Fara í efni

OF EÐA VAN: FJÖLDAFANGELSUN EÐA FLÓTTI



Ég er hjartanlega sammála Andra Snæ Magnasyni þegar hann spyr í bók sinni Um tímann og vatnið hvort Ísland eigi að vera “mús sem læðist” eða hvort okkur beri “skylda til að styðja þá sem eru undirokaðir.”

Svar Andra Snæs er afdráttarlaust eins og við var að búast. Þess vegna segir hann að hlálegt hafi verið að sjá leiðtoga landsins leggja á flótta við komu Dalai Lama andlegs leiðtoga Tíbet hingað til lands vorið 2009. “Mér þótti flótti ráðamanna umhugsunarverður, hver er tilgangur sjálfstæðis Íslands eða lýðræðisþjóða almennt ef þau standa ekki með rétti hins veika andspnis hinum sterka?”

Undir þetta skrifa ég fullkomlega. Undirlægjuháttur íslenskra stjórnvalda gagnvart Kínastjórn náði náttúrlega mestum hæðum í júní 2002 við komu Jiang Zemin, þáverandi leiðtoga Kína. Gripið var til gríðarlegra öryggisráðstafana, skáeygu fólki á leið til Íslands var meinað að fara um borð flugvéla og komið var upp nauðungarbúðum í Njarðvíkurskóla þar sem grunaðir mótmælendur (einkum úr Falung Gong hreyfingunni) voru vistaðir. Að sögn munu aðrir hafa slæðst með inn fyrir múra hins nýja fjöldafangelsis, þar á meðal fræðimenn sem hugðust flytja fyrirlestra um alls óskyld mál við Háskóla Íslands.

Ég minnist þess að ræða þessi mál í Kastljósi við skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneyti þar sem ég tók sama pól í hæðina og Andri Snær gerir nú.    

Sennilega hefði þetta verið heppilegra dæmi að taka en feimni ríkisstjórnarinnar 2009 við að sjást með Dalai Lama og þar með móðga Kínverja. Það er vissulega rétt að ráðherrar urðu margir “vant við látnir” erlendis eða utan Reykjavíkur þegar fréttist af komu hins andlega manns en það átti ekki við um alla.

Ég var heilbrigðisráðherra á þessum tíma og staðráðinn að hitta Dalai Lama að máli sem ég og gerði og sótti auk þess samkomu hans í Laugardalshöll. Þetta kom rækilega fram í fjölmiðlum á þessum tíma. Annað hefði reyndar skotið skökku við því margoft hafði ég tekið þátt í samstöðufundum með Tíbetum, fyrir framan sendiráð Kína og á baráttufundum þar sem ég hafði tekið til máls og hvergi dregið af mér.

Slóðir á slíka viðburði er að finna í umfjölluninni sem vísað er til hér að neðan. Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, í sömu ríkisstjórn, hitti einnig Dalai Lama í Íslandsheimsókninni og þingmennirnir Björgvin Sigurðsson og Birgitta Jónsdóttir sem bæði höfðu beitt sér í tengslum við mannréttindabaráttu í Tíbet hittu hann einnig svo því sé til haga haldið.

https://www.ogmundur.is/is/greinar/fridflytjandi-heimsaekir-island