Fara í efni

HVORT SKAL META MEIRA VIÐSKIPTI EÐA HEILBRIGÐI?


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 02/03.03.19.
Um sumt er heimurinn að reyna að gerast skynsamari. Sem betur fer. Alla vega vitum við sífellt meira um hvað er gott og uppbyggilegt og hvað brýtur niður, bæði til líkama og sálar.

Við vitum að gott er að hreyfa sig, forðast að gleypa mikinn sykur, alls ekki leggjast í spik, eyðileggja lungun með reykingum og lifrina með óhóflegri áfengisneyslu og að mikið pilluát getur valdið hliðarverkunum. Með öðrum orðum, þá vitum við að mikilvægt er að hlúa að heilbrigði okkar og því meira sem við gerum af því þeim mun betri verða varnir okkar gegn sjúkdómum og vanlíðan.

Í samræmi við þetta hafa sprottið upp líkamsræktarstöðvar, veitingastaðir með heilnæmri fæðu, talað er um að fá landbúnaðarafurðir beint frá búi, helst allt lífrænt ræktað, næringarfræði hefur orðið vinsæl námsgrein og fræðingar á því sviði eftirsóttir ráðgefendur. Þeir útskýra hvernig mataræði hefur áhrif á líðan barnanna okkar.

Til marks um allt þetta þá finnst okkur rétt að fjárveitingavaldið veiti heilbrigðisyfirvöldum stuðning til fyrirbyggjandi aðgerða. Við þykjumst vita að með því móti tryggjum við best heilsuna og pyngjuna einnig. Þegar upp er staðið er nefnilega ódýrara að koma í veg fyrir sjúkdóma en að grípa til aðgerða þegar skaðinn er orðinn. Það er kostnaðarsamara og dregur þar að auki úr lífsgæðum, heilsunni hnignar og vellíðan að sama skapi.

En ef þetta er nú allt svona augljóst, hvernig stendur þá á því að það skuli yfirleitt vera til umræðu að opna fyrir innflutning á matvöru sem vitað er að geti verið varasöm til neyslu og það sem meira er, flutt með sér bakteríur sem geta haft varanleg áhrif á lýðheilsu? Ég er að sjálfsögðu að tala um frumvarp landbúnaðarráðherra um innflutning á hráu kjöti.

Og hvernig stendur á því að við látum heildsala komast upp með lögsóknir á hendur okkur, almenningi og skattgreiðendum, til að brjóta varnarmúra þjóðarinnar um viðkvæma innlenda matvælaframleiðslu sem vísindamenn hafa sýnt fram á að er frírri af sjúkdómum og sýklalyfjum en nokkurs staðar á byggðu bóli?

Úrtölumennirnir eru margir. Gamall krati skrifar að hér komi farfuglar sem skíti á túnum okkar án þess að faraldur hljótist af, ekki fremur en af öllum túristunum sem til landsins koma. Og hafa menn ekki komist klakklaust frá utanlandsferðum, er enn spurt. Það er reyndar allur gangur á því en látum það liggja á milli hluta.

Verra er að sjá í ritsjórnarskrifum í útbreiddum blöðum kallað eftir því að þetta eigi að snúast um það eitt að virða lögmál viðskipta. Stjórnmálamaður kemur fram í sjónvarpi og segir frystireglur ekkert annað en ómerkilega markaðshindrun!

Ég leyfi mér að spyrja: Les þetta fólk sér ekki til? Kynnir það sér ekki niðurstöður vísindarannsókna? Eiga þetta að heita varðstöðumenn almennings?

Guðni Ágústsson, fyrrum landbúnaðarráðherra, hitti naglann á höfuðið í grein í Morgunblaðinu síðastliðinn þriðjudag. Hann benti á að Íslendingar hefðu illu heilli reynt að verjast ágangi kaupmanna á grundvelli markaðsröksemda. Samkvæmt EES-samningnum, sem verslunin reynir að nýta sem sverð sitt og skjöld, væri hins vegar að finna klásúlu um að heilbrigðissjónarmið stæðu ofar þessum lögmálum og á þeim grunni ættum við að verjast. Hið sama hefur Jón Bjarnason sagt, en einnig hann var landbúnaðarráðherra sem kunnugt er.  

Víðast hvar í heiminum reyna menn nú að finna varnir gegn fjölónæmum bakteríum sem berast með hráu kjöti. Læknavísindin standa ráðþrota frammi fyrir vánni en reyna að vinna sér tíma. Það eigum við líka að gera þótt ekki væri til annars en að fresta vandanum í þeirri von að hann verði um síðir haminn.

Þótt farfuglar eigi viðdvöl á Íslandi og ferðamenn og Íslendingar sjálfir fari víða um lönd þá hljótum við að gera það sem í okkar valdi stendur til að verjast eins lengi og auðið er.

Hún er ágæt æðruleysisbænin sem gengur út á að þótt menn eigi að sætta sig við það sem þeir fái ekki breytt þá skuli þeir ekki missa kjarkinn til að gera þó það sem gerlegt er til góðs.