Fara í efni

FYRST GÁFU RÍKISSTJÓRN OG ALÞINGI FYRIR MARKIÐ …

… og svo byrjar boltinn að rúlla.

Með samþykkt Alþingis á þriðja orkupakka Evrópusambandsins var enn búið í haginn fyrir markaðsvæðingu orkunnar.

Þegar er “markaðurinn” að taka við sér. Samtök iðnaðarains hafa hvatt til þess að hraða því að Landsvirkjun verði bútuð niður í anda þessarar samkeppnisstefnu og framsýnir fjárgróðamenn leita nú allra ráða til að þræða upp virkjunarkosti, stóra og smáa. Þannig var nú um helgina auglýst eftir jörðum sem bjóða upp á smávirkjanir. Fjárfestar, erlendir og innlendir hafa þegar hafið umtalsverð kaup a slíkum jörðum. Margt hefur verið gert til að reyna að vekja stjórnvöld til ábyrgðar og að standa vörð um almannahag. Hvert árið er hins vegar látið líða en okkur sagt að nefndir séu að störfum. Á meðan kaupa miljarðamæringarinr Ísland og hliðunum fjölgar þar sem við erum krafin (ólöglega) um aðgangseyri að okkar eigin náttúru. 

Þess er ekki mjög langt að bíða að Evrópusambandið veiti fjárstyrki til framleiðslu á hreinni orku. Þá verður dreifikerfunum líka bannað að neita að samtengja “hreinar” smávirkjanir “markaðnum”. Í sjálfu sér lofsvert umhverfisns vegna en ekki góðar fréttir fyrir þau okkar sem vilja vernda íslenska náttúru fyrir ásælni peningamanna.  

Þær raddir heyrast að slík sé umhverfisváin í heiminum að öllu sé fórnandi fyrir “hreina” orku, jafnvel Dettifossi og Dynjanda.

En þarf ekki fyrst að spyrja til hvers eigi að nýta orkuna?

Erum við tilbúin að fórna náttúruperlum Íslands til að knýja gráðugan kapítalismann sem alltaf vill meira og meira til að framleiða bara eitthvað og sitthvað svo hann geti haldið áfram að vaxa og menga og ganga enn á náttúruna!

Inn í orkuframleiðslukerfi Íslands hafa stjórnvöld nú sett framleiðsluhvata til að flýta þessari þróun. Ömurlegt? Ekki bara ömurlegt og dapurlegt – heldur líka óskiljanlegt, alla vega af hálfu þeirra sem gefa sig út fyrir að vera umhverfissinnar og þiggja kosningu undir því merki.