FUNDAÐ Í GRENINU

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 10/11.11.18.
Í vikunni sótti ég ráðstefnu í Mexíkó um áherslur í viðureigninni við vímuefni. Skipulag fundarins var á hendi starfseiningar sem kennd er við Georges Pompidou - kallar sig Pompidouhópinn - en að uppistöðu til er þetta samstarfsvettvangur þorra aðildarríkja Evrópuráðsins um málefnið. Safnað er upplýsingum, fylgst með þróun á þessu sviði, leitast er við að greina hana, efna til umræðu og veita þjálfun; allt til að búa í haginn fyrir vel ígrundaða og skynsamlega stefnumótun.

Þetta samstarf hefur verið að víkka út og þá einkum vestur um haf. Þannig á gestgjafaríki þessa fundar, Mexíkó, nú formlega aðild að þessu samstarfi og fundinn sátu einnig fulltrúar annarra Ameríkuríkja, bæði úr norðri og suðri.

Áhugi Mexíkómanna kemur ekki til af engu. Þar í landi brennur fíkniefnavandinn heldur betur á þjóðfélaginu enda fylgir honum hrikaleg spilling og mjög grimm glæpastarfsemi auk harmkvæla af völdum eiturlyfjaneyslu. Talið er að í Mexíkó láti tugir þúsinda lífið árlega í stríðinu um eiturlyf.

Nú eru Mexíkómenn búnir að fá nóg af þessu stríði við glæpagengin og ekki síður mannskæðum átökum þeirra í milli. Þetta á einnig við um það sem kallað hefur verið á heimsvísu „stríð gegn eiturlyfjum.” Það hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst var.

Á fundum af þessu tagi ræða menn því nýjar aðferðir og þá ekki síst þær sem teljast vera fyrirbyggjandi. Þar eiga Íslendingar sögu að segja sem þykir vera eftirtektarverð. Var ég vel nestaður af sérfræðingum landlæknisembættisins, SÁÁ, lögreglu, foreldrasamtaka og fleiri aðila. Aðkoma mín byggði þó ekki á sérfræðiþekkingu á málefninu í þröngum skilningi, heldur var mér ætlað með innleggi mínu – eins og reyndar á nokkrum fyrri fundum af þessu tagi sem ég hef sótt – að örva umræðu um gildi þverfaglegs samstarfs og tengingar fagfólks við stjórnmálin og grasrótina.

Lærdómur minn af þessari ráðstefnu er hve varasamt það hljóti að vera að alhæfa um lausnir, svo ólíkar eru aðstæður í heiminum.

Ísland á þannig fátt sameiginlegt með Mexíkó. Þar er vandinn voðalegri hvað glæpi áhrærir þótt slæmur sé hann hér á landi. Í Mexíkó eru eiturlyfjabarónar ríki í ríkinu og eru auðæfi þeirra gífurleg.

Og nú að greninu.

Bókaútgáfan Angústúra gaf nýlega út í íslenskri þýðingu bók eftir Juan Pablo Villalobos, Veislu í greninu. Þar segir frá lífi eiturlyfjabaróns og sonar hans í kastala sem baróninn hafði reist, víggirtum og svo miklum að þar var hægt að halda ýmis framandi dýr, ljón, tígrisdýr og slöngur.

Fundurinn, sem ég sótti, var haldinn í miðstöð á vegum mexíkósku fíkniefnalögreglunnar, kastala með vörðum og  víggirðingum. Okkur var sagt að þessi kastali hefði verið bústaður eiturlyfjabaróns til ársins 2008. „Þá náðum við honum á okkar vald og ákváðum að nota hann í okkar þágu.” Og svo var bætt við okkur til upplýsingar: „ ... að svo mikill var auður fyrri eiganda að hér var vísir að dýragarði, haldin ljón, tígrisdýr, slöngur…”

Svona er allt í heiminum hverfult. Þar sem áður var barist gegn samfélaginu er nú barist í þess þágu. Kannski er þetta táknrænt og til uppörvunar, áminning um að í mannheimum megi öllu breyta með einbeitni og góðum vilja.

Það hugsuðum við held ég mörg þegar við sátum fyrir til ljósmyndunar fyrir framan grenið.   
grenið.PNG

Fréttabréf