Fara í efni

MÍN SÝN Á HEIMSSÝN

Ávarpsorð á fundi félags sjálfstæðissinna í Evrópumálum:

Í eftirfarandi ávarpsorðum mínum á þessum hátíðarfundi Heimssýnar í tilefni eitt hundrað og eins árs afmælis fullveldis á Íslandi langar mig til að gera grein fyrir þremur þönkum sem stundum hafa leitað á mig að undanförnu.

Sá fyrsti tengist Heimssýn, nafni þessa félagsskapar. Síðan langar mig til að fara fáeinum orðum um það hvers vegna ég styrkist í þeirri vissu að okkar málstaður muni hafa betur þegar fram í sækir. Í þriðja lagi vil ég nefna hve mikilvægt ég tel það vera að við leiðréttum það ranghermi að andstaða við aðild að Evrópusambandinu eða veru okkar á hinu evrópska efnahagssvæði jafngildi andstöðu við alþjóðlega samvinnu. Svo ég tali út frá eigin hjarta þá þykir mér einmitt fátt mikilvægara en að leggja rækt við samstarf við Evrópuríki og reyndar heiminn allan. Það sem ég hef helst gagnrýnt eru þrengslin í alþjóðlegu samstarfi sem umlykur aðildina að Evrópusambandinu. Evrópusambandið er með öðrum orðum of smátt fyrir Ísland, þrengir um of að okkur.   

Þegar Heimssýn, félag sjálfstæðissinna í Evrópumálum, var sett á laggirnar sumarið 2002 urðu margir til að fagna tilkomu þess félagsskapar. Loksins væri kominn vettvangur til að setja hælana niður og sporna gegn því að Íslendingar yrðu endanlega skrifræðinu í Brüssel að bráð og þá ekki síður markaðshyggjunni sem ríður röftum á þeim bænum.

 Að sönnu voru þau einnig til sem fundu félaginu og málstað þess allt til foráttu. Heimssýn væri tímaskekkja, stekkur sem þau söfnuðust í sem ekkert vildu nýtt og óttuðust erlenda samvinnu; þegar aðrir stefndu út - á vit ævintýranna - þá vildi þetta fólk inn, horfði upp gömlu lúnu tröðina, eða er það ekki örugglega Heim-sýn með einu essi, var háðulega spurt.

Þótt þetta væri sagt okkur til háðungar þá er það sennilega svo þegar allt kemur til alls, að það er síður en svo fráleitt að velta þessu upp, eitt ess eða tvö? Er það heimurinn allur sem við viljum sjá eða er áherlsan á að missa aldrei sjónar á heimahögunum? Er það heims-sýn eða heim-sýn?

Heilræði kynslóðanna eru nánast á einn veg, ekki bara íslenskra kynslóða heldur á veraldarvísu, að þá fyrst verði heimurinn okkur sýnilegur þegar við höfum öðlast á því skilning hver við sjálf erum, þekkjum tröðina að heiman og þaðan út í heiminn.

Heita má að allir menningarheimar leggi okkur einmitt þessi ráð. Og þá einnig, að þegar við viljum færa veröldina til betri vegar, beri okkur að byrja á okkur sjálfum, okkar eigin reit, “maður verður að rækta garðinn sinn,” var lokaniðurstaða Birtings, í Candite Voltaires og tilbrigði við þennan skilning eru að sjálfsögðu ljóðlínurnar kunnu í Aldamótaljóði Einars Benediktssonar:

„Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja,
án fræðslu þess liðna sést ei, hvað er nýtt.
Vort land það á eldforna lifandi tungu,
hér lifi það gamla´ í þeim ungu.

Heim-sýn, heims-sýn? Þessar tvær nafngiftir eiga þannig heima saman, hið nýja í hinu gamla, heimtröðin ekki til að gera lítið úr, vilji menn yfirleitt kannast við sjálfa sig, enda hver vegur að heiman vegurinn heim, svo enn sé vitnað i þjóðskáld, að þessu sinni í vísdómsorð Snorra Hjartarsonar.

En það er líka á annan hátt sem við erum að vinna sigur á gagnrýnendum okkar. Við sem höfum ekki viljað gangast erlendu valdi á hönd og laga okkur að matborði Evrópusambandsins með sínu ódýra káli og verksmiðjuframleidda kjötmeti, að ógleyumdum orkupökkunum; í stuttu máli, við sem ekki höfum viljað gerast undirsátar í stöðluðu regluverki þar sem lýðræði á hvergi heima, höfum, þegar allt kemur til alls, náð því að vekja fólk til vitundar um að til eru aðrar leiðir og farsælli til að skipuleggja samfélag okkar en þær sem miðstýrð Brüsselhyggjan býður upp á.  

