Fara í efni

HVAÐ VEIST ÞÚ UM ATKVÆÐAGREIÐSLU ÖRYGGISRÁÐSINS?

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 14/15.04.18.
Fyrir nokkrum dögum fór fram atkvæðagreiðsla í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um meinta efnavopnaárás í Sýrlandi.

Heimurinn stóð á öndinni enda vita menn að þarna var tekist á um forsendur sem síðan er stuðst við til að réttlæta frekari árásir og blóðsúthellingar. Forystumenn bandalagsríkja Íslands tala nú um hefndaraðgerðir.

Atkvæði voru greidd og síðan komu fréttirnar. Á síðum dagblaða, í útvarpi og sjónvarpi stóð það upp úr að Rússar hafi beitt neitunarvaldi til að koma í veg fyrir rannsókn á meintri eiturefnaáras sýrlenska stjórnarhersins. Þetta er okkur þá ætlað að vita.

Hitt er okkur síður ætlað að vita að alls voru greidd atkvæði um þrjár tillögur, tillögu Bandaríkjanna þar sem Rússar beittu neitunarvaldi og síðan tvær tillögur Rússa sem Bandaríkjamenn greiddu atkvæði gegn.

Hver var munurinn á þessum tillögum? Við fyrstu sýn virðast þær svipaðar. En þegar betur er að gáð má sjá að tekist er á um ferli rannsóknanna sem fram skuli fara og þá einnig hverjir skuli rannsakaðir, stjórnarherinn einn eða aðrir aðiljar að stríðsátökunum.

Tekist hefur verið á um svipaðar ásakanir áður og er á meðal annars komin út bók í íslenskri þýðingu, Stríðið gegn Sýrlandi eftir ástralska fræðimanninn Tim Anderson þar sem fram kemur hörð gagnrýni á vinnuferli sem Sameinuðu þjóðirnar hafa stuðst við í rannsóknum á átökunum í Sýrlandi. Þar er því einnig haldið fram að hjálparsamtök sem fréttamenn iðulega vitna í séu í sumum tilvikum verkfæri stórvelda í áróðursstríði.

Ekkert af þessu þarf að koma á óvart. Á tíunda áratug síðustu aldar og fyrstu árum þessarar aldar hvíldu augu heimsins á Írak og viðskiptabanninu sem það land bjó við með skelfilegum afleiðingum. Gagnrýnir starfsmenn SÞ hafa síðar sagt frá þrýstingi sem þeir urðu fyrir við rannsóknarstörf sín.

Ósannindin, sem heimurinn sat uppi með á endanum, þekkjum við öll. Í því tilviki var ekki Sameinuðu þjónunum um að kenna heldur sömu aðilum og nú reyna að mata okkur á upplýsingum um Sýrland. Þeir fá nú sem fyrr dygga aðstoð fjölmiðlamanna margra. Einnig hér á landi. Einn slíkur sagði að vandinn  við „furðufugla" á borð við Tim „þennan" Anderson og Vanessu Beeley, „bloggara", sem komið hefði til Íslands í boði undirritaðs, væri sá að til yrði „upplýsingaóreiða" sem svo aftur hefði það í för með sér að fólk hætti að trúa nokkru sem fjölmiðlar og virtar stofnanir reiddu fram.

Um aldamótin síðustu birtist viðtal í Le Nouvel Observateur við Zbigniew Brzezinski, öryggismálafulltrúa Carters Bandaríkjaforseta á tímum Afganistanstríðsins. Þar viðurkennir hann að stuðningur Bandaríkjastjórnar við uppreisnarmenn sem börðust gegn þáverandi valdhöfum í Afganistan hafi hafist áður en Sovétmenn réðust inn í landið, Kabúlstjórninni til stuðnings. Á þessum tíma staðhæfðu Bandaríkjamenn að hernaðarstuðningur af þeirra hálfu hafi hafist eftir íhlutun Sovétmanna. Í viðtalinu segir Brzezinski að hann hafi sama dag og sovéski herinn fór yfir landamærin sent Carter minnisskjal þar sem hann hrósaði sigri yfir því að Sovétríkin hefðu „gengið í gildruna" og fengju nú sitt „Vietnamstríð".

Brzezinski er síðan spurður hvort vestræn ríki séu ekki að fá í bakið veittan stuðning við harðlínu-íslamista á þessum tíma og einnig síðar. Brzezinski segist ekki sjá eftir neinu, tekist hafi að veikja áhrifamátt Sovétríkanna: „Og hvort skyldi vera mikilvægara, talibanar eða hrun Sovétríkjanna?"

Þarna má greina þráð sem enn er spunninn í dag. Hernaðarstórveldi metur stuðning við stríðandi fylkingar á grundvelli heildarhagsmuna á heimsvísu. Kabúlstjórnin reyndi á þessum tíma að innleiða menntun kvenna og frelsa þær undan ánauð. Talibanar vildu hið gagnstæða. „Við" studdum þá!

Lærdómur sögunnar er sá að sannleikurinn um hráskinnaleik hernaðarstórvelda kemur sjaldnast fram fyrr en löngu eftir á. Þá fyrst er hægt að sjá í gegnum upplýsingaóreiðuna. Hún er nefnilega staðreynd og það sem verra er, henni er viðhaldið af þeim sem síst skyldi, fólkinu sem á að upplýsa okkur og reyna að ráða í hvað gerist á bak við tjöldin, til dæmis það sem við vitum ekki en þyrftum að vita um atkvæðagreiðslur í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.