Fara í efni

VERKALÝÐSHREYFINGUNNI BER AÐ BEITA SÉR Á ALÞJÓÐAVÍSU

Birtist í Sameyki, fréttabréfi Stéttarfélags í Almannaþjónustu, maí 2019.
Ástæður þess að samtök launafólks ættu að taka þátt í alþjóðlegu starfi eru af tvennum toga. Annars vegar til að gæta hagsmuna þeirra sem þau voru stofnuð til að standa vörð um og hins vegar til að sýna í verki samstöðu um góðan og verðugan málstað.

Að standa vörð um hagsmuni launafólks

Á alþjóðavísu er sífellt verið að festa í samninga, og í framhaldinu lög og reglur, ákvæði sem snerta aðstæður okkar og kjör, hvers og eins eða sem samfélags, hóps eða hreyfingar.
Um þetta má nefna mörg dæmi. Ég nefni gríðarlega mikilvæga, en að sama skapi lítt fýsilega, samninga á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, World Trade Organization (WTO), sem allar götur frá því sú stofnun var sett á laggirnar um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, hafði unnið að samningum sem snúa að innri samfélagsgerð aðildarríkjanna. Þetta voru og eru hinir svokölluðu GATS þjónustusamningar, General Agreement on Trade in Services. Leiðarljósið þeirra hefur alla tíð verið vel sýnilegt: Markaðsvæðing.

Velferðarþjónustan varin

Þjónustusamningarnir í GATS viðræðunum hafa tekið til velferðarþjónustunnar ekkert síður en annarra þjónustugeira og þarf varla að fjölyrða um hve mikilvægt er að standa vörð um hana, bæði þau verkefni sem henni er ætlað að sinna og sem starfsvettvang. Auðvitað skiptir sköpum hvort velferðarþjónustan er rekin með það að markmiði að þjóna samfélaginu eða til að skapa eigendum sínum arð. Við GATS samningaborðið er ákveðið hvaða þættir samfélagsstarfseminnar skuli lúta lögmálum markaðar, boðnir út og einkavæddir og hverjir skuli þar undanþegnir og reknir á vegum samfélagsins og til þess eins að þjóna því.
Á fyrstu árum GATS samninganna var reynt að halda viðræðunum á bak við tjöld enda var vitað að markaðsvæðing velferðarþjónustunnar fellur ekki í kramið hjá almenningi og þess vegna var ákveðið að reyna að nota gamalkunnugt ráð og láta fólk standa frammi fyrir gerðum hlut. Árið 2003 settu PSI, Public Services International, Alþjóðasamtök launafólks í almannaþjónustu, sem BSRB og þá einnig Sameyki eiga aðild að, fram þá hugmynd, að komið yrði á fót eins konar þingi fulltrúa alþjóðaverkalýðshreyfingar og ýmissa almannasamtaka sem starfaði jafnhliða fundum WTO til að stuðla að lýðræðislegri umræðu og veita stofnuninni aðhald.

Viðleitni til gagnrýnins aðhalds

Frá því er skemmst að segja að þessu var illa tekið af hálfu WTO, en tillagan er engu að síður til marks um viðleitni gagnrýninnar og vakandi verkalýðshreyfingar til að gera samningaviðræður um skipulag samfélagsins sýnilegar og koma sjónarmiðum launafólks á framfæri.
Að því kom að GATS viðræðurnar sigldu í strand vegna andstöðu frá fátækustu ríkjum heims sem þótti ríki heimurinn vilja þvinga sig til að einkavæða og búa þannig í haginn fyrir alþjóðafjármagnið að hremma eignir þeirra. Alþjóðlega verkalýðshreyfingin lagðist á sveif með hinum snauða heimi enda sama sinnis.
Brugðu þá fimmtíu ríkustu þjóðir heims, þar á meðal Ísland, – af þeim eitt hundrað tuttugu og þremur sem aðild höfðu átt að GATS samningunum – á það ráð að hefja viðræður undir merkjum TISA – Trade in Services Agreement. Aftur var reynt að semja í leyni en upp komst um makkið og má þar þakka uppljóstrunum Wikileaks og árvekni samtaka á borð við PSI.

