GETUR VERIÐ RÉTT AÐ SKIPTA UM SKOÐUN?


Biritst í helgarblaði Morgunblaðsins 17/18.08.19.

Ég er ekki frá því að umræða í þjóðfélaginu um innleiðingu orkustefnu Evrópusambandsins hér á landi sé að breytast. Að hluta til er það vegna þess hve mjög hún hefur dregist á langinn. Eða öllu heldur, hve mjög hún hefur verið dregin á langinn. Málþóf á Alþingi í mikilvægustu hitamálum getur þannig verið til góðs, skapað andrými og komið í veg fyrir fljótaskrift þegar hins gangstæða er sérstaklega þörf.

Þegar allt kemur til alls hefur málþóf á Alþingi sárasjaldan átt sér stað og þá nær eingöngu í málum sem gott var að hægja á.

En hvernig hefur umræðan breyst?

Það er helst á þann veg að hún snúist um inntak en ekki bara málsvara.

Í upphafi átti svo að heita að allir sem á annað borð væru fylgjandi nútímanum hlytu að vera fylgjandi stefnu Evrópusambandsins á þessu sviði sem öllum öðrum. Það væri því helst gamalt fólk, sem heyrði illa kall tímans sökum hrumleika, og svo forpokaðir þjóðernissinnar, sem settu sig upp á móti. Andstæðingar voru auk þessa fljót-afgreiddir sem “popúlistar”, en það hugtak, sem enginn þó skilur almennilega, er í þann veginn að verða skammaryrði um alla þá sem efast um framvinduna á forsendum ráðandi afla. Þetta á sérstaklega við þegar sjónarmið “popúlistanna” fer saman við almannavilja. Og í þessu máli fellur það náttúlega eins og flís við rass þar sem almannavilji er andstæður miðstjórnarvaldinu, hvort sem er í Reykjavík eða Brussel.

Þótt umræðan hafi skánað er enn rótað í gömlum ræðum og skrifumí í von um að finna því stað að andstæðingar markaðsvæðingar hafi einhvern tímann verið á þveröfugri skoðun og einmitt viljað markaðsvæða orkuna. Til nokkurs þykir vinnandi að leggjast í slíkt grúsk, því takist að finna þessu stað megi auðveldlega halda því fram að hagað sé seglum eftir vindi að hætti hentistefnumanna.

Erum við þar komin að kjarna þess sem ég vildi fá svar við, hvort geti verið málefnalegar forsendur þess að hafa skipt um skoðun í þessu mikilvæga máli.

Ég tel svo vera, þótt sjálfur hafi ég alltaf verið andvígur markaðsvæðingu raforkunnar.

Á tíunda áratug síðustu aldar, í þann veginn sem undirbúningur að markaðsvæðingu raforkunnar var að komast á fullan skrið undir handarjaðri ESB, trúðu því margir að samkeppni á þessu sviði væri til góðs og meira að segja bráðnauðsynleg. Þegar hafist var handa um framkvæmd stefnunnar, og miður góðar afleiðingar fóru að koma í ljós, þá var viðkvæðið jafnan að þetta væru einfaldlega vaxtaverkir líkt og öll mein unglinga voru tíðum afgreidd.

Þrátt fyrir þetta jákvæða viðhorf höfðu margir innan raforkugeirans á Íslandi þó efasemdir um það uppbrot á raforkustarfseminni sem þeim var gert að framkvæma í samræmi við fyrstu tvo áfanga markaðsstefnunnar, “pakkana”, sem svo eru nefndir, og vöruðu við því að þetta myndi leiða til verðhækkunar fyrir neytendur, sem og varð raunin. Í Svíþjóð, svo dæmi sé tekið, sáu menn það einnig gerast að varfærni fyrri tíðar manna, með varaafli úr uppistöðulónum, vék, þegar selja mátti orku á góðum prís suður í álfu með því að tæma lónin. Hagnaðarvon var nú farin að stýra för. Enda leikurinn til þess gerður

Annað fór nú og að koma í ljós. Og það voru gróðamöguleikar. Kæmust menn yfir eignarhald á orkunni yrði gróðinn vís þegar til langs tíma væri litið.

Á Íslandi hafa menn ekki sýnt fyrirhyggju varðandi eignarhald á auðlindum. Með löggjöf frá því undir aldarlok var hert á lagaákvæðum þess efnis að eignarhald á landi færðu landeigendum yfirráð yfir öllu því sem væri að finna í landareign þeirra, jafnt orku sem vatni. Að vísu eru skorður reistar um nýtinguna en sáralitlar þó þegar haft er í huga hvað í húfi er.

Við verðum nú vitni að því hér á landi að ásókn eykst í land þar sem slík gæði er að hafa og að jafnt og þétt færist eignarhaldið út úr landinu.

Allt þetta skýrir án efa að margir sem alla jafna eru markaðsþenkjandi finnst ástæða til að endurkoða afstöðu sína hvað raforku og vatn áhrærir og þá máta hvort hún er enn í samræmi við upphaflega hugsun þeirra um að tryggja sem best hag neytenda, náttúru og samfélags.

Þegar ESB nú sektar ríki fyrir að beygja sig ekki tilhlýðilega undir vönd markaðshyggjunnar þá tek ég ofan fyrir þeim sem búa yfir því sjálfstæði hugans að geta skipt um skoðun.

Svo er náttúrlega hitt til í dæminu, að fólk skipti um skoðun í hina áttina, til að vingast við vöndinn. En ekki er það til að taka ofan fyrir.

Fréttabréf