TRAUSTUR VINUR Í BASLI MEÐ REYNSLUVÍSINDIN

Butler - Eamonn 2
Eamonn er mættur aftur! Þessi óþreytandi forstöðumaður hinnar hægri sinnuðu Adam Smith Institute í London er hingað kominn eina ferðina enn til trúboðs.

Til Íslands hefur Eamonn Butler komið nokkrum sinnum, til dæmis 2003 og aftur 2008. Þetta veit ég vegna þess að ég hef alltaf reynt að víkja nokkrum orðum að þessum trausta vini Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulfsins og fleiri aðila sem hafa boðið honum hingað til fyrirlestrahalds. Þannig að þegar ég slæ upp nafni Eamonns Butler í leitarreit heimasíðu minnar, þá poppar þessi trausti vinur og sitthvað honum tengt ævinlega upp.
Sjá að neðan.

Eamonn Butler er náttúrlega fyrst og fremst traustur og staðfastur vinur einkavæðingar og þeirra sem hagnast á henni og því við hæfi að Samtök atvinnulífsins bjóði honum að flytja sérstakt heiðursávarp við opnun þings samtakanna.

Verst að Adam Smith Institute, sem Eamonn Butler veitir forstöðu, er engin sérstakur vinur reynsluvísindanna. Það hlýtur að teljast ókostur, sérstaklega þegar verið er að tala fyrir tiltekinni stefnu gagnvart stjórnvöldum; að henni beri að koma í framkvæmd. Og í þeim tilgangi er Eamonn Butler kominn hingað til lands, til að styðja við bakið á íslenskum atvinnurekendum í baráttu þeirra fyrir einkavæðingu.

En aftur að reynsluvísindum. Alveg er sama hve illa kenningar Adam Smith Institute brotlenda í heimi reynslunnar, þá er aldrei bilbug að finna á Adam Smith Institute. Kannski er það "skiljanlegt" og "viðbúið" eins og gjarnan er sagt þessa dagana þegar reynt er að forðast smáatriðin en auðvitað hlýtur það að teljast veikleiki að boða pólitíska stefnu sem kallar yfir okkur misskiptingu, óhagræði og sóun þótt vel að merkja fámennur hópur hagnist á henni.

Einhvers staðar í neðangreindum pistlum má finna tilvísun í ræðu Eamonns Butler þar sem hann heldur því fram að þau hjá Adam Smith Institute hafi fundið það út fræðilega að stórhækka megi laun í heilbrigðiskerfinu og ná jafnframt tugprósenta sparnaði með nánast einu pennastriki. Það pennastrik kallaðist einkavæðing! Útfærslan er látin liggja á milli hluta - skiljanlega. Enginn mun hafa verið á svæðinu til að spyrja þau hjá Adam Smith Institude út í dýrasta heilbrigðiskerfi heims, hinn einkavædda hluta bandaríska heilbrigðiskerfisins.

http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/3947/

http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/1291/

http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/1292/

http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/3458/

http://ogmundur.is/stjornmal/nr/3766/

Traustur vinur var með þetta allt í Hörpu á þingi Samtaka atvinnulífsins í vikunni. Á eftir formálsorðum framkvæmdastjóra SA, Halldórs Benjamíns Þorbergssonar - reyndar prýðilegum verður að segjast því honum mæltist mjög vel - kom Eamonn Butler með sömu ræðu og síðast. "Þarf hið opinbera virkilega að framkvæma allt það sem fengist er við núna?", spurði hann og svaraði neitandi að bragði. "Að sjálfsögðu ekki ... til dæmis í heilbrigðis- og velferðarmálum ... "
Þetta fannst Thatcher og Theresu May finnst það enn  ... og þótt reynslan hafi ekki gefið þeim háa einkunn þá eru hagsmunirnir sem talað er fyrir til staðar nú sem fyrr. Líka hér á landi. Heldur betur!
https://player.vimeo.com/video/265258507?app_id=122963

Fréttabréf