Fara í efni

Í GRIKKLANDI

Það er heitt í Grikklandi þessa dagana þar sem ég og Vala kona mín erum á ferðalagi. Og þrátt fyrir hlýnun jarðar var eflaust líka heitt þar fyrir tvö þúsund og fjögur/fimm hundruð árum þegar grísk menning reis hvað hæst. Merkilegt að yfirleitt hafi verið hægt að hugsa eins skýrt í jafn heitu landi án loftkælingar. En auðvitað voru, og eru enn, aðrar árstíðir svalari og svo voru böðin.

Ég hef oft leitt að því hugann hvernig menning þjóða rís og hnígur í tímans rás. En þarna stigu fram andans menn, Sókrates, Plató, Aristótels, Þúkydites, Aristofanes, Sófókles og fleiri og fleiri, allir hluti af sömu menningunni á sama svæðinu og á sama tímaskeiðinu, frá því um 500 árum fyrir Krist og næstu tvö hundruð árin þar á eftir.

Þótt grísk menning hafi þótt rísa hæst á  fimmtu og fjórðu öld fyrir Krist, hafði aðdragandinn verið langur, jarðvegurinn plægður ekki bara um ár og aldir heldur árþúsundir. Þetta mátti sjá á fornleifasafninu í Aþenu. Þar eru listilega gerðir munir frá bronsöld (3000 f.Kr. til 1000 f.Kr.), ker og styttur, vísbendingar um listfengi og hagleik – vitnisburður um menningarlegan áhuga. Á safninu er sýnt hvernig ilmvötn voru búin til og fékk safngesturinn að finna ilminn yfir þar til gerðum ílátum. Á skýringatextum var sagt frá því hve mikið hafi verið lagt upp úr hreinleika og góðum ilmi.
Á öðru safni mátti sjá vísbendingar (á máluðum myndum) um skrautleg og listilega ofin klæði og skart frá hámenningarskeiðinu og einnig síðari tíð.
Ekki má gleyma vísindunum, gangur himintunglanna var mældur og skráður þannig að tímatalið fór fram af ítrustu nákvæmni þegar í árdaga menningar. Stærðfræði, líffræði, lífeðilsfræði, jarðfræði (eða hvernig skyldum við hafa komist úr bronsöld í járnöld?), alls staðar vildu menn vera vel heima. Þannig þykja líffræðirit Aristotelesar markverð þótt þekktastur sé hann að sjálfsögðu fyrir heimspekilegar vangaveltur sínar.  

Annars er í mörgu sjáanlegt hve ríka áherslu forn Grikkir lögðu á heilbrigði til líkama og sálar. Þannig kenndi Sókrates að líkamleg linka tæki fljótt til sálarinnar. Á svæði sem grafið hefur verið upp, all fjarri Akrópólishæðinni, en er nú í miðri Aþenuborg, má sjá hvar forn akademía var. Húsakynnin höfðu greinilega verið byggð upp í kringum eins konar völl eða vettvang þar sem íþróttir voru stundaðar. Þessu ótengt, og þó ekki, er hve margir hinna þekktu grísku andans jöfra náðu háum aldri. Þannig varð leikritaskáldið Sófókles níræður svo dæmi sé tekið af slíkum öldungum. Sókrates varð sjötugur og hefði án efa orðið talsvert eldri hefði hann ekki verið dæmdur til dauða og þeim dómi fylgt eftir með eitri sem honum var gert að innbyrða.

Þótt beint lýræði væri rakið til Grikkja þá var það takmarkað við tiltekinn hóp í þjóðfélaginu og var kvenkyns helmingur þjóðfélagsins útilokaður. Það átti einnig við um útlenda menn og svo þræla. Talið er að á fimmtu öld hafi verið um 80 þúsund þrælar í Aþenu og hafi þrir til fjórir þrælar heyrt hverju heimili að jafnaði. Þá voru hópar þræla að störfum í steinnámunum þar sem hoggið var til grjótið í byggingarnar sem dáðst hefur verið að um aldir. Væri betur að við hugsuðum betur og meira til hlutskiptis þrælsins.
En á sama hátt og ekki er hægt að alhæfa um samfélag í Aþenu yfirleitt gilti hið sama um líf þrælsins. Þeir bjuggu við mismunandi kjör og gendu mismunandi skyldum. Þannig, svo dæmi sé tekið, mátti frjáls maður ekki veita þræl aðhlynningu því aðskilnaður skyldi vera á milli stétta. Var þá brugðið á það ráð að mennta þræla í læknavísindum, gera þá að læknum, og var aðskilnaðarvandinn þar með leystur gagnvart samþrælum en þræll mátti hins vegar hlú að húsbændum sínum.   

