Fara í efni

BARTLETT Á ÍSLANDI


Austur-Kongó er eitt af stærstu og fjölmennustu ríkjum heims, tveir milljónir ferkílómetrar og þrjú Íslönd til viðbótar, rúmlega 2,3 milljónir ferkílómetrar að stærð og íbúar sjötíu og níu milljónir. Auðlindir eru í jörðu, sem  gert hafa landið “áhugavert” á Vestrlöndum. Nýafstaðnar eru umdeildar forsetakosningar og í fréttaauka Ríkisútvarpsins kom fram að margt benti til að forsetakosningarnar komi til með að draga dilk á eftir sér. Nú þyrftu menn því að sperra eyrun.

Þetta ætla ég svo sannarlega að gera enda áhugamaður um erlendar fréttir.
Frétta-aukann hlustaði ég á þegar ég var nýkominn af fundi með Kúrdum, sem borið höfðu vitni fyrir mannréttindadómstól í París í mars á síðasta ári, dómstól sem komist hafði að þeirri niðurstöðu að, Tyrkland, bandalagsríki Íslands í NATÓ, hefði gerst sekt um stríðsglæpi og hrikaleg mannréttindabrot á Kúrdum á undanförnum misserum. Kúrdarnir sem hingað voru komnir höfðu orðið vitni að morðum og ofsóknum og sjálfir sætt pyntingum og fangelsunum.
Leyla Imret hafði verið borgarstjóri í borginni Cizre, þar sem stór hverfi höfðu verið jöfnuð við jörðu í árasum tyrkneska hersins, fjöldi óbreyttra borgara verið drepinn og réttkjörin borgarstjórn síðan hrakin frá völdum. Frá þessu greindi Leyla í máli og myndum í Safnahúsinu, laugardaginn 5. janúar.
Faysal Sariyildiz, sem var réttkjörinn þingmaður fyrir sama hérað, sást á myndböndum veifa hvítum friðarfána að bjarga særðu fólki af götum Cizreborgar þegar á hann var skotið. Hann hefur reynslu af langri fangelsisvist vegna uppruna síns og skoðana. Fayik Yagizay, þriðji maðurinn sem talaði í Safnahúsinu þennan dag, þekkir vel til tyrkneskra fangelsa að innanverðu. Hann er nú einn helsti talsmaður Kúrda í Evrópu.
Mér fannst tímabært að heyra af forsetakosningunum í Kongó en saknaði þess óneitanlega að sama fréttastofa skyldi engan áhuga hafa sýnt á því að kynna málflutning framangreinds aðkomufólks sem sagði af eigin reynslu um mannlegar hamfarir á sinni heimaslóð.
Allt þetta vekur upp spurningar um hvað stýri fréttaflutningi í heiminum. Hvernig standi til dæmis á því að fréttaflutningur frá Mið-Austurlöndum er eins pólitískt einsleitur og raun ber vitni.
Ein þeirra sem synt hefur upp í strauminn að þessu leyti er kanadísk og heitir Eva Bartlett. Hún verður í Safnahúsinu á laugardag.