ÞÖRF Á OPINSKÁRRI UMRÆÐU OG SÍÐAN YFIRVEGAÐRI NIÐURSTÖÐU

symbol of justice.PNG

Í fréttum ber það helst að Dómstólasýslan ræðir tillögur um hvort fjölga eigi í Landsrétti um fjóra. Hvers vegna? Vegna þess að fyrirsjáanlegt sé að fjórir dómarar þar verði óvirkir.
Þetta kemur fram í máli Benedikts Bogasonar formanns stjórnar Dómstólasýslunnar í blaðaviðtali.

Dómarar skipaðir með lögum og samkvæmt lögum

Það er bara einn hængur á og hann er sá að dómararnir fjórir eru allir með skipunarbréf til staðfestingar á því að þeir séu skipaðir dómarar samkvæmt lögum á Íslandi.
Nú skal ég játa hreinskilnislega að ég geri mér ekki fyllilega grein fyrir því hvernig best er að bregðast við þegar Mannréttindadómstóll Evrópu gerist eins furðulegur í dómum sínum og nú hefur gerst og segir að þessu sé alls ekki svona farið!

Leitin að skástu niðurstöðunni

Eitt er þó víst, að úr vöndu er að ráða enda þegar komið fram að skoðanir eru mjög skiptar um hvernig bregðast skuli við. Kannski best að gefa sér góðan tíma til að ræða málið fram og til baka, allir segi sinn hug áður en reynt er að sjóða úr röksemdunum skynsamlega niðurstöðu – skástu niðurstöðuna því seint verður hún góð. 

Svona lít ég á málið:

Allir þeir fjórir einstaklingar sem í hlut eiga voru metnir hæfir af valnefnd sem sett var til starfa lögum samkvæmt. Ráðherra vék frá forgangsröðun valnefndar í fjórum tilvikum eins og ráðherra hefur heimild til, einnig samkvæmt lögum. Fundið var að því að ráðherra hefði ekki byggt ákvörðun sína á nægilegri rannsókn eins og stjórnsýslulög kveða á um. Þetta er þó harla matskennt atriði og auk þess var skipunarferlinu ekki að ljúka með tillögum ráðherra. Þær voru enn sem komið er aðeins tillögur. Kom nú til kasta Alþingis. Þar fengu tillögurnar umræðu og fóru síðan til atkvæðagreiðslu, enn í samræmi við lög. Embætti forseta Íslands kannaði síðan málið lögfræðilega í þaula og staðfesti lögin frá Alþingi. Þar með lauk hinu lagalega ferli.

Mannréttindabrotið

Nú gerist það að einstaklingur hlýtur dóm í héraðsdómi fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna og án ökuskírteinis. Dómi héraðsdóms er áfrýjað til Landsréttar og er hann staðfestur þar og síðan aftur í Hæstarétti. En þar sem að málinu kom í Landsrétti - einu dómstiginu af þremur - einn þeirra dómara sem ekki höfðu verið á forgangslista fyrrnefndrar valnenfndar - en þó metinn hæfur af henni -  er tækifærið notað til að skjóta málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu til að kanna hvort hægt sé að hnekkja dómnum þar á grundvelli þess að með honum hafi verið framið brot á mannréttindum!

Hvenær lætur dómstóll misnota sig?

Og nú bregður svo við Mannréttindadómstóll Evrópu vísar málinu ekki frá á þeirri augljósu forsendu að greinilega er verið að reyna að misnota dómstólinn til að knýja fram niðurstöðu á grundvelli formgalla sem við reyndar erum ítrekað búin að verða vitni að í öðrum málum. (Tekið skal fram að enginn hefur efast um niðurstöður í dómsmálinu sem um ræðir – enda játaði sakborningur sekt sína og öll dómsstig réttarkerfisns samstiga og sammála um niðurstöður.)

