HVERN ÁTTI AÐ SKJÓTA?

leyniskyttur.PNG

Heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, var um sumt snautlegri en efni stóðu til. Staðreyndin er náttúrlega sú að tilefni var fyrir íslensk stjórnvöld til að fagna þessum trausta bandamanni Íslands í NATÓ sem á táknrænan hátt staðfestir með heimsókn sinni samkomulag íslenskra og bandarískra stjórnvalda um að auka möguleika á hernaðarumsvifum NATÓ og Bandaríkjanna á Íslandi. Þetta er hinn napri veruleiki, annað eru umbúðir, aðeins til að sýnast.

Ástæða er fyrir núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum til að umfaðma kollegana á Íslandi sem standa með þeim alltaf þegar á reynir, þegar Washington skipar nýjan forseta í Venezuela eða þegar Ísland situr hjá við atkvæðagreiðslu í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um að fordæma hernaðarofbeldi Ísraelsstjórnar gegn Palestínumönnum. Utanríkisráðherra Íslands sagði að ályktunin hefði ekki verið nógu góð því hvergi hafi verið minnst á Hamas samtökin og ábyrgð þeirra en “að Ísland fordæmdi allt ofbeldi, hvaðan sem það á upptök sín.” Þetta er náttúrlega ósatt. Ef NATÓ og forysturíkið þar á í hlut þegir Ísland.

Við heimsókn Mike Pence til landsins sýndi almenningur með margvíslegum hætti samstöðu með þeim hópum sem verða fyrir barðinu á afturhaldsöflum í Bandaríkjunum en varaforsetinn er annálaður fyrir andstöðu sína við réttindi samkynhneigðra og ýmissa hópa annarra sem eiga á brattann að sækja í heimalandi hans. Það var því við hæfi að efna til samstöðu- og mótmælafunda og draga einkennis- og baráttufána samkynhneigðra að húni.

En einni spurningu er ósvarað. Hún varðar svokallað öryggiseftirlit með varaforsetanum. Heilum borgarhverfum var lokað, herþyrlur sveimuðu yfir Reykjavík meðan á dvöl hans stóð og vopnaða bandaríska hermenn var að sjá á byggingum í kringum Höfða þar sem varaforsetinn fundaði. Hvernig stendur á því að þetta er heimilað? Hvað hefur gerst frá því að þeir funduðu hér Reagan og Gorbatsjof 1986? Þeir funduðu líka í Höfða. Þá var talsverð öryggisgæsla. Úti fyrir Höfða var vopnað skip svo dæmi sé tekið. En ef ég man rétt var það frá Landhelgisgæslu Íslands! og þeir öryggisverðir, sem alla vega voru sýnilegir nema þá alveg í kringum þessa fulltrúa stórveldanna, voru íslenskir.

Erum við virkilega komin það langt ofan í vasann á bandarískum stjórnvöldum að þau taki hér yfir þegar þeim þykir henta? Hvern átti að skjóta ofan af húsþökunum? Hefði það verið í lagi? Þarf ekki að ræða þetta?

(Mynd Vilhelms er tekin af visir.is)   

 

Fréttabréf