Fara í efni

RÍKISSTJÓRN MEÐ AÐILD VG: BETUR MÁ EF DUGA SKAL

Að undanförnu hafa “álitsgjafar” látið að sér kveða um frammistöðu ríkisstjórnarinnar á tveggja ára afmæli hennar.

Ég hef annað veifið verið að gera það lika þótt tilefnin hafi ekki verið afmælishátíðir.

Þannig hef ég:
1) hrósað ríkisstjórninni fyrir stefnu(festu) í heilbrigðismálum þótt meira fé þurfi að koma til.

2) hrósað ríkisstjórninni fyrir friðlýsingu á landi en um leið gagnrýnt virkjanaáform og linkind gagnvert laxeldi í sjó.

3) gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að veita pólitískan og fjárhagslegan stuðning við stórskipahöfn í Finnafirði án þess að um það hafi farið fram lýðræðisleg umræða.

4) gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir þjónustulund við NATÓ, stórfellda hernaðaruppbyggingu hér á landi og heræfingar í áður óþekktu umfangi.

5) gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir innistæðulausar lofgjörðir um EES og Evópusambandið, nú síðast pólitíska áróðursherferð Stjórnarráðsins um EES.

6) gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir stefnu hennar í utanríkismálum, og er stuðningur Íslands við forseatskipti  Trumps í Venezualea og NATÓ-árásin á Sýrland í apríl í fyrra án mótmæla Íslands, hámarkið/lágmarkið.

7) gagnrýnt aðgerðaleysi í landakaupum auðkýfinga.

8) gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að láta óátalda ólögmæta rukkun við náttúruperlur, þar með talið að selja aðgang að Þingvöllum.

9) gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að koma ekki betur til móts við öryrkja.

10) gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að heykjast á því að standa vörð um matvælaöryggi.

11) gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að ráðgera notendagjöld á vegunum.

12) gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir sð  undirgangast orkustefnu ESB og þar með markaðsvæðingu raforkunnar.

13) gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að stefna að stofnun Þjóðarsjóðs til að auðvelda markaðs- og einkavæðingu eigna þjóðarinnar.

14) gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að stofna til ástarsambands við OECD, tilraunastofu heimskapitalismans í hönnun samfélaga.
 

Auðvitað mætti halda áfram að segja kost og löst á ríkisstjórn, sem því miður var dæmd til að halla verulega til hægri með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs, í fjármálaráðuneyti, atvinnuvegaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti og síðan mannaráðningar út í hið óendanlega samkvæmt þessu pólitíska litrófi. Með þessu samstarfi var uppstokkun á kvótakerfinu út af borðinu og hef ég reyndar grun um að þar standi fleiri sem hundar á roði fyrir hönd kvótahafa en Sjálfstæðismenn einir.

Í stuttu máli þá hefur niðurstaðan orðið enn meiri hægrihalli en ég hafði jafnvel ótttast. Átti von á að VG stæði betur í ístaðinu og hreinlega gæfist ekki upp í framangreindum grundvallarmálum. Þannig hefði ég seint trúað því að VG talaði beinlínis fyrir markaðsvæðingu raforkunnar! Og því miður á varla við að segja að gefið hafi verið eftir því ekki var annað að heyra en að þetta væri orðin stefna flokksins!

Álitsgjafar fjölmiðlanna á þessum tímamótum, sem flestir eru velmeinandi markaðshyggjumenn af Samfylkingar- og Viðereisnargerðinni, hrósa ríkisstjórinni fyrir að hafa “komist vel frá erfiðum málum”.

Telja þeir þá gjarnan fyrstan upp Orkupakka3. En ég leyfi mér að spyrja hvort það gleymist ekki í þessu mati að hann var samþykktur gegn vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar samkvæmt margítrekuðum skoðanakönnunum! Þingmeirihlutinn sæll og sáttur en almenningur ósáttur. Er þetta að komast vel frá því máli?
Og þótt á Alþingi töluðu fáir fyrir áframhaldandi takmörkunum á innflutning á hráu kjöti, þá var það gegn meirhlutavilja þjóðarinnar að ríkisstjórnin gafst upp og hljóp frá gefnum fyrirheitum í því máli. Er það ekki óvirðing við kjósendur að segja að við svo búið hafi ríkisstjórnin komist vel frá því máli? Alla vega voru margir kjósendur sem veitt höfðu henni stuðning ósáttir í meira lagi.
Því get ég borið vitni.

Ein spurning í lokin, er enn verið að selja erlendum fyrirtækjum bréf til staðfestingar á því að þau stundi hreina framleiðslu með því að færa mengun þeirra á reikning Íslands? Ef svo er þarf að láta af því þegar í stað!

  

Betur má ef duga skal.