HVAÐ MEINAR FRAMSÓKN?

framsóknarmerki.PNG
Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, tjáði sig á flokksráðsfundi um helgina um hinn umdeilda orkupakka ESB:

Hann sagði samkvæmt RÚV: „Væri leiðin þá ekki sú að nýta þær undanþágur sem við gerðum upphaflega og við gætum þurft að útvíkka þær og klára þetta mál með fyrirvara um að ef við ákvæðum seinna, eftir tíu, tuttugu, hvað þá eftir 50 ár, hvað veit ég, að tengjast hinum sameiginlega markaði, að þá tækjum við upp sameiginlegt regluverk Evrópusambandsins um flutning á orku milli landa …  Mín skoðun er sú að eftir þessu ættum við að sækjast í samskiptum við ESB og önnur EES-ríki. Við munum ekki trufla Norðmenn með þeirri leið en ég veit að við þyrftum að banka upp á hjá Evrópusambandinu … Ríkisstjórnin vinnur að því nú hvernig við getum nálgast þetta verkefni en staðreyndin er sú að innleiðing á þriðja orkupakkanum er innan tveggja stoða kerfis EES-samningsins og EES-samningurinn er okkur sá mikilvægasti alþjóðlegi samningur sem við höfum gert.“

Þýðir þetta að Framsóknarflokkurinn ætli ekki að beita sér fyrir því að orkupakkanum verði hafnað heldur vilji hann innleiða pakkann með fyrirvara? Mig grunar að þau sem sögð eru hafa klappað fyrir ummælum formanns flokksins um þetta efni hafi skilið það svo að orkupakkanum yrði hafnað.

Ég leyfi mér að mælast til þess að afstaða Framsónarflokksins verði skýrð svo enginn þurfi að velkjast í vafa um asfstöðu flokksins.

Fram hefur komið að innan Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er mikill stuðningur við að hafna pakkanum og gef ég mér að VG leggist einnig gegn honum. Annað væri hreinlega órökrétt.

Er málið þá ekki úr sögunni, afgreitt?

Þetta mál á ekki að ræða í neinum hálfkveðnum vísum eins og gert var á flokksráðsfundi Framsóknarflokksins um helgina.

Fréttabréf