VELVILDIN NÁÐI FRÁ PALESTÍNU TIL REYKJAVÍKUR

KONUR Í PALESTÍNU.PNG
Í gær var alþjóðlegur samstöðudagur með palestínsku þjóðinni. Í tilefni dagsins var efnt til opins fundar í Iðnó í Reykjavík þar sem íslenskar konur kynntu starfsemi IWPS, International Women's Peace Service. Konurnar töluðu af eigin reynslu höfðu sjálfar dvalið í lengri eða skemmri tíma í Palestíunu og var fróðlegt að hlýða á mál þeirra. Fundarstjóri var Anna Þorsteinsdóttir.

Björk Vilhelmsdóttir hélt erindi um sögu Palestínu frá stofnun Ísraelsríkis um miðja síðustu öld og síðan fengum við að heyra reynslusögur og frumsamin ljóð auk þess að rýnt var í stöðu mála.

Staðan fer ekki batnandi, um það báru ræður gærkvöldsins vitni, en þó mátti kenna bjartsýnistón í ljóðunum sem okkur voru flutt og í myndum sem sýndu falleg börn og mennilegt fólk. Greinilegt var að palestínskir gestgjafar höfðu hrifið sína íslensku gesti með hlýju, vinsemd og takmarkalausri gestrisni. Þessari velvild tókst að miðla til okkar sem sóttum fundinn í gær og varð þess valdandi að við gengum ekki eins hrygg úr af fundinum og tilefni væri þó til.

Á meðal íslensku sjálfboðaliðanna sem sátu fundinn og töluðu sumar hverjar, voru Adda Guðrún Gylfadóttir, Anna Dóra Antonsdóttir, Erla Gunnarsdóttir, Fríða Axelsdóttir, Sigþrúður Guðmundsdóttir og Kristjana Mozsfelt Guðmundsdóttir.

Á myndinni hér að ofan má sjá þær í pallsófaumræðu Öddu Guðrúnu Gylfadóttur, Erlu Gunnarsdóttur og Björk Vilhelmsdóttur.

Fréttabréf