Andans menn báru arfleifð þessa tíma til síðari kynslóða. Haft hefur verið á orði að öll heimspeki í síðari tíma vestrænni menningu hafi verið neðanmálsgreinar við heimspeki Platós. Eitt er víst að þeir sem hæst risu í Grikklandi til forna fóru með himinskautum, sérstaklega á hámenningarskeiðinu á fimmtu og fjórðu öld en einnig fyrr. Þannig er talið að Hómerskviður hafi orðið til á áttundu öld f. Kr. en getgátur fræðimanna eru nokkuð á reiki þar um og ekki einu sinni víst að höfunduirnn Hómer hafi verið einn og sami maðurinn.   

Svo er það landafræðin. Þótt við tölum um gríska menningu þá megum við ekki blekkjast af síðari tíma sögu. Þannig var áhrifasvæði grískrar menningar mun stærra en Grikkland er í dag eða allt austanvert Miðjarðarhafið og Eyjahafið sérstaklega. Þannig var, svo dæmi sé tekið, Grikkinn Heródótus, sem kallaður hefur verið faðir sagnfræðinnar, frá Halicarnassus sem í dag heitir Bodrum og er hafnarborg á suð-vestur strönd núverandi Tyrklands.

Stórkostlegt er að koma á Akrópolishæðina þar sem hof Aþenu stóð og stendur að hluta til enn þrátt fyrir eyðileggingu árásarherja og gripdeildir um árþúsundir.

Ekki væri ég sáttur við arfleifð mína héti ég Elgin lávarður en um hann segir á skilti að undir hofið Erechtheion  hafi verið sett ný burðarsúla í eitt hornið í stað þeirrar sem hann tók árið 1801. Hún er nú í British Museum í London ásamt styttum og lágmyndum sem Elgin og hjálparkokkar höfðu á brott.

Elgin texti.PNG

British Museum neitar staðfastlega að skila ránsfengnum. Ekki ber það merki þess að sjálfvirðing sé í hávegum höfð á þeim bæ. Það þótti breska ljóðskáldinu Byron ekki heldur, en um hann lærðum við í skóla sem sem eitt merkasta rómantíska ljóðskáld Breta ásamt skáldvini hans Shelly.
Byron var líka getið í mannkynssögubókum fyrir að hafa barist í frelsisstríði Gríkkja sem varði í ellefu ár, frá 1821 til 1832 (þegar því endanlega lauk) en þá urðu Grikkir lausir undan Ottomanveldi Tyrkja.
Byron, sem lifði stríðið ekki af, mótmælti fornleifastuldi landa sinna hástöfum en greinilegt er að þau mótmæli hafa ekki náð eyrum breskra stjórnvalda enn þann dag í dag. Þess má geta að grískir safnamenn eru ekki búnir að gefa upp alla von, því á Akrólpólis safninu, sem nýlega var reist undir Akrópólis hæðinni eru eyður í lágmyndaraðir þar sem stolnum styttum má koma fyrir. Plássið er umtalsvert enda stolnar styttur og listaverk frá  Akrópólis fyrirferðmikil í British Museum í London. (Myndin að neðan sýnir hluta af ránsfeng Elgins í British Museum.)

En aftur að menningunni til forna og hinu rómaða gríska lýðræði sem vel að merkja náði ekki til kvenna sem áður segir.

Maður virðist þurfa að hverfa inn í heim goðsagna til að sjá konum gert jafn hátt undir höfði og körlum. En þar var líka vel í látið alla vega í Akrópólis. Aþena var þar allt um kring enda gyðja borgarinnar; gyðja visku, mennta og hreysti. Þegar valið var á milli guða til að gæta borgarinnar einhvern tímann í fyrndinni kusu menn Aþenu því hún þótti líklegri að færa borginni gæfu en herguðinn Ares sem einnig hafði þótt koma til greina. Aþena kom með olívutréð og áherslur sem þóttu til friðsamlegrar uppbyggingar. Enginn myndi þó valta yfir Aþenu! Á Akrópólis voru styttur sem sýndu Aþenu standa stolta og reifa yfir körlum sem lágu í valnum eftir viðureign við hana. Hún var hin öfluga sigursæla gyðja! Aþena var gyðjan sem færði framfarir og sigur.

Pallas Athena.PNG

En varðandi kynin í goðaheimi þá má ekki gleyma því að að Seifur, faðir hennar, var þrátt fyrir guðlega kosti sína hinn mesti skúrkur, yfirgangssamur og ofbeldisfullur og þá ekki síst gagnvart kvenkyninu.

Umhugsunarvert er að þrátt fyrir (karla)lýðræðið í Aþenu (sem ræður Periklesar, herforingja í Aþenu, lýsa svo vel í ritum Þúkyditesar) og skort á því í Spörtu (sem Perikles/Þúkytites gerir einnig skil), hinna tveggja stríðandi ríkja í borgarstríðinu á fjórðu öld f. Kr., bendir sumt til þess að hlutur kvenna hafi verið betri í Spörtu en Aþenu. Í Spörtu hafi karlar verið í hermennsku frá ungum aldri og þá fjarri heimili sínu gagnstætt því sem venjan var í Aþenu. Fyrir vikið hafi ábyrgð og stjórn á heimili og fjölskyldu verið í höndum kvenna í ríkari mæli í Spörtu en Aþenu.
Að hinu er þó að hyggja að alhæfingar í þessum efnum eru varasamar bæði fyrr og síðar. Þannig er í fyrsta lagi ekki hægt að alhæfa um stöðu kvenna, þeirra hlutskipti réðst af þjóðfélagsstöðu. Konur í samfélagi frjálsra Grikkja var þannig allt önnur en hinna ófrjálsu, hinna efnaminni eða útlendra kvenna.   

