Fara í efni

ÓGNAR KOLEFNISJÖFNUN NÁTTÚRU ÍSLANDS?


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 25/26.
Orð dagsins er kolefnisjöfnun. Nú síðast hjá sjálfri þjóðkirkjunni. Í vikunni kom fram að hún ætlar að kolefnisjafna sjálfa sig eins og það heitir. Þetta er prýðilegt. Jákvæður vilji og svo umræðan um málefnið hefur án efa áhrif á breytni okkar til góðs. Það eru hinar stífu formúlur og kerfi sem hins vegar er ástæða til að gjalda varhug við. Siðareglur alþingismanna koma upp í hugann. Það sést strax og á að fara að beita þeim.

En er þá umræðan um kolefnisjöfnun mikilvægari en jöfnunin sjálf? Umræðan er mikilvæg að því leyti að hún er leitandi og þá vonandi einnig fyrirbyggjandi. Hins vegar er alltaf hætt við því að fyrr en varir sé framkvæmdin orðin að einhverju allt öðru en lagt var upp með. Þannig getur kolefnisjöfnun hæglega orðið að eins konar syndaaflausn. Við höldum áfram að fljúga, keyra, sigla, byggjum jafnvel kolakyntar verksmiðjur og stórskipahafnir, en viti menn, eftir að við erum búin að hola niður nokkrum hríslum, kannski mörgum ef við höfum syndgað mikið, þá, eins og hendi sé veifað, eru allar okkar syndir að baki.

Auðvitað er þetta svolítið öfugsnúið því allt tengist þetta viðleitni til að gera vel. Til þess að koma góðum markmiðum og áformum í framkvæmd komum við okkur saman um aðferðir og smíðum reglur og jafnvel heil kerfi til að gera framkvæmdina sem markvissasta.

En þá gerist það. Kerfin taka yfir, fara að lifa sjálfstæðu lífi, verða að tilgangi í sjálfu sér. En upphafleg markmið, til dæmis að slá saman í eitt stuðningi við dreifðar byggðir og að klæða landið skógi til nytja og fegurðarauka gleymist að ræða í tilætluðu samhengi.    

Ég ætla að nefna dæmi til að skýra hvað átt er við. Sjálfum finnst mér skógrækt virðingarverð og æskileg. Þar sem hún á við. En það er ekki alls staðar. Og þar kemur að dæminu mínu. Ég var einu sinni boðinn í sumarbústað norður í landi. Þetta var efsti bústaðurinn í fagurri fjallshlíð. Yfir gnæfðu fjallatindar. Ég spurði húsráðanda, sem var í leigulandi með bústað sinn, hverju það sætti að hlíðin ofan við bústaðinn væri alsett nýlega gróðursettum trjáhríslum. Þarna væru lyngbrekkur sem kæmu til með að hverfa undir trén þegar vöxtur kæmi í þau. “Er ekki eftirsjá að berjalynginu”, leyfði ég mér að spyrja, “til hvers öll þessi tré sem í senn eyðileggja lyngið og byrgja fjallasýn?”

Gestgjafi minn sagðist vera mér sammála. “En vandinn er sá”, útskýrði hann, “að landeigandinn er skógarbóndi sem fær styrk fyrir hverja plöntu sem hann kemur í jörð. Og því miður er hann þannig sinnaður að hann gildir einu hvar gróðursett er. Og bókhaldara fjárveitandans er líka sama. Sá telur bara trén.”

Eflaust á þessi afstaða norðlenska landeigandans ekki við um alla skógarbændur. Fjarri lagi. En þetta á hins vegar við um öll kerfi eða flest. Þau þurfa á því að halda að við umgöngumst þau með gagnrýnum huga og látum þau ekki taka af okkur völdin.

Annað dæmi um skógrækt og nú jákvætt. Skógræktarfélag Kópavogs hefur með áratuga ræktunarstarfi gert jörðina Fossá í Hvalfirði að sannkölluðum unaðsreit með skjólsælum lundum en jafnframt gætt að því með hugkvæmni að varðveita útsýnið yfir Hvalfjörðinn á völdum stöðum. Þetta minnir okkur á hverju alúðarstarf skógræktarfélaga skilar.

Það þýðir hins vegar ekki að skógrækt eigi alls staðar við. Alls ekki, enda er Ísland land víðerna og fjallasýnar. Varla viljum við skerma hana af með trjágróðri þannig að okkur verði hulin grasi gróin túnin, lyngbrekkurnar og bláminn í fjarlægðinni.  

Nú þegar samfélagið setur í fjórða gír við kolefnisjöfnun verður að gæta að því að hið sama gerist ekki og hjá norðlenska trjábóndanum sem áður er nefndur: hrísla í jörð og þá komi krónur í vasann; og nú aftur hrísla í jörð og ég má kaupa næsta flugmiða!

Við þetta bætast hagsmunir aflátssölunnar sem nú er hafin á fljöþjóðavettvangi  – að sögn til að vernda umhverfið. Hún gengur út á að sá sem ekki mengar, og er duglegur að gróðursetja, geti selt hinum sem mengar bréf upp á skipti, hinn hreini fær evrur í vasann, hinn óhreini má áfram vera óhreinn.
Hrein orka frá náttúrunnar hendi hefur sett Íslendinga í kjörstöðu á þessum markaði meintrar umhverfisverndar. Enda er það ástæðan fyrir því að þrátt fyrir umhverfisvæna orku sína mælist Ísland sem umhverfissóði. En sóðaskapurinn skýrist af syndabréfabraski, ekki orkuöflun!

Það er ekki allt sem sýnist. Getur verið að kolefnisjöfnun muni á endanum gera tvennt, fjölga flugferðum og eyðileggja víðernin?

Spyr sá sem ekki veit.