Fara í efni

ORKAN Á EKKI AÐ VERA AUÐLIND Í ÞJÓÐAREIGN SEGIR RÁÐHERRA. HA?

 

Ég hvet alla, hvar í flokki sem þeir standa, að lesa viðtal við Þór­dísi Kol­brúnu R. Gylfa­dóttur, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, sem birtist á mbl.is í lok síðustu viku. 

Í fyrsta lagi segir hún að ríkisstjórnin hafi samþykkt að skattgreiðendur kaupi Landsnet af eigendum Landsnets sem að uppistöðu eru skattgreiðendur sjálfir. Hér er því um það að ræða að taka peninga úr einum vasa okkar til að setja annan. Hér hangir sitthvað á spýtunni sem snýr að einkavæðingu raforkugeirans.

En svo það fari ekki á milli mála þá á Landsnet að sjálfsögðu að vera í eigu almennings framvegis sem hingað til. Það eiga orkuverin að vera einnig og að sjálfsögðu orkuauðlindirnar. Aldeilis ekki hefur mbl.is eftir ráherranum: “Þór­dís Kol­brún sagðist hafa heyrt af því að hóp­ur fólks sem ætlaði að berj­ast gegn samþykkt þriðja orkupakk­ans á Alþingi ætlaði að fara fram und­ir slag­orðinu „Okk­ar orka“ og sagðist hún túlka þau skila­boð sem svo að þessi hóp­ur teldi orku­auðlind­ina af sama meiði og fisk­inn í sjón­um, þ.e. í sam­eign þjóðar­inn­ar. Svo er ekki, sagði ráðherra, og lagði áherslu á að vatns­afl og jarðvarmi og nýt­ing­ar­rétt­ur af þeirri auðlind væri í hendi land­eig­enda.”

Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dóttir sagði fleira í þessu upplýsandi/afhjúpandi viðtali við mbl.is: “Hún ræddi einnig um þriðja orkupakk­ann og sagði að þó að umræðan um hann hefði á stund­um „farið út um víðan völl“ væri það kost­ur að hún hefði orðið til þess að bent var á hvað fólst í fyrsta og öðrum orkupakk­an­um. „Orkupakk­arn­ir voru ekk­ert annað en markaðspakk­ar, og sá þriðji er það líka,“ sagði ráðherra ...”

Því miður held ég að í gang sé kominn einkavæðingarkapall orkugeirans og að kaup almennings á Landsneti frá sjálfum sér sé hluti af þessum kapli.

Slíkur einkavæðingarkapall byrjar alltaf á að markaðsvæða allar einingar þeirrar starfsemi sem á að selja, skilgreina og aðgreina einstaka hluta hennar og gera þá þannig söluhæfa. Þegar það hefur verið gert ríður höggið og almenningur er sviptur eignum sínum. Til að hægt sé að selja Landsvirkjun þarf því fyrst að aðgreina Landsnet þar frá.  

Þótt Landsnet eigi að sjálfsögðu að vera eign almennings í gegnum almannafyrirtæki eins og nú er eða beint eins og stefnt er að, þá er brýnt að stöðva markaðs- og einkavæðingarferlið og færa jafnframt sjálfar orkuauðlindirnar undir almannaeign og almannastjórn eins tryggilega og nokkur kostur er. Sú vegferð sem við erum á gengur hins vegar í gagnstæða átt!

Tónn ráðherrans er vægast sagt óhugnanlegur og ég trúi því ekki að ríkisstjórn og Alþingi láti þessi sjónarmið verða ofan á. En þetta þurfum við að fá að vita – og það sem fyrst!

Sjá fréttaumfjöllun mbl.is: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/02/28/hefja_vidraedur_um_kaup_a_landsneti/?fbclid=IwAR3K7kLLGC2RTt8bqz9sM5z8-I5bUHXLfeO414piPdzuBQ180qwSabs92RQ