Fara í efni

TEKST SJÚKRALIÐAFÉLAGI ÍSLANDS ÞAÐ SEM MÉR HEFUR EKKI TEKIST?

Vísir.is _rétt
Vísir.is _rétt
Birtist á visir.is 24.04.18.
Í maí á síðasta ári var efnt til opins borgarafundar í Iðnó í Reykjavík um málefni eldra fólks með sérstakri áherslu á heimaþjónustu og mannréttindi.
 Fullt var út úr dyrum á fundinum og í kjölfarið rigndi yfir okkur, sem fram komum þar, fyrirspurnum og hvatningu um að halda málefninu á lofti. Það kom ekki á óvart. Aðhlynning aldraðra snertir ekki aðeins hinn aldraða einstakling heldur aðstandendur einnig. 


Allir lofa valkvæðri búsetu ...
Ég stend í þeirri trú að allir stjórnmálaflokkar, alla vega þeir sem komnir eru til ára sinna, hafi lofað því að búa öldruðum valkvætt ævikvöld; þeir eigi inngengt á öldrunarstofnun þegar heilsa og geta þverr, standi óskir til þess, en geti dvalist á eigin heimili með aðstoð heimaþjónustu og heimahjúkrunar sé þess óskað. 
Þótt þetta hafi verið stefna stjórnmálaflokkanna í orði hafa efndirnar ekki verið eftir því. Dæmi þar um: Einstaklingur á tíræðisaldri í Reykjavík fullfær um að búa heima með aðstoð fjölskyldu biður um eitt og aðeins eitt, aðstoð við böðun tvisvar til þrisvar í viku. Svarið er skýrt, slíka aðstoð fær viðkomandi að hámarki einu sinni í viku!


... en framkvæmdin í skötulíki
Þegar velferðarsvið borgarinnar var spurt í formlegu erindi hvort það væri mat þeirra sem ábyrgir væru fyrir þessum málum að nægilegur mannafli væri fyrir hendi og nægilegu fjármagni væri varið til málaflokksins, var svar fagfólksins - stjórnmálamennirnir svöruðu ekki - að hvorki nægði fjármagnið né mannaflinn miðað við umfang verkefnisins og fjölgun aldraðra. 
Frá því að þessi fundur var haldinn hefur opinber umræða um málefnið ekki komist á flug þrátt fyrir að það brenni á þúsundum einstaklinga. Umræðan fer vissulega fram en hún er í hálfum hljóðum og hún er vondauf og þreytuleg.



Óþægileg umræða?
Í kosningaumræðunni er þessi málaflokkur varla til. Stjórnmálamenn kjósa að halda sig á öðrum miðum enda loforðin á þessu sviði margsvikin og umræðan fyrir vikið óþægileg. 
Á fimmtudag, 26. apríl, freistar Sjúkraliðafélag Íslands þess hins vegar að koma þessari umræðu á flot á ráðstefnu sem félagið efnir til. Þar verður spurt um réttindi aldraðra með áherslu á þjónustu sem þeim stendur til boða. Spurt er um stefnu og framkvæmd. 



Skorað á fjölmiðla
Ég heiti á fjölmiðla að fylgja góðu fordæmi Sjúkraliðafélags Íslands og beina spurningum til stjórnmálaflokkanna um hvernig þeir hyggist taka á þessum málum, komist þeir til áhrifa að afloknum komandi kosningum.

http://www.visir.is/g/2018180429845/tekst-sjukralidafelagi-islands-thad-sem-mer-hefur-ekki-tekist-