HVAÐ ER OKKAR FÓLK Í GENF AÐ GERA GUÐLAUGUR ÞÓR?

Guðlaugur Þór.PNG
Ríkisstjórn Íslands hlýtur að fylgjast vel með framvindu mála í Venesúela. Þar erum við eina ferðina enn að verða vitni að gamalkunnu stefi: Bandaríkin og fylgifiskar þeirra að framkvæma það sem kallað hefur verið “regime change”, sem er kurteislega orðuð engilsaxneska á valdaráni.


Frægustu dæmin úr samtímanum eru náttúrlega Líbía, Írak, Sýrland (hefur að vísu enn ekki tekist) og svo náttúrlega Úkraína þar sem réttkjörnum forseta var steypt og var íhlutunin nánast í beinni útsendingu. Í aðdraganda valdaránstilraunanna í Líbíu, Írak og Sýrlandi hafði teiknast upp – verið teiknað upp (því ekki gerðist það af sjálfu sér) ófremdarástand eins og nú í Venesúela.

 

Í Morgunblaðinu á föstudag lýsir utanríkisráðherra Íslands stöðu mála á þennan veg:

  “Ástandið í Venesúela er algerlega ólíðandi og við höfum tjáð okkur um það á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Stjórnmálaástandið hefur verið í ólestri um langa hríð og efnahagskerfi landsins er einfaldlega hrunið,” segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um stöðu mála í Venesúela.

Hann segir óstjórn, meingallaða hugmyndafræði og ofbeldi núverandi forseta og stjórnvalda með stuðningi frá einstökum ríkjum, eins og Rússlandi og Kúbu, einkenna ástandið. “Maduro forseti hefur á undanförnum misserum gerst nær einráður, svipt þingið völdum og komið á nýju ólöglegu stjórnlagaþingi sem stjórnarliðar einir sitja. Þá eru dómstólar einnig hliðhollir Maduro. Ég ræddi málefni Venesúela í ræðu minni í mannréttindaráðinu á síðasta ári og því hefur verið fylgt eftir af fólkinu okkar í Genf.”

Eflaust er sumu þarna rétt lýst. Vandinn er hins vegar fólginn í því sem sleppt er að segja frá. Þar ber fyrst að telja langvarandi efnahagsþvinganir Bandaríkjanna gagnvart Venesúela sem orðið hafa til að setja landið nánast í þrot. Ekki er heldur minnst á stuðning Bandaríkjastjórnar leynt og ljóst við hvers kyns undirróðursstarfsemi og skemmdarverk í landinu.

Íslendingar fengu smjörþefinn af efnahagsþvingunum þegar lögregla heimskapítlaismans, AGS, mætti til Íslands í bankahruninu til að setja okkur skilyrði fyrir að fá notið fyrirgreiðslu alþjóðafjármálakerfisins. Þetta var þó aðeins smjörþefurinn og alls ekki samanburðarhæft við lokunina á Venesúela, hvað þá grimmilegustu þvinganirnar, til dæmis í Írak undir og eftir aldamótin, sem leiddu til dauða hálfrar milljónar barna að mati sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna.

Frægt að endemum varð viðtal í bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS við Madeleine Albright, um skeið sendiherra Bandaríkjastjórnar hjá Sameinuðu þjóðunum, síðar utanríkisráðherra lands síns. Hún var spurð hvernig hún réttlætti aðgerðir sem leitt hefðu til dauða hálfrar milljónar barna. Hún sagði að svar sitt kynni að hljóma harkalegt, en framhjá því yrði ekki horft að Bandaríkjamönnum  bæri skylda til að gæta hagsmuna sinna á þessum slóðum. Þarna var ekkert verið að fela.

Frekar en nú.

Trump, Bandaríkjaforseti og Pompeo, utnaríkisráðherra Bandaríkjanna, segja að kjörinn forseti Venesúela sé nú “ólögmætur” , “not legitimate”, og verði héðan í frá aðeins tekið mark á stjórnmálamanni sem þeim þóknast að styðja!

Og er þá komið að spurningu minni til utanríkisráðherra Íslands. (Ég ætla að hlífa honum við að skýra út fyrir okkur hvað hann á við með “meingallaðri hugmyndafræði”, hvort það eru tilraunir til að ná olíuauðnum úr klóm alþjóðafjármagnsins svo almenningur fái betur notið hans.) Það sem ég vil fá að vita er hvað utanríkisráðherra eigi við þegar hann rifjar upp ræðuhöld sín um Venesúela og hnýtir því svo við, að boðskap sínum hafi verið “fylgt eftir af fólkinu okkar í Genf.” Er þar ef til vill um að ræða stefnu Trumps og Pompeo um “regime change”?

Hver er stefna Íslands?

Og hverju hefur verið fylgt eftir og hvernig “af fólkinu okkar í Genf”?

Utanríkisráðherra verður að gera hreint fyrir sínum dyrum og þar með ríkisstjórnar Íslands.

https://kvennabladid.is/2019/01/29/nog-ad-fletta-upp-a-audlindum-venesuela-til-ad-sja-hvad-klukkan-slaer/

   

Fréttabréf