HELLSIFJÖRÐUR OG HAFRÓ

Hellisfjörður.PNG

Ánægjulegar voru þær fréttir að ríkið hygðist kaupa Hellisfjörð, eyðifjörð á Austfjörðum, inn úr Norðfirði.

Þýskur auðkýfingur hafði í hyggju að kaupa fjörðinn á 40 milljónir og nýta til fiskeldis, jafnvel byggja höfn. Það var hins vegar rökrétt að ríkið keypti, m.a. vegna þess að svæðið er á náttúruminjaskrá og í náttúruverndaráætlun 2009-2013 var lagt til að það yrði friðlýst. Svo er hin ástæðan, að koma í veg fyrir að auðmenn klófesti Ísland allt.

Ísland allt? Já, Ísland allt; með manni og mús. Þannig er okkur nú sagt að Hafrannsóknarstofnun sé orðin áskrifandi að greiðslum frá Radcliffe, breska auðkýfingnum sem í mestu makindum hefur verið að skófla í sig stórum landsvæðum á Norðaustulandi.

Ætla má að 80 milljónir úr vasa Radcliffes, sem mun vera upphæðin sem hann skammtar Hafró, sé hagnaður hans fyrir morgunkaffið þá daga sem kauphöllin er opin.

Slíkum aðilum er leikur einn að kaupa upp eina þjóð – sé hún á annað borð svo lítilþæg að þiggja greiðslur sem svo augljóslega eru inntar af hendi til að kaupa menn og mýs til þagnar.   

Fréttabréf