MÁ ÉG KYNNA …


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 15/16.02.20.
Ætla má að almennt leggi fólk upp úr því að vera vel kynnt.  Eitt er víst að Íslendingar eru sammála um mikilvægi góðrar landkynningar. Við viljum koma á framfæri hve land okkar sé fallegt og hafi upp á mikið  að bjóða, óviðjafnanlega náttúru og margt frambærilegt og sumt framúrskarandi í listum og menningu. Á sviði stjórnmála og samfélagssmíðinnar almennt sé einnig sitthvað að finna sem þyki þess virði að beina sjónum að og gleðjast yfir.

Og þetta er ekki alveg innistæðulaust. Margt í viðbrögðum Íslendinga við efnahagshruninu þykir þannig hafa verið með ágætum og er þar ekki síst vísað í þá afstöðu almennings að vilja standa vörð um félagslega innviði okkar og standa saman gegn yfirgangi erlendra ríkja sem vildu þröngva okkur niður á hnén. Utan landsteina þótti einnig til eftirbreytni að gera misferli í heimi fjármálanna saknæmt og refsivert. Það er meira en sagt verður um flestar aðrar þjóðir.

Þessu viljum við gjarnan halda hátt á loft og koma á framfæri við umheiminn sem eins konar framlagi okkar til  heimsmenningarinnar og stjórnmálanna almennt. Í stuttu máli þá er okkur umhugað að sýna okkar góðu hliðar og þannig styrkja okkur í augum annarra – og þá einnig okkar eigin sjálfsmynd. Eitt leiðir af öðru. 

En virðing annarra og þá einnig sjálfsvirðingin þarf að vera verðskulduð. Sjálf eigum við margt ólært frá hruninu svo horft sé til þess tíma. Þúsundir þeirra sem urðu undir í efnahagshamförunum hefðu átt að fá styrkari hjálparhönd fram rétta. Og síðan er það hitt að meira höfum við ekki lært en svo, að allt virðist vera að sækja í nákvæmlega sama farið þar sem græðgin ræður för. Markaðsvæðing er aftur orðin mál málanna, ekki bara raforkunnar heldur einnig í fjármálaheiminum. Til stendur að endurtaka einkavæðingu þar, búa sem best í haginn fyrir fjárplógsmenn að gera samfélagið að gróðalind sinni. Almennt er fólk þessu andvígt en allt kemur fyrir ekki.

En hvað er til ráða í þjóðfélagi sem lætur örfáa einstaklinga ráðskast með auðlindir sínar, skattaskjól eru nánast eins og annað heimili auðmanna landsins svo þeir fái komist hjá því að leggja sitt af mörkum við rekstur samfélagsins og standa fyrir bragðið utan veggja þess; þar sem Namibíuhneyksli raska ekki ró þeirra sem standa í stafni þjóðarskútunnar …?

Kannski þarf hjálp erlendis frá, kannski þurfum við leiðsögn? Getur það verið?

Nú hefur það orðið niðurstaðan, að kalla á hjálp; að fá okkur til ráðgjafar og leiðsagnar sérfræðinga frá hvorki meira né minna en Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE. Og nú hefur það orðið úr að sérfræðingar þar á bæ hafa fallist á að ganga í málin með okkur. En hvaða mál?

Við bíðum spennt. Sagt hefur verið frá því í fréttum að sérfræðingar ÖSE í siðfræði væru mættir til landsins og ekki nóg með það. Svo var að skilja að þeir hefðu tekið til óspilltra málanna að rýna í útskrift af fyllirístali nokkurra þingmanna á vínbar fyrir nokkrum misserum! Mál sem vel að merkja setti þjóðfélagið á hliðina um nokkurra mánaða skeið og mátti ætla að það eitt hefði kennt einhverjum sína lexíu.

Í mínum huga er það svo að ef við ráðum ekki fram úr slíkum málum sjálf þá er okkur einfaldlega ekki viðbjargandi. Svo hlýtur sú spurning að vakna hvort virkilega engin takmörk séu fyrir því hvað menn tíni til í landkynningarstarfi sínu. Spyr sá sem ekki veit. 

En kynningarstarfið er ekki bara í aðra áttina. Auðvitað hljótum við að spyrja um hvernig sé komið fyrir dómgreindinni hjá hinu alþjóðlega stofnanaveldi, hvort sem það heitir ÖSE eða  Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg, sem þessa dagana velkist um í stormi vatnsglassins íslenska, ekki til að kanna réttmæti dóms Hæstaréttar sem gefið hefur íslenskum stórútgerðarfyrirtækjum heimild til að krefja almenning skaðabóta fyrir að hafa meinað þeim að sitja ein að öllum makrílkvótanum í hruninu. Nei, vegna formlegheita í dómi yfir einstaklingi sem enginn deilir um að hafi ekið undir áhrifum eiturlyfja í trássi við lög; verið dæmdur fyrir vikið á fleiru en einu dómsstigi og allir sammála um niðurstöðuna!

Þetta er einkennilegt upp á að horfa á sama tíma og dómstóllinn hefur vísað frá málum þar sem mannréttindi hafa sannanlega verið brotin á skelfilegan hátt.

Getur það verið að sjálfir sérfræðingarnir í siðfræði og stofnanir þeirra eigi sitthvað sameiginlegt með auðstéttinni á himinháu skattlausu kjörunum – nefnilega að standa utan samfélagsins og koma því aðeins auga á stöku flís á meðan bjálkarnir eru þeim ósýnilegir?
Ég leyfi mér að spyrja.

Fréttabréf