En áður en ég skýri hvernig ég tel okkur vera í þann veginn að sigrast á gagnrýnendum okkar vil ég nefna hve mikilvægt það er að skilja að Evrópusambandið eins og það hefur þróast frá því á miðjum tíunda áratug síðustu aldar er fyrst og síðast orðið að tæki; verkfæri peningaræði og markaðshyggju til framdráttar.

Þessa hugsun Evrópusambandsins höfum við innleitt á Íslandi í alltof ríkum mæli og má um það hafa mörg dæmi. Það segir sína sögu að það skuli hafa verið látið viðgangast að Bændasamtök Íslands væru sektuð um tugi milljóna fyrir að gerast vettvangur bænda til að ræða hagsmunamál sín og framtíðarsýn þar á meðal verðlag á landbúnaðarafurðum og þar með afkomu bændastéttarinnar, það flokkaðist undir saknæmt verðsamráð; að það skuli teljast óheimilt að styðja við bakið á ylrækt því það stangist á við ákvæði orku-markaðs-pakka eitt, tvö eða þrjú; að helsti vandi minn sem samgönguráðherra á sínum tíma, þegar ég vildi færa þungaflutninga af þjóðvegum út á hafið, skuli hafa verið að komast í gegnum nálarauga úrskurðarvalds í Brüssel sem efaðist um að heimilt væri að hlutast til um flutningsmarkað að þessu leyti; að okkur skuli meinað að ákveða hvort við flytjum inn kjötmeti hvort heldur er af heilsufarsástæðum eða til að vernda innlenda landbúnaðarframleiðslu og í framhaldinu verið sektuð um þúsundir milljóna fyrir að fara að eigin lögum hvað slíkan innflutning varðar.

Áfram mætti telja og aftur og enn áfram: Dæmin eru endalaus um það hvernig almannahagur hefur verið látinn víkja fyrir hagsmunum fjármagns og gróðahyggju.

En ef undanhaldið er á þennan veg, hvernig má það vera að ég telji mig eygja okkar sigur framundan?

Það byggi ég á tvennu.

Í fyrsta lagi vegna þess að ég trúi því að fólk muni á endanum velja lýðræðið, þá hugsun að valdið eigi að liggja hjá okkur, einstaklingunum sem myndum með okkur samfélag en ekki hjá fáeinum úr okkar hópi sem hefur tekist að skapa leikreglur sér í hag og á kostnað allra annarra.

Í öðru lagi vegna þess að viðhorfin eru að breytast í þá átt sem við viljum stefna; nefnilega að við viljum ráða því sjálf hvernig við högum orkubúskap okkar; að við viljum ráða því sjálf hvernig innviði við smíðum í samfélagi okkar, hvernig við búum að atvinnuvegum okkar og þá ekki síst matvælaframleiðslunni og þá einnig hvað við flytjum inn á matarborð þjóðarinnar.

Þau sjónarmið sem við höfum teflt fram um matvælaöryggi og sjálfbæra og heilnæma framleiðslu sækja á og heyri ég ekki betur en að málsvarar þess að réttlætanlegt sé að fljúga með dauðar kýr og sauðfé heimsálfa á milli – alla leið frá Nýja Sjálandi til Reykjavíkur – séu orðnir feimnari við eigin málflutning en þeir voru í fyrra og hitteðfyrra.

Og þegar þetta tvennt fer saman, lýðræðislegur vilji og það sem flestir sanngjarnir menn myndu kalla heilbrigða skynsemi þá kemur að því að þjóðfélagið verði lagað að þeim vilja og þeirri skynsemi. Sú aðlögun tekur tíma en sá tími líður hratt.

En aftur að Heimssýn með tveimur essum.

Full langt væri gengið ef ég segði að mér hefði verið skemmt í sumar leið þegar sem mest var hamast á því í blaðaskrifum til varnar orkupakka þrjú að andstæðingar hans væru fyrst og fremst fólk sem vildi ekki alþjóðlegt samstarf, óttaðist jafnvel umheiminn og vildi helst ekki af honum vita, eða gera menn sér grein fyrir því, var spurt með nokkrum þjósti, að með tilkomu Evrópusambandsins og inngöngu okkar í sameiginlegt efnahagssvæði ESB komust Íslendingar fyrst svo nokkru nemi í snertingu við erlendar stefnur og strauma, gátu nú tekið þátt í samstarfi um menntun og vísindi, búið hagfelldari umgjörð um viðskipti í samstarfi við aðrar þjóðir – vilja menn allt þetta fyrir róða, var spurt. Hvílíkt afturhald, hvílíkur heimóttarskapur!

Við lestur skrifa af þessu tagi velti ég því stundum fyrir mér hvort gæti verið að um vísvitandi afbökun væri að ræða eða einfaldlega, og væri það líklegra, að þarna væru á ritvellinum sögulaust fólk. En þótt mér væri ekki skemmt lá nærri að ég gæti brosað að þessum makalausa málflutningi.