Til gamans má geta þess að Lísistrata eftir Aristófanes minnir á að konur í Aþenu voru ekki geðlausar gagnvart yfirgangi eins og margir munu þekkja sem hafa lesið eða séð leikritið. Í því vildu konur sameinast um það í gervöllu Grikklandi með aðferð sem konur einar gátu beitt - nefnilega að neita karlkyninu um kynlíf - að binda enda á innbyrðis borgarastyrjöld, hina langvinnu og mannskæðu Pelopsskagastyrjöld. Í leikritinu, sem fyrst var sett á svið árið 411 f. Kr., hafa konurnar árangur af samvinnunni sín á milli. En sömu réttinda og karlar nutu þær ekki. Um það er óhætt að alhæfa og umhugsunarvert hvernig síðari tíma saga kemur illa auga á þetta misrétti.

Að ganga um söfn Aþenu er eins og að sækja fróðleik í óþrjótandi brunn.

Á þjóðminjasafninu stöldruðum við við frásagnir af Ioannis Kapodistrias, sem var valinn af nýstofnuðu grísku þingi til að veita landinu forystu þegar árið 1827 áður en sjálfstæðisstríðinu endanlega lauk. Þá var hann kallaður heim til Grikklands en hafði áður starfað erlendis, verið um skeið utanríkisráðherra Rússlands og látið meðal annars að sér kveða á Vínarfundinum árið 1815, þar sem tekist var á um nýskipan Evrópu í kjölfar Napóleon stríðanna, til mótvægis við Metternich hinn austuríska sem öllu vildi ráða.
Ioannis Kapodistrias kann að vera ágætur maður en hann er einfeldningur, mun Metternich hafa sagt. Fannst honum Grikkinn of frjálslyndur. Það þótti grískum stór-landeigendum líka því hann beitti sér fyrir því að landi þeirra yrði skipt upp og endurúthlutað.   
Ioannis Kapodistrias var bæði frjálslyndur og framsýnn. Honum hefur verið eignuð svissneska stjórnarskráin sem enn er við lýði í dag eða þann hluta hennar þar sem kveðið er á um sambandsríki kantóna. Um hlut kvenna í stjórnskipan þess lands er best að segja sem minnst sem kunnugt er, en ótrúlegt er hve lengi hann var fyrir borð borinn.  
Ioannis Kapodistrias vildi hins vegar virða sjálfsákvörðunarrétt héraða þar sem þess réttar var óskað innan laustengds sambandsríkis. Þetta skildi Metternich ekki og þótti bjánaskapur.
Dómur sögunnar er hins vegar á sveif með Ioannis Kapodistrias um miklvægi valddreifingar hygg ég – og vona.
Ioannis Kapodistrias var ráðinn af dögum árið 1831 og er talið að það hafi verið að undirlagi grískra landeigenda.

Svo kom tuttugasta öldin með hertöku Þjóðverja, borgarastyrjöld í kjölfarið, herforingjastjórn og lýðræði að nýju. Þjóðverjar fóru illa með Grikki, blóðmjólkuðu þjóðina, létu hana á meðal annars lána sér himinháar upphæðir sem þeir síðan neituðu að borga til baka.
Þessu var hreyft af hálfu Grikkja þegar Evrópusambandið þvingaði grískan almenning til að skera niður úr snörunni þýska og franska banka sem lánað höfðu spillingarlán til Grikklands, til vopnakaupa og annars ámóta. Grikkir verða að standa við sitt sagði ESB og átti þá ekki við þá sem nutu lánanna heldur grískan almenning.
Hvorki kanslari né fjármálaráðherra Þýskalands máttu heyra minnst á gömul lán frá Grikkjum og þegar Grikkir sögðust vera blankir og ættu erfitt með að borga þýskum og frönskum bankamönnum spurðu þýskir þingmenn á móti: Af hverju seljið þið ekki grísku eyjarnar, alla vega þær sem ekki eru í byggð svo eru náttúrlega járnbrautirnar og hafnirnar …

En áfram skín sólin á Grikkland eins og hún hefur gert frá ómunatíð og geisla hennar njótum við nú á eyju í Eyjahafinu; eyju í byggð og að því er við best vitum í grískri eigu en ekki auðkýfinga sem nú vilja allt gleypa og þar með að sjálfsögðu lýðræðið.

En auðvitað á Eyjólfur eftir að hressast. Vonandi fer þeim fjölgandi sem ekki eru tilbúin að bíða í nokkur hundruð ár.