“Skipaður með lögum”

En þegar hér var komið sögu var málið farið að snúast um eitthvað allt annað en efnisatriði þess heldur sjálfan Mannréttindasáttmála Evrópu, nánar tiltekið 6. grein hans. Þar segir í enskri útgáfu: “In the determination of his civil rights and obligations or of any criminal charge against him, everyone is entitled to a fair and public hearing within a reasonable time by an independent and impartial tribunal established by law.” Allir eiga rétt á að fá ákærur á hendur sér útkljáðar af óhlutdrægum dómstól sem skipaður er með lögum.
Og viti menn, meirihluti dómsins í Strasbourg komst að þeirri niðurstöðu að brotaþolinn ökuskírteinislausi, sem ók undir áhrifum eiturlyfja, hefði hlotið dóm sinn af hálfu dómsvalds sem ekki hefði verið "established by law", stofnað til með lögum! Þar með hefðu verið brotin á honum mannréttindi. Sakarkostnaður brotaþolans skyldi bættur, að sjálfsögðu ekki íslenska ríkisins. Nú bíðum við eftir skaðabótarkröfum vegna brots á mannréttindum viðkomandi.

Þegar dómskerfi og skynsemi verða viðskila

Því hefur verið haldið fram að niðurstöðu meirihluta Mannréttindadómstólsins í Strasbourg megi ekki gagnrýna því þá sé verið að grafa undan dómstólnum. Ég leyfi mér hins vegar að gera það enda þykir mér dómurinn vera aðför að heilbrigðri skynsemi. En að sjálfsögðu þá er það bara mín skoðun. Það er líka mín skoðun að álit minnihlutans hafi verið ágætt.


Málinu verði vísað áfram

Nú hlýtur málinu að verða vísað áfram. Mannréttindadómstóll Evrópu verður að skýra afstöðu sína á trúverðugri hátt telji hann að Alþingi og forseti Íslands með staðfestingu sinni hafi brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu. Ákvarðanir Alþingis ættu að mínu mati í það allra minnsta að njóta vafans þar til Mannréttindadómstólnum í Strasbourg hefur gefist tóm til að endurmeta niðurstöður sínar. Að því leyti er ég ósammála Dómstólasýslunni sem vísað var til hér að framan.

Dómaraskipan er stórmál

Það skiptir máli hvernig dómarar eru skipaðir þannig að sannfærandi sé að þeir starfi á óhlutdrægan hátt. Hvorki má klíkuskapur í dómskerfinu né stjórnmálum ráða för. Að mínu mati höfum við fundið ágæta leið til þess að skipa dómara en þurfum greinilega að slípa hana enn betur. Leiðarljósið er þó því miður ekki að hafa frá Strasbourg – enn sem komið er.
Hins vegar á þessi umræða að verða tilefni til sjálfsskoðunar hjá nánast öllum málsaðlium, ráðherra sem reis ekki undir ábyrgð í þessu máli, reyndar fjarri því, þar sem aldrei kom fram trúverðugur rökstuðningur fyrir tillögum ráðherra; alþingismönnum sem risu ekki heldur undir sinni ábyrgð, fjarri því, hugsanlega dómstólum, sem hafa verið mótsagnakenndir í dómum tengdum málinu og svo fagaðilum, þ.e. valnefndinni, sem fengið hefur sinn skerf af gagnrýni sem einnig þarf að skoða og síðast en ekki síst Mannréttindadómstól Evrópu, sem virðist margt tamara en að setja viðfangsefni sín í skynsamlegt og sanngjarnt samhengi.


Dómstóll verður að ávinna sér tiltrú

Ef varðveita á tiltrú á dómskerfið, þar með talið Mannréttindadómstól Evrópu, þá þarf þetta sama kerfi að ávinna sér tiltrúna með verkum sínum. Í mínum huga er það ekki að gerast nú. Þetta segir sá sem vill þessu kerfi allt hið besta.  

Til varnar ærunni?

Í þessu ferli öllu hafa mönnum verið dæmdar bætur vegna ærumeiðinga. Ekki ætla ég að ræða þá niðurstöðu dómstóla að öðru leyti en að varpa fram þeirri spurnnigu hvenær að því komi að þeir einstaklingar sem unnið hafa sér það “til saka” að sækja um starf sem dómarar í Landsrétti, vera metnir hæfir til starfans og hljóta síðan skipun með samþykki Alþingis og staðfestingu forseta Íslands, hugi að málssókn til varnar æru sinni?

Fréttabréf