Það fólk sem ég hef átt samleið með innan Heimssýnar í gagnrýni á þá vegferð sem Evrópusambandið lagðist í undir síðustu aldamót, hefur síður en svo verið andvígt alþjóðlegri samvinnu hvort sem er á sviði mannréttinda, vísinda, menntunar, menningar, umhverfismála eða viðskipta.

Fólk af minni kynslóð sem lagði fyrir sig háskólanám dreifði sér um alla Evrópu án nokkurrar fyrirstöðu, sumir fóru vestur um haf og fáienir annað. Íslendingar stóðu framarlega í stefnumótun og lagasnmíð á vegum Sameinuðu þjóðanna á sviði hafréttarmála, við stóðum að stofnun Evrópuráðsins og höfum stutt við það mannréttindastarf sem þar fer fram og innan fríverlunarsamtakanna EFTA stóðum við að því að skapa regluverk sem auðveldaði viðskipti yfir landamæri.

Á öllum þessum sviðum hefur verið ríkur lýðræðislegur vilji á meðal Ísendinga að þróa samstarf áfram og lengra. Og hver er kominn til með að segja að vísindamenn geti ekki unnið að sameiginlegum rannsóknarverkefnum án þess að undirgangast í leiðinni kvaðir um það hvernig Orkubú Vestfjarða skuli skipulagt og rekið? Hver segir að fyrirkomulag eins og hið frábæra Erasmus samstarf sem auðveldar ungmennum að heimsækja erlendar menntastofnanir um lengri eða skemmri tíma geti ekki verið rekið án þess að við jafnframt undirgöngumst að veikja varnir okkar gegn sjúkdómum í matvælaiðnaði? Hver segir að samstarf á fjölþjóða- eða alþjóðavettvangi krefjist þess að lýðræðinu skuli fórnað?

En það er einmitt á þessa taug, þessa lýðræðistaug, sem var stigið undir aldarlokin. Í stað þess að byggja samstarf Evrópuríkja á þeim grundvelli að almenningur fengi nokkru ráðið um hvert yrði stefnt í nærumhverfinu var gerð krafa um að allt gangverk samfélagsins tæki breytingum í anda miðstýrðrar markaðshyggju. Í þeim anda hefur síðan verið unnið innan Evrópusambandsins undangenginn aldarfjórðung. Það er þessu sem við höfum sameinast í að andmæla – ekki samvinnunni ekki einu sinni markaðshyggjunni því mörg í okkar hópi er hlynt því að markaðslögmálin skuli í heiðri höfð í ríkari mæli en sum okkar kæra sig um. Það er miðstýringin, andstaðan við hina miðstýrðu nauðhyggju, sem sameinar okkar.

Síðan er það að lokum hitt, að trúa því að umheimurinn hafi verið okkur hulinn áður en við stigum inn á hið evrópska efnahagssvæði lýsir ekki mikilli sögulegri þekkingu.

Í sumar fór ég um héruð í sunnanverðu Þýskalandi og kom á meðal annars til Reichenau sem er ekki langt frá landmærum Þýskalands og Austurríkis. Reichenau er eyja í Bodonse-vatni en eiði sem gengur út í eyna hefur gert hana manngenga bæði nú og einnig fyrr á tíð. Þarna voru reist mikil klaustur á Miðöldum enda lá þar um ein fjölfarnasta leið krossfara á “suðurgöngu” sinni til Rómar. Og viti menn, í gestabók var að finna nöfn tuga Íslendinga sem þarna höfðu átt viðdvöl.

Við þekkjum nafn Guðríðar Þorbjarnardóttur, sennilega víðförlasta Íslendings til forna, en í Grænlendingasögu segir að hún hafi farið til Rómar með viðdvöl í Reichenau.

Gestabókin góða frá Reichenau er komin á safn í Zürich í Sviss og ekki veit ég hvort þar er nafn Guðríðar að finna en þarna fæst þó staðfest að fjöldi Íslendinga var í þessum ferðum á Miðöldum og merkilegt hve vel tengdir þeir voru menningarstraumum álfunnar. Og sú var raunin jafnvel þótt hið Evrópska efnahagssvæði hafi ekki verið komið til sögunnar.

Þetta varð mér tilefni til að hugleiða hve víðförlir Íslendingar hafa verið alla tíð þótt skipaleysi og hörmungur yrðu þeim vissulega fjötur um fót um nokkurra alda skeið. Síðan var landinn aftur á faraldsfæti, ekki bara í Evrópu heldur um heiminn allan.

Þessi ævintýraþrá er og í anda þeirra sem neita að láta loka sig af heldur vilja þvert á móti geta horft til allra átta, haft heiminn allan í augsýn, enda er það inntakið í Heimssýn.

Og þannig er mín sýn á Heimssýn – hvort sem er með einu eða tveimur essum.