Vilja gerðardóma á forsendum fjármagns í stað dómstóla réttarríkisins

Hægt hefur á þessum samningum síðustu misserin en andstaðan gegn þeim hefur jafnt og þétt verið að herðast og hefur gagnrýnin mjög beinst að því að með TISA sé verið að auka vægi handhafa fjármagnsins á kostnað lýðræðisins og réttinda launafólks, meðal annars með því að færa vald til að útkljá viðskiptadeilur til sérstakra gerðardóma þar sem fjármálavaldið situr við borð í stað þess að láta hefðbundna dómstóla réttarríkisns um hituna, með öðrum orðum auðvald á kostnað almannavalds.
Það segir sig sjálft að fyrir almenning skiptir höfuðmáli hver umgjörð efnahagsstarfseminni og þá ekki síst velferðarþjónustunni er búin og þá hve hátt undir höfði réttindum launafólks, þáttum sem varða umhverfisvernd, og mannréttindi almennt, eru gerð.
BSRB og aðildarfélög bandalagsins hafa haft ríka aðkomu að starfi PSI og tekið þátt í umræðu og þá aðhaldi að samningaviðræðum um GATS og TISA, bæði á alþjóðavísu og einnig hér heima. Þannig varð BSRB upphaflega til að beina sjónum að skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld höfðu verið að undirgangast í GATS viðræðunum á upphafsárum þeirra, nánast í kyrrþey! Það eru engar ýkjur.

Evróputilskipanir ná til okkar

Sama má segja um lög og reglur innan Evrópusambandsins, ESB, og Hins evrópska efnahagssvæðis, EES, sem snerta starfsumhverfi, réttindi og kjör launafólks. Nægir þar að nefna margfræga þjónustutilskipun ESB á sviði velferðarmála sem var mjög til umræðu uppúr aldamótum en hún tók miklum breytingum til batnaðar fyrir tilstilli samtaka launafólks European Trade Union Confederation, ETUC, og European Public Service Union, EPSU. Einnig á þessum vettvangi hafa félagar og félög innan BSRB látið til sín taka á afgerandi hátt og tvímælalaust haft umtalsverð áhrif.
Þetta á að sjálfsögðu einnig við um önnur samtök launafólks.  Þá hafa Alþýðusamband Íslands og BSRB haft fasta aðkomu að Alþjóðavinnumálastofnuninni, ILO, í Genf og tekið þátt í málafylgju á þeim vettvangi í þágu launafólks

Göfgandi starf

Eins og framangreindar tilvísanir í alþjóðasamstarf á vegum verkalýðshreyfingarinnar bera með sér, þá samtvinnast það sem flokka má sem hagsmunagæslu hinu sem við myndum fella undir samstöðu og samstarf.
Samstöðu um göfugan málstað skal ekki vanmeta. Það er þeim sem þarfnast stuðnings mikils virði að eiga bakhjarl í verkalýðshreyfingunni og síðan er hitt að óeigingjarnt starf til hjálpar þeim sem eru hjálparþurfi er mannbætandi.
Þannig hefur hin alþjóðlega verkalýðshreyfing stutt við bakið á minnihlutahópum, flóttafólki, útskúfuðu og samningslausu farandverkafólki, samkynhneigðum, og ýmsum þeim sem víða um heim eru ofsóttir.
Að lokum er ástæða til að minnast þess að það er hin alþjóðlega verkalýðshreyfing sem harðast hefur gengið fram í að halda fram kröfum um jöfnuð, jafnrétti kynjanna, réttinum til heilbrigðisþjónustu og menntunar, óháð efnhag, vatni fyrir alla, hreinu lofti og mannréttindum innan sem utan vinnustaðarins.
Auðvitað eigum við heima í þessum slag. Það á ekki að vera neitt val. Það er skylda okkar og þannig verður verkalýðshreyfingin sú hreyfing sem ég held að þorri félagsmanna vilji að hún sé.