Fara í efni

EFASEMDIR ESJUNNAR

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 21/22.07.18.
Allur heimurinn býður upp á náttúrufegurð. Í mismiklum mæli þó. Þannig hafa fá lönd eins fjölbreytilega náttúru og við getum státað af í okkar landi. Og sennilega eru náttúruperlur hvergi eins margar á litlu svæði og einmitt hér. Þetta gerir Ísland eftirsóknarvert og jafnframt viðkvæmt í heimi sem allur er á faraldsfæti eftir að flugvélar urðu að strætó í loftlínu og fargjöldin eftir því.

En ef núttúruperlurnar eru Íslands, þá hef ég grun um að Evrópa eigi vinninginn þegar kemur að menningarminjum og fallegri mannabyggð. Auðvitað er um allan heiminn að finna fagrar bogir og bæi, stórfenglegar minjar, eldri og yngri, og spennandi söguslóðir. En Evrópa hefur á síðari öldum verið rík, að hluta til á kostnað annarra heimshluta. Ríkidæmi nýlendutímans er þannig meðal annars að finna í óendanlegum herlegheitum, höllum, listigörðum og listaverkum.

Svo eru það bæirnir með sínu hlýlega viðmóti, slípaðir og fágaðir af þúsund ára sögu. Einn slíkur er Beaune í sunnanverðu Frakklandi. Þessi litli bær var  nánast eins og paradís í augum ferðalangs frá Íslandi. Þarna var hægt að komast í nálægð við mikla og merkilega sögu klausturmenningar, vínræktar og lækninga svo eitthvað sé nefnt. Þarna vilja því margir koma.

Slíkir staðir, sem eru óteljandi í Evrópu, fögnuðu lengi vel heimsóknum til sín. Og ferðamennskan er góð og æskileg. Aldrei þreytist ég á að klifa á því.

En öllu má ofgera. Fréttir berast nú af vaxandi andúð í garð ferðamanna á vinsælustu áningarstöðum í Evrópu. Barcelona er þar ágætt dæmi því þar mun andúðin vera orðin sýnileg. Þetta er skiljanlegt því ágangur ferðamanna er orðinn heimamönnum áþján. Og ekki er nóg með það. Ferðamannaiðnaðurinn er orðinn svo frekur að hann er á góðri leið með að umbylta mannlífinu heima fyrir.

En þá gerist það líka að það sem þótti eftirsóknarvert, friðsældin og hógvær fegurðin með sinni hlýlegu áferð, sú sem ferðamaðurinn kom til að njóta, víkur fyrir allt öðrum og glamurkenndari heimi.

Þetta hefur til dæmis gerst í fyrrnefndri Beaune. Bærinn sem í endurminningunni var - og er vissulega enn - svo fagur, er kominn með illkynja kýli. Þetta kýli getur að líta þegar keyrt er inn í bæinnn. Í útjaðrinum - það er þó bót í máli - eru í einni stórri og stækkandi klessu hótelkassar, greinilega byggðir með lágmarkskostnaði til að skila hámarksarði að hætti fjöldaframleiðslu. Þarna gisti ég. Einhver staðar þurfum við að vera.

Vandinn er hins vegar sá að ef grimm markaðssetning og gróðahyggja ráða ferðinni í ferðamennsku er hætt við að kýli af þessu tagi verði fegurðinni yfirsterkari. Ef við sýnum ekki landinu nærgætni, þá munu töfrar þess hverfa.

Þetta kemur allt upp í hugann þegar fréttir berast af landakaupum erlendra fjárfestingarfyrirtækja og auðkýfinga hér á landi. Markmið með kaupum þeirra virðast tvíþætt, annars vegar að loka landinu í eigin þágu, eiga árnar út af fyrir sig, fegurðina og kyrrðina, eða á hinn bóginn að græða sem mest á þessari sömu fegurð. Hvorugt er eftirsóknarvert.

Eignarhaldi á Norðausturlandinu er nú hratt verið að þjappa saman í hendur erlendra auðkýfinga, Fljótin eru einnig á svipaðri vegferð og víðar er sömu sögu að segja, án þess að gæslumenn íslenskrar náttúru reyni einu sinni að grennslast fyrir um áform þessara aðila, sem eru að hanna Ísland upp á nýtt. Hvað er til dæmis að gerast í nánd við Geysi í Haukadal og Biskupstungum?

Spyr sá sem ekki veit. Hitt er víst að varla viljum við þar nokkuð í ætt við kýlið á Beaune-borg.

Þegar Hallgrímskirkjan í Reykjavík var í smíðum var umdeilt að reisa svo háreista byggingu á Skólavörðuholtinu. Einn þeirra sem hafði efasemdir var Kjarval. Og einhverju sinni þegar á þetta var minnst við hann, að hann væri svo mikið á móti Hallgrímskirkju, þá sagði hann það vera af og frá. Hann hefði ekkert á móti þessari byggingu. En það væri Esjan, hún hefði sínar efasemdir.

Nú kunna efasemdir Esjunnar að hafa verið óþarfar. Það breytir því ekki að þetta er það samhengi sem færa þarf umræðuna í, að meta stærð, hlutföll, samhengi; í stuttu máli, að sýna kurteisi gagnvart landinu.

Ella verður Ísland allt fyrr en varir að ilkynja kýli á borð við neon-þyrpinguna í Beaune.