Fara í efni

HORFT YFIR “VERNDARSVÆÐI” UNESCO


Margar eftirminnilegar minningar á ég úr nýafstaðinni ferð minni til suðausturhlutaTyrklands og þá ekki síst Diyarbakir, Amida til forna eða Amed eins og Kúrdar nefna þessa höfuðborg sína innan Tyrklands, á vatnasvæði Tígrisfljótsins sem einhvern tíma hét Mesópótamía.

Miðbærinn gamli, Sur, innan ævafornra borgarmúra, var sérstakt verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Ekki að ástæðulausu því þar var að finna minjar frá fimm þúsund ára menningarsögu þessarar fornu höfuðborgar liðinna menningarskeiða. Uppsláttarrit segja þessi skeið 26 talsins á fimm til sjö þúsund árum.

Lítið fór fyrir því í heimspressunni þegar tyrkneski herinn jafnaði stóran hluta Sur við jörðu á árunum 2015-16, myrðandi og eyðileggjandi. Ekki minnist ég þess að hafa heyrt frá Unesco af því tilefni.

Ég var hins vegar í Sur í mars 2014, áður en ósköpin dundu yfir og dáðist þá að þessari fornu borg. Tyrkneski herinn gætir nú þess hluta sem eyðlagður var og meinar gestkomandi að fara inn á “viðkvæm svæði”. Hins vegar má sjá yfir stórt rústað svæði.

Á skiltum var m.a. greint frá því að þessi gamli tyrkneski bær myndi senn mæta fortíð sinni og var þá átt við að verið væri að reisa nýja glæsilega byggð á rústum hinnar fornu byggðar. Forstokkaðri ósvífni eru lítil takmörk sett.

Með mér í för á gamla múrnum að þessu sinni var Ayşe Gökkan, skörungur mikill í baráttuhreyfingu kúrdískra kvenna, fyrrum borgarstjóri í landamærabænum Nusaybin. Hún er mér eftirminnileg frá heimsókn minni 2014, ekki vegna þess að ég hefði hitt hana þá heldur vegna þess að ég heyrði af hugrekki hennar þegar hún stöðvaði flutningabílalest tyrkneska hersins á leið yfir landamærin, en vitað var að hann studdi þá, sem og nú, íslamista í Kobane, Kúrdahéruðunum sunnan landmæranna og flutti auk þess olíu frá ISIS og kom henni áleiðis til útflutningshafna í Tyrklandi.

Og þarna var hún á múrnum að segja mér frá því hvernig þessi forna borg hefði verið eyðilögð frammi fyrir aðgerðarlausum heimi, þegjandi heimi, þá eins og nú.
sur.PNG