STENDUR TIL AÐ BIÐJA KJARARÁÐ AFSÖKUNAR?


Birtist í helgarblaði Morgunblðasins 31.08/01.09.19.
Fyrir nokkrum árum varð mikið uppnám á Alþingi þegar til umræðu voru teknar boðsferðir bankastjóra með vini og vildarmenn í dýrar laxveiðiár. Í umræðunni á þingi voru þung orð látin falla um spillingu.
Fljótlega kom í ljós að það voru ekki laxveiðarnar sem fóru fyrir brjóstið á gagnrýnendum heldur hvernig að boðsferðunum var staðið. Þær höfðu nefnilega ekki verið færðar til bókar í fundargerðum bankaráðanna með tilhlýðilegum hætti.
Svo var því kippt í liðinn sem að sjálfsögðu bar að gera. En innihaldið var óbreytt - áfram veiddu menn – aðeins formið var lagað.
Eftir þetta heyrðist aldrei í þingsal minnst á spilltar laxveiðar bankamanna.

Þessar hugrenningar um meinta laxveiðispillingu hafa áður komið upp í hugann þegar ákvarðanir Kjararáðs heitins voru annars vegar. Heitins, segi ég því sem kunnugt er var Kjararáð ráðið af dögum með lögum fyrr á árinu. Sú lagabreyting var færð í mikinn réttlætisbúning, verið væri að koma til móts við kröfur “aðila vinnumarkaðar” og allra þeirra sem hafði verið “stórlega misboðið” af hálfu ráðsins.

En hvað var það sem misbauð fólki og hverjum var helst misboðið? Fyrst skal frægasta telja stjórn Viðskiptaráðs. Hún samanstendur af launahæstu forstjórum landsins. Þeir gátu ekki lengur á sér setið þegar biskup Íslands var, í boði Kjararáðs, látinn skríða yfir milljón króna mörkin og gerast þar með hálfdrættingur á við þá lægst launuðu í þeirra hópi. Þá var ályktað, og ályktunin var harðorð svo enginn skyldi velkjast í vafa um að nú væri Viðskiptaráði misboðið.

Þáverandi forystumenn verkalýðshreyfingarinnar og samtaka atvinnulífsins áttu einnig svefnlausar nætur og á Alþingi var talað um að lögsækja hið illa Kjararáð sem þó hafði ekki unnið sér annað til saka en að fara að lagabókstaf sem þetta sama Alþingi hafði mælt fyrir um að skyldi vísa því veginn, nefnilega að tryggja skjólstæðingum sínum, efsta hluta opinbera launakerfisins, sambærileg kjör og kjarasystkinum þeirra í Viðskiptaráði.

Til sanns vegar má færa að Kjararáð hafi  misstigið sig á einn hátt. Því bar nefnilega lögum samkvæmt að haga kjarabreytingum þannig að ekki raskaði jafnvægi á launamarkaði. Jafnvægið sem hér var átt við var jafnvægi hugans. Ekki mætti raska hugarró láglauna- og millitekjufólks þannig að það færi að hugsa sér til hreyfings í kjarabaráttu þegar kastljósum yrði beint að því misrétti sem væri við lýði í landinu.

Viðbrögðin voru öll á einn veg: “Hækkanir í prósentum eru allt of háar, þetta hefði þurft að gerast hægar, svívirða!” Aldrei var minnst á kjörin sjálf, hvað þá kjaramisréttið.

Háskólakennarar mættu fela doktorsnema, sem vildi rannsaka félagslega meðvirkni, að kanna skipulega umræðuna sem fór í hönd um formgallana í framgöngu Kjararáðs og hve alvarlegar afleiðingarnar gætu orðið á vinnumarkaði ef raskað væri rónni þar.

Þrjár ástæður eru fyrir því að vekja á þessu máls nú.

Í fyrsta lagi er nú að koma á daginn að forstjórar stofnana og fyrirtækja í ríkiseigu, sem nauðugir viljugir voru færðir undir Kjararáð í hruninu og haldið þar með lágmarks launabreytingum, höfðu rokið upp úr öllu valdi þegar þeir voru losaðir úr viðjum ráðsins með lagabreytingu árið 2017. Þetta þurfti ekki að koma á óvart því hlutafélagavæðing ríkisstofnana í kringum aldamótin var að hluta til gerð í því augnamiði að hafa réttindi af almennum starfsmönnum en færa kjör forstjóranna undir leyndarhjúp hlutafélagalaga. Þann leyndarhjúp hafði Kjararáð hins vegar sprengt opinn enda alltaf ætlunin með tilkomu Kjararáðs að hafa allt uppi á borði. Það er skýringin á því að samtök launafólks voru ekki andvíg Kjararáði nema þau vildu fækka fjölmennum hópum sem heyrðu undir það; hópum sem ætti einfaldlega að semja við í kjarasamningum.

Í öðru lagi er ástæða til að nefna þetta nú í tilefni af nýbirtum skattaskrám. Í þeim kemur í ljós hver tvískinnungurinn hefur verið í þessari umræðu; að harmagráturinn var sárastur hjá þeim sem best höfðu kjörin en vildu jafnframt forðast umræðu um eigin kjör með því að fjölga ekki í klúbbnum.

Í þriðja lagi nefni ég þetta í tilefni af glóðvolgri samþykkt miðstjórnar ASÍ. Þar kveður við góðan tón því þar á bæ vilja menn nú ekki aðeins ræða form heldur innihald, kjaramisréttið í þjóðfélaginu og leiðir til að draga úr því.

Einn á móti þremur hef ég stungið upp á. Ef forsetinn er með þrjár milljónir, þá á öryrkinn að fá eina. Eru menn til í þetta? Hvað segja stjórnir SA og Viðskiptaráðs? Við þyrftum náttúrlega að líta ofan í budduna hjá þeim líka.

En áður en við skiljum alveg við Kjararáð spyr ég hvort til standi að fólkið sem þar starfaði og fékk að ósekju yfir sig endalausar svívirðingar verði beðið afsökunar?

Fréttabréf