“ICELANDAIR” BÝÐUR UPP Á KAFFI OG KÖKU Á ÞJÓÐHÁTÍÐ

fáni í flugvél.PNG
Ég varði fyrrihluta þjóðhátíðardagsins í flugvél flugfélags sem einu sinni hét Flugleiðir og einhvern timann Flugfélag Íslands, en heitir nú Icelandair fyrir millilandahlutann og Iceland Connect fyrir hinn innlenda.

Icelandair er þó ekki útlenskara en svo að í tilefni dagsins var um borð í vélinni boðið upp á súkkulaðiköku með íslenskum fána á lítilli stöng. Þetta var vel til fundið og kom öllum í gott skap, útlendingum jafnt sem Íslendingum.

Síðan fékk maður kaffi - og viti menn endurgjaldslaust.

Máltíðir í flugvélum hafa ekkert með svengd að gera. Í flugvél er enginn svangur klukkan sjö að morgni og varla næstu þrjá tímana. Máltíðir í flugvél eru afþreying. Í gamla daga fengu ALLIR myndarlegan matarbakka. Það var mikil íþrótt að koma fyrir hnífapörum, glösum, aðskiljanlegum innpökkuðum hlutum máltíðarinnar, taka varlega utan af þeim, brjóta saman, raða þannig að haganlega færi. Svo lauk máltíðinni. Þá var stutt í lendingu.

Nú borða menn bara á Saga-farrými endurgjaldslaust. Þar situr fólk sem á það sammerkt að enginn borgar undir sig, atvinnurekandinn eða skattborgarinn borgar. Þar fer enn fram afþreying flugvéla-máltíðarinnar. Alltaf svoldið óþægileg þessi aðgreining enda óviðeigandi.

En kannski á breytt afþreyingarstefna í flugvélum þátt í að halda fargjöldum í lágmarki. Ef svo er þá er það þess virði. Himinhátt flugverð einangrar okkur frá umheiminum og margt er á sig leggjandi til að ná því niður.

Hitt er þó umhugsunarvert, að þegar rukkað er fyrir hvert viðvik, líka vatnssopann eða þegar farþegi hefur ekki náð að bóka sig á netinu og þarf aðstoð eða þegar taskan er tveimur sentimetrum of breið, þá gerist nokkuð.

Nú stofnast nefnilega til viðskiptasambands. Slíkt samband snýst um hvað þú borgar annars vegar og færð fyrir þinn snúð hins vegar. Kaffibollinn hættir að vera bara kaffisopi í bolla með sínum notalega ilmi. Hann er þarna fyrir framan þig vegna þess að þú borgaðir fyrir hann, ekki vegna þess að einhvern langaði til að bjóða þér upp á kaffibolla. Og þú spyrð, er hann í lagi, er ég að fá það sem um var samið? Þarf að kalla til Neytendasamtökin?

Ekki dró það úr ánægjunni í flugvélinni í morgun að fá þjóðahátðarkökuna á litla flugborðið fyrir framan sig – allt í boði “Icelandair”.

Ekki svo að skilja að ég sé haldinn þeirri sjálfsblekkingu að ég viti ekki að auðvitað borgum við á einhverju stigi fyrir svona trakteringar og varla nokkur að sjá eftir lítilæðinu upp úr eigin vasa. En það sem upp er að koma í minn huga hefur ekkert með peninga að gera. Bara samhengi hlutanna, hvort allt sem þú gerir skuli alltaf og ævinlega og undir öllum kringumstæðum, á hverju augnabliki, slegið inn í debet og kredit og talið í krónum og aurum.

Fréttabréf