Fara í efni

BJÖRGVIN HEIÐRAÐUR

Á þessari mynd má sjá Björgvin Magnússon horfa út um glugga á skátaskálanum  - Gilwellskálanum - á Úlfljótsvatni. Björgvin var um árabil mótandi í starfi á Úlfljótsvatni og saga hans og staðarins samofin.
Björgvin er 96 ára, í fullu fjöri, skrifar skrautskrift, ekur bíl og jafn ákafur um framgang lífsins og nokkur ungur maður. Svo er hann pabbi hennar Eddu, okkar ástsælu leikkonu.
Fjölskylda Jónasar B. Jónssonar - mín fjölskylda – vildi heiðra Björgvin á 95 ára afmæli hans í fyrra með því að heita því að færa skátaskálanum að Úlfljótsvatni að gjöf hlyn sem gróðursettur yrði Björgvin til heiðurs.
Af þessu varð síðan í dag.
Veðurguðirnir sáu um að gera daginn eftirminnilegan – ekki lognmollulegan heldur frekar á hinn kantinn – hressilegan!
Stundin var góð. Við nutum aðstoðar skógræktarmanna sem fundið höfðu fallegasta hlyn landsins í skógræktarstöðinni Þöll í Hafnarfirði. Framkvæmdarstjóri Skógræktarfélags Íslands, Brynjólfur Jónsson, hafði haft milligöngu um það en Steinar Björgvinsson hjá Þöll síðan fundið hlyninn, þann fallegasta í landinu, sjö ára, næstum eins flottur og viðtakandinn, Björgvin Magnússon.
Gamlir Gilwell skátar, tveir Atlar, einn Haukur og einn Svanur höfðu hver með sínum hætti byggt víddir inn í þessa athöfn. 
Á myndinni hér að neðan má síðan sjá sjálfan Magnús Gunnarsson, glaðbeittan og brosandi, leiðtoga skógræktarmanna um langt árabil en hann tók þátt í gróðursetningunni ásamt hinum eiginlega verkmanni, Jakobi Guðnasyni, staðarhaldara á Úlfljótsvatni. Hann kann handtökin!
Sá staður sem hefur þann mann í vinnu er í góðum málum.
Afmælisbarnið 96 ára, brosti sinu breiðasta. Þar með erum við öll hin sátt og ánægð.
björgvin 1.PNG (1)