MINNINGARBROT UM LÁTINN FRÆNDA

Ögmundur H Stephensen.PNG

Í dag birtist í Morgunblaðinu minningargrein sem ég skrifaði um frænda minn látinn, Ögmund H. Stephensen. Hálf önnur vika er frá útför Ögmundar en greinin hefur beðið birtingar eins og stundum gerist - skiljanlega - þegar greinar berast ekki innan tilsetts fyrirvara.  
Ekki skrifa ég minningargreinar um alla mína vini og frændfólk. Fjarri því. Þannig hugsaði ég af mikilli eftirsjá til Gunnars, bróður Ögmundar, þegar hann féll frá fyrir fáeinum árum, án þess að ég minntist hans á prenti, en mjög svo í huga mínum.

Eftirfarandi er fyrrnefnt minningarbrot mitt um Ögmund frænda minn, sem birtist á prenti í dag:

"Fyrsti markvörður knattspyrnufélagsins Þróttar - og einn af stofnendum félagsins -  er fallinn frá, níutíu og tveggja ára að aldri. Þessi maður var náfrændi minn, Ögmundur H. Stephensen, sonur elsta bróður móður minnar, Hans Ögmundssonar Stephensen. Ögmundur var elsta barnabarn ömmu okkar og afa í Hólabrekku á Grímstaðaholti í Reykjavík og því nefni ég Þrótt - sem fyrir löngu er fluttur í annan hluta Reykjavíkur - að ég vil minna á hvílíkum breytingum Reykjavík hefur tekið frá því um miðja öldina sem leið þegar Ögmundur frændi minn var að vaxa úr grasi.
Þróttur var stofnaður í hermannabragga upp af Grímsstaðavörinni við Ægisíðuna árið 1949. Á því ári varð ég eins árs en frændi minn hins vegar orðinn tuttugu og þriggja ára gamall. Þannig að þótt við værum systkinasynir verður varla sagt að við höfum verið af sömu kynslóð.
Frá fyrrnefndri Grímstaðavör var á þessum tíma enn róið til fiskjar af krafti, en við Sundskálavörina litlu austar var sennilega hætt að kenna unglingum að synda í sjónum þegar hér var komið sögu. Á flötunum í grennd við Þormóðsstaði var hins vegar fiskur enn þurrkaður í miklum breiðum og í þessari hálfgildingssveit, þar sem enn voru nokkrar kýr og kindur, komst fólk nokkuð nærri sjálfbærni með kartöflu- og rófurækt, rabbabara í görðum og berjum á runnagróðri. Í vaskahúsum var saltfiskur í útvötnun.
Ögmundur, afi okkar Ögmundanna, var einn af fyrstu atvinnuökumönnum Reykjavíkur, fljótur að skipta út hestvagni fyrir vörubíl þegar þess var kostur. Þar fylgdu honum fast eftir í ökumennskunni sonur hans, Einar, sem varð stéttarfélagsformaður vörubílsstjóra og áhrifamaður í ASÍ í áratugi, og síðan þeir bræður Ögmundur og Gunnar H. Stephensen.
Ögmundur vann lengstum hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, vinsæll maður, sem með hógværð og lunknum húmor hafði lag á því að láta öllum líða vel nærri sér.  
Þannig man ég eftir frænda mínum þegar leiðir okkar lágu saman í Hólabrekku og síðar hjá BSRB á níunda og tíunda áratugnum. Mér þótti alltaf styrkur af því að eiga hann að frænda og vini.
Mannkostir Ögmundar komu þó best fram í þeirri ræktarsemi og hlýju sem hann sýndi Sigríði föðursystur sinni, en í nær hundrað ár bjó hún í Hólabrekku. Hafði hún nánast komið þeim bræðrum, Ögmundi og Gunnari, í móðurstað þegar þeir misstu móður sína í bernsku. Þeir bræður, að ógleymdum eiginkonunum, Rúnu og Höddu, urðu Sigríði sú stoð í elli hennar sem erfitt er að ímynda sér styrkari.
Ef hjálpsemi og óeigingirni er sú stika sem best mælir góðmennsku fólks, þá standa fáir þeim bræðum og konum þeirra framar.
Rúnu, dætrum og fjölskyldum þeirra sendum við Vala hugheilar samúðarkveðjur."

Fréttabréf