Fara í efni

STURLUNGA, STORMFUGLAR OG SALTIÐ Í GRAUTINN


Ég las Stormfugla Einars Kárasonar um daginn, las hana í einum rykk.

Slíkur var frásagnarkrafturinn að höfundur sleppti mér ekki fyrr en eftir lokapunkt. Í seinni tíð hafa fáir rithöfundar verið betri vinir íslenskunnar en Einar Kárason með bókum eins og þessum og þá ekki síður með því að setja íslenskar fornbókmenntir og liðna tíð á dagskrá aftur – og aftur.

Er Einar Kárason orðinn svo snar þáttur í umhverfinu að reiknað er með því að hann verði alltaf  á sínum stað? Hann þarf þó væntanlega salt í sinn graut eins og öll þau sem fengu bæði salt og graut frá úthlutunarnefndum listamannalauna.

Annars er ég vanbúinn í þessa umræðu. Ég veit til dæmis ekki að hvaða marki verið er að verðlauna hina verðugu eða hvort horft er til þess hversu þurfandi viðtakendur listamnnalauna eru taldir vera. Gef mér að þetta hangi eitthvað saman.  

Listamannalaun eru alveg þess virði að brjóta til mergjar og þess vegna rífast um ef mönnum finnst úthlutunin hafa misfarist að einhverju leyti – það hlýtur hún reyndar að gera nánast eðli máls samkvæmt.

Síðan er hitt sem má ræða og það er hvort forminu á þessum stuðningi megi breyta að einhverju leyti, hvort forsendur þessarar opinberu einkunnagjafar kunni að þarfnast endurskoðunar. Spyr sá sem ekki veit. Og fúslega viðurkenni ég að það veit ég ekki. Hitt veit ég, að Einar Kárason átti að vera þarna!