Fara í efni

70 X 60 X 60 X 24 = 6.048.000

MBL
MBL

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 18/19.08.18.
„Eignarlandi fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu, en í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra." Þetta er þriðja grein laga frá árinu 1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu.

Í fyrstu grein þessara laga er að finna skilgreiningu á auðlindum: „Með auðlindum er í lögum þessum átt við hvers konar frumefni, efnasambönd og orku sem vinna má úr jörðu, hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þau kunna að finnast við."

Þarna segir enn fremur: „Um rannsóknir og nýtingu samkvæmt þessum lögum gilda einnig náttúruverndarlög, [skipulagslög] og önnur lög sem varða rannsóknir og nýtingu lands og landsgæða."

Þar höfum við það. Allar auðlindir, hverju nafni sem þær kunna að nefnast, tilheyra eiganda lands en hann er svo aftur háður margvíslegum lögum um nýtingu þessara eigna sinna. Við þetta staldra þau gjarnan sem telja litlu máli skipta hver sé eigandi landsins. Öllu máli skipti þær lagalegu skorður sem eigandanum eru settar.

Nokkuð kann að vera til í þessu, alla vega að því leytinu til að samfélagið getur fengið nokkru ráðið um nýtingu auðlindanna. Þess vegna skipta þessi lög mjög miklu máli og þarfnast nú bráðrar aðkomu löggjafans í ljósi uppkaupa stóreignamanna, innlendra og þó einkum erlendra, á íslensku jarðnæði, eða nánar tiltekið íslenskum auðlindum.

En þrátt fyrir alla fyrirvarana þá stendur að auðlindirnar tilheyri landeigandanum. Og síðan er hitt að enda þótt stórfelld nýting helstu auðlinda Íslands, jarðvarma og vatns, sé leyfisskyld og þurfi að standast náttúruverndarkvaðir og félagslegar kröfur (sveitarfélag hefur þannig forgang að nýtingu vatns til almenningsveitu), þá eru fyrstu skrefin engu að síður ekki leyfisskyld heldur aðeins tilkynningarskyld: Landeiganda er þannig „heimilt án leyfis að hagnýta jarðhita í eignarlandi sínu til heimilis- og búsþarfa, þar með talið til ylræktar, iðnaðar og iðju, allt að 3,5 MW miðað við vermi sem tekið er úr jörðu alls innan eignarlands. Landeiganda ber þó að tilkynna Orkustofnun um fyrirhugaðar jarðboranir og aðrar meiri háttar framkvæmdir vegna þessa. Orkustofnun er heimilt ... að setja landeiganda þau skilyrði sem nauðsynleg eru talin vegna öryggis eða af tæknilegum ástæðum. Um heimild til nýtingar á jarðhita til raforkuvinnslu fer samkvæmt ákvæðum orkulaga." Þetta er úr tíundu grein auðlindalaganna þar sem fjallað er um jarðvarmann.

Sambærilegt ákvæði varðandi vatnið er í fjórtándu grein en þar segir að landeiganda sé „heimilt án  leyfis að hagnýta grunnvatn í eignarlandi sínu til heimilis- og búsþarfa, þar með talið til fiskeldis, iðnaðar og iðju, allt að 70 ltr./sek. Landeiganda ber þó að tilkynna Orkustofnun um fyrirhugaðar jarðboranir og aðrar meiri háttar framkvæmdir vegna þessa. Orkustofnun er heimilt ... að setja landeiganda þau skilyrði sem nauðsynleg eru talin vegna öryggis eða af tæknilegum ástæðum eða ef ætla má að boranir geti spillt nýtingu sem fram fer á svæðinu eða möguleikum til nýtingar síðar."

Lítum nánar á þetta. 70 lítrar á sekúndu margfaldaðir með 60 sekúndum gera 4200 lítra á mínútu og síðan aftur sinnum sextíu til að fá heimilaðan lítrafjölda á klukkustund. Það gera 252 þúsund lítra á tímann. Þetta má síðan margfalda með 24 og erum við þá komin í sólarhringsframleiðsluna, sex milljónir og fjörutíu og átta þúsund lítra , 6048000!

Er þetta ekki sæmileg áttöppunarverksmiðja?

Síðan getur eigandinn sótt um leyfi fyrir alvöru magnframleiðslu úr auðlind sinni.

Það er ekki að undra að einhverjum kunni að finnast hið mesta óráð að breyta vatnalögunum og auðlindalögunum sem hér hefur verið vitnað til. Að ekki sé nú minnst á auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar.

Hvort tveggja þarf hins vegar að laga strax!