ÞAÐ ERU LÍKA MÁNUDAGAR Í ÚTLÖNDUM


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 16/17.03.19.
Pistlahöfundur nokkur komst að þeirri niðurstöðu fyrir skemmstu að Ísland væru fábreytt land, einsleit þjóð byggði landið, lífið þar væri einhæft og í raun hundleiðinlegt. Það lá í orðunum.

Auðvitað er þetta háð mati hvers og eins. En fyrir mitt leyti er ég þessu ekki sammála. Ég hef notið þess að hafa samanburð á þessu meinta hundleiðinlega landi okkar við önnur lönd þar sem ég hef dvalist um lengri eða skemmri tíma.
Þannig bjó ég í yndislegri höfuðborg Skotlands, Edinborg, um nokkurra ára skeið, í London var ég einhver misseri og í tvö ár í Kaupmannahöfn. Síðan hef ég einnig verið búsettur á suðrænni slóðum, að vísu um skemmri tíma. Alls staðar hef ég kunnað vel við mig.

En eitt uppgötvaði ég fljótt. Í öllum löndunum komu mánudagar á eftir frí-helginni og síðan þriðjudagurinn. Með öðrum orðum, hversdagurinn var þarna alltaf í bland við þá daga sem menn gerðu sér dagamun.
Vissulega er meira fjör í Barcelona á sumardegi en í Vogahverfinu í Reykjavík, eins og þýskir listhönnuðir þekkja svo vel. En jafnvel Barcelona verður hversdagsleg þrátt fyrir sín pálmatré.

Ég hef stundum sagt að fámennið sé mesta auðlegð Íslands. Það eru ótrúleg forréttindi að búa í stórkostlegri náttúruparadís og njóta víðerna hennar, ekki bara fyrir okkur ein sem hér búum að staðaldri, heldur einnig með gestkomandi fólki sem hingað kemur einmitt í þessu skyni. Fámennið og víðernin eru aðdráttarafl Íslands.

Síðan er það sem betur fer að gerast að ferðamennskan – þegar best tekst upp – beinir frumkvöðlum í atvinnulífi inn á þær brautir að leggja rækt við það besta í menningu okkar og sögulegri arfleifð. Á því  græða allir, en ekki bara á daginn, eins og frjálshyggjumennirnir vildu hafa það, heldur einnig á kvöldin og alla daga og kannski á meira gefandi hátt en pyngjan telur.

Auðvitað er margbreytileiki í menningarlífi eftisóknarverður en hann er þó mikill hjá okkar fámennu þjóð, bæði í því sem landsmenn hafa upp á að bjóða sjálfir en einnig gestkomendur. Það er kosturinn við að vera sérstök þjóð og eiga sér höfuðborg að hingað koma listamenn og andans menn sem leggja leið sína til allra landa og allra höfuðborga, óháð stærð og fjölda. Og vegna sérstöðu Íslands vilja allir hingað koma.

Auðvitað eigum við að taka opnum örmum fólki sem hér vill búa og láta gott af sér leiða. En það verðum við að gera þannig að við samlögumst sem best og æskilegast væri náttúerlga að við tilheyrðum einum sið eins og Þorgreir Ljósvetningagoði vildi að við gerðum. Ein lög og einn siður fyrir alla, sagði hann, en jafnframt þó þannig að vilji hvers og eins til að ráða sér sjálfur væri virtur.

Þegar ég bjó í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum áratugum var vissulega margbreytileiki í mannlífinu. Þarna var fólk víða að. En það hafði ekkert mjög mikið af hverju öðru að segja. Þannig voru fátækir aðkomumenn sunnan úr álfum geymdir í úthverfum og blönduðust öðrum takmarkað. Þannig að þarna kom í ljós að fjölbreytileiki þarf ekki endilega að útrýma einsleitninni. Það var bara einsleitnin sem varð margbreytileg.

Þegar allt kemur til alls ræðst fjölbreytni í lífi okkar af okkur sjálfum, hvort við lesum bókmenntirnar sem boðið er upp á í heiminum, njótum tónlistarinnar, kvikmyndagerðar og annarrar listsköpunar, sökkvum okkur niður í heimspekihugsun, reynum að skilja náttúruna og sögu jarðarinnar og mannsandans. Allt eru þetta gæði sem hægt er að njóta óháð búsetu. Þetta er góða alþjóðavæðingin.

Svona er hægt að dýpka hversdagslífið og gera jafnvel mánudaginn að hátíðisdegi. Og það sem meira er, þetta er hægt að gera hvar sem er á byggðu bóli.

Fréttabréf