið. Nefndi hann að “non state organization”skyldi geta skoðast sem aðili að stríði. Sagði hann að bent hefði verið á að stríðslög væru til að vernda almenning. Ef allar aðerðir stríðsaðila væru flokkaðar sem hryðjuverk (einn aðilinn (hryðjuverkasamtökin) gætu ekkert gott gert, bara illt) þá væru allar varnir fyrir almennig horfnar. Ekkert væri þá lengur til sem flokka mætti sem stríðsglæp. Sjálf tilvera viðkomandi aðila væri einn samfelldur glæpur! Vissulega þyrfti að horfa til þess hvernig viðkomandi samtök kæmu fram í veruleikanum. Síðan komu frá Jan Fermon athyglisverðar fréttir. Málatilbúnaður dómsmálsins sem snerist um hvort tilteknir aðilar væru hryðjuverkamenn hafi hafist í bandaríska sendiráðinu í Brussel 2006 og staðið til 2009 með mikilli leynd. Tyrkir hafi komið inn í þetta samstarf  ásamt Belgum. Þetta viti menn allt vegna uppljóstrana Wikileaks!
Niðurstaða dómstólsins væri gríðarlega mikilvæg. Þegar lægi fyrir að PKK væru ekki hryðjuverkasamtök heldur stríðsaðili, þá stæðum við nú frammi fyrir deilu sem þyrfti að leysa en ekki hryðjuverkamönnum sem yrði að brjóta á bak aftur. “Conflicts must be solved, terrorism fought and defeated.
Síðan væru alls kyns angar á þessu. Hingað til hefðu menn í Evrópu ekki getað safnað mannúðarfé til Rojava, því ólöglegt væri að styðja hryðjuverkamenn. Þetta væri ekki lengur glæpur.
“Key Point Imrali: The Power of Freedom.” Nú talaði ungur lögfræðingur, Newroz Uysal, Lawyer frá Asrın lögfræðingateyminu sem vinnur í þágu Öcalans leiðtoga Kúrda. Hún var ein þeirra sem heimsóttu hann á Imrali eyju á síðasta ári (fyrsti fundurinn var í maí, alls fjórir fundir, sá síðasti í ágúst). Hún lýsti aðstæðum á Imrali eyju. Þær væru frábrugðnar öllu sem við þekktum. Einangrunin væri slík. Þetta væri í bland til að pynta fangann. Allt væri þvert á alþjóðalög, allt frá því að neita fanganum um réttarhöld til þess að einagra hann frá umheiminum, fjölskyldu hans og lögfræðingum árum saman. Fangelsun Öcalan fyrir rúmum tuttugu árum var þegar hann var í þann veginn að skýra áætlanir sínar um friðsamlega lausn. Þá var lokað á allt einsog verið hefur undanfarin ár. Lögfræðingurinn sagði að á síðasta fundinum hefði Öcalan sagst vera sannfærður um að hægt væri að enda öll átök á milli Kúrda og tyrkneskra stjórnvalda á mjög skömmum tíma. Hann myndi sýna það í verki ef hann fengi leyfi til að setjast að samningaborði. Þessu hefði verið komið a framfæri við stjórnvöldin. En þá var lokað.

Í kjöfar erinda hófst lífleg umræða. Í salnum var fólk á lista yfir terrorsta, og einn tók til máls sem sagði að Tyrkir hefðu heitið háum fjárhæðum fyrir að fanga hann. Fyrir vikið væri hann í stöðugri lífshættu. Hann kvaðst vera saklaus af öllu ofbeldi og hvatti til að menn beittu sér fyrir því að saklaust fólk væri tekið af þessum listum. Þá var því harðlega andmælt að staða flóttamanna í Tyrklandi hefði batnað. Þeir væru notaðir á svívirðilegan hátt, meðal annars með því að þvinga unga menn til herþjónustu og væru meðal annars nú sendir til stríðsátaka í Líbíu.

Nú bíð ég spenntur eftir morgundeginum með enn fleiri erindum og umræðum.
Tyrklandsfundur1.JPG