MARGT GOTT Í AMERÍKU

free museums.png

Þessa dagana höfum við hjón dvalist í Washington DC, höfuðborg Bandaríkjanna, en langt er um liðið síðan við höfum komið hingað. Við höfum notið gestrisni af hálfu heimafólks og mestrar af hálfu hálf-heimafólks. Íslendinga sem hér hafa búið lengi.

Auðvitað er varasamt að alhæfa um viðmót þjóða. Þó getur eitthvað hegðunarmynstur legið í loftinu. Við þekkjum hegðunarmynstrið í bandaríska valdakerfinu. Varla til eftirbreytni. En svo er það hitt hvernig okkur er tekið þegar við spyrjum til vegar, leitum aðstoðar í “almannarýminu”. Þar eru Kanar í góðum málum, tillitssamir, hjálpfúsir, vingjarnlegir og léttir á götu við gest og gangandi: “How are you doing?”

Hef tekið eftir ýmsum jákvæðum smáatriðum sem sum eru reyndar stór. Tvö dæmi:

Verið var að skoða vörur í matvörubúð. “Þessi ostur er héðan. Fólk vill neyta matar úr nærumhverfinu, m.a. af umhverfisástæðum”, sagði leiðsögumaður okkar í búðinni. Ég hugsaði mitt en lét ósagt að á Íslandi vildu ráðandi öfl helst flytja inn sem mestan mat, dauðar kýr og ær í þotuflugi heimshorna á milli, enda ætti íslenskur bústofn ekkert gott skilið eins tillitslaus og íslenska sauðkindin hafi verið um aldir, að ekki sé minnst á beljurnar okkar, í stríðinu gegn hlýnun jarðar. Ég lét þetta ósagt og taldi rétt að þegja.

Svo fórum við hjón í Smithsonian söfnin í miðbænum. Þar er aðgangur ókeypis á öll söfnin sem þar er að finna. Þetta á Ameríka kapítalismans til!
Þarna geta Íslendingar lært af Bandaríkjamönnum. Hjá okkur er þróunin í gagnstæða átt. Alls staðar farið að rukka, jafnt á Þjóðminjasafninu sem sjálfum Þingvöllum. Þar hefur meira að segja verið bætt í!

rafmagnslínur.png (1)

En talandi um kapítalismann. Sláandi er að rafmagnslínur eru hangandi á lúnum tréstaurum fyrir framan húsaraðir. Iðulega gerist það í stormviðri að tré falla á þessar rafmagnssnúrur. Þá er rafmagnið samstundis farið af hverfinu ef þá ekki hefur kviknað í.
Ég get mér til um að þetta megi skýra á þá lund að eigendur rafmagnsveitnanna vilji ekki sjá á eftir hagnaðinum í rafmagnsbransanum fara í umbætur á þessu fornaldafyrirkomlagi, fremur vilji þeir sjá gróðann renna ofan í eigin vasa.

Svona er það í Ameríku – margt gott og sumt slæmt.  

Fréttabréf