Fara í efni

GUÐLAUGUR ÞÓR OG ARI TRAUSTI VÍSI EKKI VEGINN


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 13/14.04.19.
Allar götur frá því um aldamót hefur Evrópusambandið verið að varða leiðina inn á markaðinn með rafmagn sem vöru. Samkvæmt fyrstu vörðunum var raforkuiðnaðurinn bútaður niður í einingar, meðal annars með því að aðskilja framleiðslu, flutning, dreifingu og sölu. Síðan voru stigin skref til að láta þessar einingar haga sér á markaðsvísu og með síðustu vörðunni, 3. orkupakkanum, er stefnt að því að láta hinn nýja markað starfa á samræmdan hátt við innri markað Evrópusambandsins (ESB) fyrir raforku.

Á þessari þróun verður enn hert með 4. orkupakkanum sem er búinn að vera í umsagnarferli. Þarna leiðir eitt af öðru. Smám saman taka reglur fjórfrelsisins – um frjálst flæði vöru, vinnuafls, þjónustu og fjármagns – yfir. Þær eru lokamarkið, grunnreglurnar sem varða veginn. Þegar upp verður staðið mun ekkert staðbundið lýðræði verða við lýði. Lögmál markaðarins munu ein ráða.

Frá þeim verða engin frávik leyfð nema um þau sé sérstaklega samið á sameiginlegum vettvangi ESB og Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Þessu hafa Íslendingar fengið að kynnast með evrópsku matvælalöggjöfinni. Þar stóðu menn í þeirri trú að við gætum innleitt hana en síðan bundið í íslensk lög ýmsa fyrirvara. Þeir fyrirvarar – íslensku lagaákvæðin - hafa nú verið dæmd ólögleg, brjóta gegn “fjórfrelsi” ESB/EES, nokkuð sem hefur valdið því að nauðsynlegt væri að taka málið upp frá grunni gagnvart Evrópusambandinu og það á algerlega nýjum og breyttum forsendum, vildu menn á annað borð standa á sínu. Og það á að sjálfsögðu að gera.

En nú vill ríkisstjórnin fara með orkuna í sama farveg og tapaðist með matvælalögunum! Samþykkja pakkann en freista þess síðan að festa fyrirvara í íslensk lög.  

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðu um þessa leið á Alþingi.

Guðlaugur Þór, utanríkisráðherra, og Þórdís Gylfadóttir, orkumálaráðherra, segja þetta ekki vera neitt tiltökumál enda fjalli þetta ekki um annað en markaðsvæðingu rafmagnsins! Og varðandi áhyggjur manna af þvingaðri tengingu við Evrópu þá muni okkar forræði tryggt með eigin lagafyrirvörum og skilningsríku símtali við Brussel. 

Framsóknarflokkurinn hefur að mestu leyti þagað og er það vonandi góðs viti en óneitanlega kemur afstaða VG á óvart, fullkomin kúvending frá öllu sem flokkurinn hefur sagt til þessa!

Ari Trausti, talsmaður flokksins við umræðuna, fór þannig lofsamlegum orðum um fyrsta og annan orkupakka og sagði engar hættur stafa af hinum þriðja. Við hefðum fullt forræði yfir málinu, ekki aðeins varðandi hugsanlegan sæstreng heldur um sjálfa orkuframleiðsluna. Sagðist hann ekki hafa séð neitt í orkupakkanum sem skerti forræði íslenskra stjórnvalda. Annar þingmaður VG, Ólafur Þór, dásamaði að  “sjálfstæði Orkustofnunar” skyldi styrkt gagnvart markaðsaðilum og viti menn “stjórnvöldum”. Þetta er orðalagið þegar höggvið skal á hinn lýðræðislega naflastreng! Öðru vísi mér áður brá.

Menn rýna í lagatexta og binda vonir við fyrirvara. Því miður er ástæða til að ætla að annar og naprari veruleiki eigi eftir að koma í ljós. Nú er einfaldlega verið að stilla upp á skákborðinu með því að þoka orkugeiranum enn lengra yfir á markaðsgrunn. Þegar stillt hefur verið upp á forsendum fjórfrelsis ESB/EES verða markaðsöflin látin taka yfir og ná sínu fram í gegnum dómstóla eins og jafnan áður.

Hvað gera dómstólarnir þegar fjárfestar segjast vilja leggja sæstreng á eigin kostnað til að ná í “vöru” sem komin er undir reglur “fjórfrelsisins”? Ekki nóg með það, ráðist hafi verið í mikinn rannsóknarkostnað í góðri trú og verði að fást skaðabætur ef íslensk stjórnvöld ætli að standa í vegi fyrir verslun með vöru sem heyri undir “fjórfrelsið”. Þá mun reyna á heimalagaðan og hraðsoðinn fyrirvara Alþingis fyrir ESA og EFTA-dómstólnum.

Minnumst þess að ekki eru liðnir margir mánuðir síðan íslenskir skattgreiðendur voru þvingaðir með dómi til að borga Högum og öðrum verslunarrekendum þrjá milljarða í skaðabætur af völdum laga sem Alþingi Íslendinga hafði sett en þóttu brjóta gegn “fjórfrelsi” ESB/EES. Hver hefði trúað þessu að óreyndu?

Almenningur veit að þegar orkugeirinn hefur verið markaðsvæddur, mun hann fyrr eða síðar hafna í klóm fjárfesta sem eru staðráðnir í að færa þann hagnað sem nú rennur til samfélagsins í eigin vasa. Og við munum engu ráða um það hvort hingað verður lagður sæstrengur. Líklegt má heita að það yrði knúið fram með dómsvaldi og við látin borga brúsann með hærra orkuverði. Annar aflgjafi verður síðan græðgin sem mun stöðugt knýja á um meiri virkjanir.

Þennan veg viljum við varla láta vísa okkur með íslenska náttúru.