BYRJAÐ AÐ AFHJÚPA LYGAVEFINN Í STRÍÐINU GEGN SÝRLANDI

Douma -22
Þá eru lygarnar um tilbrög árásanna á Sýrland að byrja að koma í ljós - eða öllu heldur að verða fleira fólki ljósar.

En samt heldur óupplýst  fréttamennska sínu striki.

Þannig hafa íslenskir fjölmiðlar gagnrýnislaust sagt okkur þau tíðindi að Efnavopnastofnunin í Hag, OPCW, hafi staðfest að bresk stjórnvöld hafi haft rétt fyrir sér varðandi eiturefnaárásina í Salisbury þegar rússneskum gagnnjósnara var sýnt banatilræði þar í marsmánuði; yfirgnæfandi líkindi væru fyrir því að eitrið sem hefði verið notað í þessari fyrstu efnavopnaárás í Evrópu frá stríðslokum, svo vísað sé í dramatíska yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, sem send var út til að réttlæta þátttöku Íslands í refsiaðgerðum gegn Rússum, hefði verið þeirrar gerðar sem Bretar segðu: "Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að taka þátt í samstilltum aðgerðum vestrænna ríkja vegna efnavopnaárásar í enska bænum Salisbury í upphafi mánaðarins. Árásin er alvarlegt brot á alþjóðalögum og ógnun við öryggi og frið í Evrópu. Efnavopnum hefur ekki verið beitt í álfunni frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við árásinni hafa hingað til verið ótraustvekjandi og yfirlýsingar þeirra ótrúverðugar ..." 

OPCW hefur vissulega sagt að rannsóknir bendi til þess að yfirgnæfandi líkur séu á því að staðhæfingar bresku stjórnarinnar um sjálft eiturefnið í Salisbury stæðust. En um megininntak hinnar alþjóðlegu deilu, það er hvort staðhæfing Theresu May, forsætisráðherra Bretlands og breska utanríkisráðherrans, Boris Johnsons, þess efnis að  Rússlandsstjórn hafi verið þar að baki segir OPCW ekkert, þrátt fyrir uppslátt í fréttum sem skilja má á þann veg.

Á sama hátt var ekki deilt um það í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hvort rannsaka bæri hvort eiturefnum hefði verið beitt í Douma í Sýrlandi 7. apríl. Allar tillögurnar þrjár - ein frá Bandaríkjamönnum og tvær frá Rússum -  sem fram komu til atkvæðagreiðslu í Öryggisráðinu þremur dögum síðar gengu út á það að rannsaka hvort efnavopnum hefði verið beitt. Ágreiningurinn var hins vegar um vinnuferlið, sem hefur sýnt sig að getur skipt sköpum og þá ekki síst, hverjir skyldu rannsakaðir, sýrlenski stjórnarherinn einn eða andspyrnuhersveitirnar einnig. Vesturveldin hafa ekki viljað slíka víðtæka rannsókn.

Nú eru alvöru fréttamenn smám saman að koma í borgir og héruð í Sýrlandi sem hafa verið þeim meira og minna lokuð - ekkert sérstaklega eftirsóknarvert að fara inn á svæði þaðan sem við höfum séð afhoggin höfuð erlendra fréttamanna á undanförnum misserum. Þegar ég tala um "alvöru fréttamenn" þá er ég að stilla þeim upp sem andstæðu "framleiðenda frétta" sem eiga fátt skylt með fréttamnönnum sem vilja færa okkur sannar fréttir. 

Einn þeirra fréttamanna sem nú eru komnir á vettvang er Robert Fisk, hinn virti og margverðlaunaði fréttamaður margra vestrænna fréttamiðla í Mið- Austurlöndum frá áttunda áratugnum, aðalfréttaritari Independent í þessum heimshluta frá 1989. Hann setur fram alvarlegar efasemdir við yfirlýsingar árásarríkjanna þriggja eins og lesa má um í frétt hans sem hér að neðan má nálgast.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa verið ósparir á yfirlýsingar síðustu daga - og jafnvel sumir þeirra sem gagnrýnt hafa árásirnar, gagnrýna þær ekki sem slíkar en segja að þær hafi verið "ótímabærar" eða að "upplýsa hefði þurft Alþingi" betur. Þetta er vissulega skömminni skárra en yfirlýsingr þeirra sem endurómað hafa gagnrýnislaust áróður árásarríkjanna og NATÓ. Þakka ber hins vegar afdráttralausar yfirlýsingar þeirra sem refjalaust hafa gagnrýnt árásir Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands og að sjálfsögðu innrás Tyrkja í Kúrdahéruðin í norðanverðu Sýrlandi.

Nú er talað um friðarsamninga í Sýrlandi. Hverjir vilja menn að setjist þar að borði, væntanlega auk sýrlenskra stjórnvalda? Erdogan, Trump, May, Macron, Stoltenberg, Pútín, Salman bin Abdulaziz Al Saud, Ali Khamenei að ógleymdum leiðtogum ISIS og annarra herja íslamista sem myndað hafa leppherina í Sýrlandi?

Eða eiga við samningaborð aðeins að sitja sýrlensk stjórnvöld, demókratískir stjórnarandstæðingar Assads Sýrlandsforseta og aðrir fulltrúar raunverulegra íbúa landsins?

Hvað er átt við þegar talað er um friðarviðræður?

Víetnamstríðinu lauk þegar Bandaríkjamenn drógu árásarheri sína frá Vietnam.   

Varðandi aðkomu Íslands að þessum málum og yfirlýsingar um að Ísland hefði ekki getað annað en fylgt NATÓ línunni þá tel ég þær kalli á yfirlegu og umræðu.

Árásin hefði verið gerð með eða án samþykkis NATÓ.

En setjum svo að NATÓ hefði stðaðið að árásunum,  þá vaknar sú spurning hvernig Íslendingar eigi að bera sig að. Hverslu langt myndu íslensk stjórnvöld láta leiða sig í stuðningi við hernaðaraðgerir bandalagsins? Eru þar engin takmörk og ef takmörk eru, hvar liggja þau? Við beitingu kjarnorkuvopna - hernaðarstefna NATÓ ríkja hvílir á kjarnorkuvopnum og hótun um beitingu þeirra?

Þetta er veruleikinn, óljóst tal um "skiljanlegar" og "viðbúnar" aðgerðir NATÓ, sem Ísland styðji eða skilji eða þannig. ... er ekki boðlegt.

Þetta þarf að ræða jafnframt því náttúrlega að úrsögn úr þessu hernaðarbandalagi hlýtur að vera á dagskrá.  

https://www.globalresearch.ca/robert-fisks-douma-report-rips-away-excuses-for-air-strike-on-syria/5636530

https://www.independent.co.uk/voices/syria-chemical-attack-gas-douma-robert-fisk-ghouta-damascus-a8307726.html

Fréttabréf