Fara í efni

ÞINGRÆÐIÐ VEGUR AÐ LÝÐRÆÐINU

Hin langa umræða um markaðsvæðingu raforkunnar á Íslandi er ekki það versta sem hent hefur á Alþingi Íslendinga. 
Þvert á móti er margt jákvætt við hana. Hún sver sig í langa hefð um andóf minnihluta á þingi gegn umdeildum lagafrumvörpum þingmeirihluta. Ég nefni einkavæðingu bankanna, Kárahnjúkavirkjun, vatnalögin, hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins og Landssímans (sem aldrei stóð til að selja, ekki fremur en bankana), réttindi öryrkja, eignarhald á auðlindum í jörðu og fleira, húsnæðiskerfið, réttindamál launafólks, ekki mörg mál en mikilvæg sem hefði mátt stoppa með frekari töfum. Margt vantar í þennan lista og nefni ég þar framsal kvótans og þar með einkavæðingu sjávarauðlindarinnar. Nokkurra vikna umræða til að stoppa kvótalögin hefði verið til góðs svo ekki sé fastar að orði kveðið! 

Í umræðu á Alþingi heyrðist þingmaður halda því fram að að hinni löngu umræðu um markaðsvæðingu orkunnar væri stefnt gegn lýðræðinu. Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé misskilningur. Umræðunni kann að vera stefnt gegn þingræðinu því á þingi er ótvíræður meirihluti fyrir málinu. Umræðunni er hins vegar ekki stefnt gegn lýðræðinu. Ítrekað hefur komið fram að meirihluti þjóðarinnar er málinu andvígur. Samkvæmt þessu er það þingræðið sem vegur að lýðræðinu.