HVERNIG HEIMSPRESSAN TEKUR GAGNRÝNI

Silfrið - Sýrland 2
Í Silfri Egils í dag var rætt talsvert um nýafstaðnar árásir Bandaríkjanna, Breta og Frakka á Sýrland, að sögn til að senda "skýr skilaboð um að notkun efnavopna yrði aldrei liðin". Öll árásarríkin hafa haft efnavopn og sýklavopn í sínum vopnabúrum.

En látum það liggja á milli hluta, þótt siðferði og tvískinningur eigi náttúrlega aldrei að liggja á milli hluta.

En tvískinningur í fréttaflutningi var hins vegar mál málanna í umæðunni í Silfrinu í dag.

Í því samhengi vísaði ég í athyglisverð skrif Jonathans Cooks, margverðlaunaðs fréttamanns og glöggs fréttarýnis, sem starfað hefur fyrir fjölþjóðlega miðla en virðist nú vera á eigin vegum. Í nýjum pistli (sjá slóð hér að neðan), gerir hann að umræðuefni viðbrögð höfuðfjölmiðla Vesturlandai við skrifum Roberts Fisks um atburðina í Douma. Um skrif Fisks hef ég áður fjallað hér á síðunni en hann ber brigður á frásagnir vestrænna miðla af atburðunum í Douma, sem notaðir voru sem skálkaskjól fyrir árásirnar á Sýrland.

Cook segir réttilega að eðlilegt væri að frásögn Roberts Fisks - sem fáir bera brigður á að ber höfuð og herðar yfir flesta vestræna fréttaskýrendur, sakir reynslu og þekkingar á málefnum Mið-Austurlanda - væri tekin til skoðunar í gagnrýnum opnum fjölmiðlum. Svo er ekki.

Heimspressunni virðist margt betur gefið en að taka gagnrýni á sjálfa sig.

Slóð á grein Cooks er hér:

https://www.jonathan-cook.net/blog/2018-04-18/fisk-puts-to-test-the-free-press-myth-in-douma/

Slóð á Silfur Egils í dag er hér: http://www.ruv.is/spila/ruv/silfrid/20180422

Fréttabréf