Fara í efni

KONA FER Í STRÍÐ


Það liggur við að ég skammist mín fyrir að vera fyrst núna að sjá mynd Benedikts Erlingssonar og félaga, Kona fer í stríð. En betra er seint en adrei og það á svo sannarlega við í þessu tilviki.

Verðlaunaveitendur, á Norðurlöndum og víðar um heiminn, eru búnir að segja flest það sem segja þarf um þessa mynd með lofi sínu og prísi. Þá er fyrir okkur hin að sitja og njóta og svo líka að spjalla. Því það er þessari mynd augljóslega ætlað að gera, hreyfa við fólki.

Boðskapurinn er í senn mildur, verndum móður jörð, og beinskeyttur, gefumst aldrei upp. Trúverðugastir af öllum voru hagsmunagæslumenn auðs og valda, hvernig þeim tókst að spila á fordóma í þjóðfélaginu eins og harmonikku. Lagið í þeirri nikku þótti mér kunnuglegt.

Já, ekki bara harmonikkan heldur líka hornið, tromman og píanóið og svo náttúrlega úkraínskar söngraddir voru aldrei langt undan; birtust okkur á ótrúlegustu stöðum en þannig að ekkert gat verið eðlilegra. Þetta yrði of langt mál að skýra. Hér er sjón sögu ríkari.   

Húmorinn í myndinni í texta, senum, myndatöku og allri umgjörð er lunkinn í meira lagi. Ég myndi segja óborganlegur.

Svo  náttúerlega leikurinn. Hann var fyrsta flokks. Mest mæddi að sjálfsögðu á Halldóru Geirharðsdóttur sem birtist okkur í tvíriti. Aftur hér er sjón sögu ríkari. En frábær var hún. Það leyfi ég mér að segja um aðra leikara einnig.

Að lokum tónlisitn. Beint í mark.

Takk Benedikt og öll hin.