GRIKKLAND, ÍSLAND, EVRÓPUSAMBANDIÐ OG LÝÐRÆÐIÐ

MBLBirtist í Morgunblaðinu 26.02.18.

Það var mikið lán fyrir Íslendinga að standa utan Evrópusambandsins þegar fjármálakerfið hrundi haustið 2008, hvað þá ef við hefðum verið búin að taka upp evru sem gjaldmiðil. Þá hefðum við fengið að kynnast þumalskrúfunum sem grísk þjóð hefur mátt þola eftir að samansúrrað valdakerfi fjármálamanna og erindreka þeirra í stjórnkerfi Evrópusambandsins tók ákvörðun um að láta gríska skattgreiðendur borga lánveitendum lán sem með sviksemi hafði verið þröngvað upp á Grikkland.
Þetta reyndu vel að merkja Bretar og Hollendingar gagnvart okkur þegar þvinga átti Ísland til að lögfesta skuldbindingar íslenskra skattgreiðenda vegna Icesave. ESB reyndi þá að aðstoða við ofbeldið á bak við tjöldin en gat aldrei orðið annað en bakrödd vegna þeirrar fjarlægðar sem þó var á milli Íslands og Evrópusambandsins.

Óábyrgir lánveitendur

Það deilir enginn um að Grikkland var orðið gríðarlega skuldsett þegar Evrópusambandið lét til skarar skríða gegn Grikkjum fyrir fáeinum árum og að þar hafði spilling komið mjög við sögu. En þá er það líka til umhugsunar sem hinn virti bandaríski þjóðfélagsrýnir Noam Chomsky hefur sagt, að ef um hefur verið að ræða óábyrga lántöku þá hafa líka verið á ferðinni óábyrgir lánveitendur. Og annar ágætur maður, nóbelsverðlaunahafinn Stiglitz, hefur bent á að nauðsynlegt sé að skoða lántöku Grikkja, á hvaða forsendum bankar, einkum franskir og þýskir, hafi lánað þeim, hverjir hefðu hagnast og hvernig með féð hefði verið farið. Þetta yrði að skoða áður en gengið yrði frekar á lífskjör almennings. Þá hefur komið fram að fjármálafyrirtækið Goldman Sachs hafi sogið ófáa milljarðana upp úr grískum skatthirrslum þegar fyrirtækið var sjálf köngulóin í miklum fjármálatilfærslum og falskri uppsetningu á skuldastöðu Grikkja til að koma þeim inn á evrusvæðið þótt ekki væru fyrir því forsendur, um og upp úr aldamótunum.  

Ekki geð í sér að sitja í forsæti

Öll þessi sviksemi og síðan þvingunarvald Evrópusambandsins gagnvart Grikkjum var grunnstefið í erindi Zoe Konstantopoulous, fyrrum forseta gríska þingsins og þingmanns stjórnarflokksins Syriza í Safnahúsinu í Reykjavík í byrjun mánaðarins. Hún leggur höfuðáherslu á að ítarleg rannsókn fari fram á lántöku Grikkja og glæpsamlegu athæfi í því samhengi. Almenningur verði ekki látinn blæða fyrir saknæmt atferli innan fjármálakerfis og stjórnsýslu. Sjálf hefur hún sérhæft sig í alþjóðlegum refsirétti.
Zoe sagði af sér þingforsetaembættinu og gekk úr Syriza eftir að sá flokkur hafði gengið í björgin í Berlín og Brüssel og svarið fjendum sínum þar hollustu. Sjálf hafði hún ekki geð í sér til að sitja í forsæti á þjóðþingi sem svo átti að heita, eftir að sú skipan komst á að öll fyrirhuguð lög gríska þingsins yrðu áður að hljóta samþykki lánardrottnanna og erindreka þeirra í ESB!

Þá þagnaði Alþingi

Allar þessar þvinganir eru fyrir opnum tjöldum þótt aðeins þau sjái sem vilja sjá. Það er gömul saga og ný. Minna fer fyrir hægfara þvingunum og þrýstingi. Átakanlegasta birtingarmyndin hefur mér þótt vera á Alþingi Íslendinga jafnan þegar það rennur upp fyrir þingmönnum að lagafrumvörpin sem eru til umfjöllunar og menn hafa haft miklar skoðanir á, eru þegar allt kemur til alls byggð á tilskipunum frá Evrópusambandinu með millilendingu í EES, Evrópska efnahagssvæðinu. Þegar þetta gerist lýkur allri umræðu eins og hendi sé veifað. Hinir trúuðu taka þá nær undantekningalaust að mæla ráðslaginu bót en aðrir vita sem er að þetta er nokkuð sem að óbreyttu verður að láta yfir sig ganga. Að vísu má stundum reyna að draga úr ítrustu útfærslum en í grunninn verða menn að hlýða.

Lýðræði aðeins tryggt með aðkomu að ákvörðunum

Oft hefur komið fram að þeir eru ófáir sem vilja markaðs- og einkavæðingu, sölu helst allra ríkiseigna og hömulaus viðskipti og eru sáttir við flest sem frá Evrópusambandinu kemur í þessa veru. En ef vilji er til að markaðsvæða raforkuna eins og gert hefur verið í ESB og ef vilji er til að takmarka frelsi til að verjast innflutningi á sýktri landbúnaðarvöru eins og gert hefur verið í ESB eða til að auka á markaðsvæðingu velferðarkerfanna eins og gert hefur verið í ESB; ef þessi vilji er fyrir hendi hér á landi þá skulum við takast á um hann og leiða til lykta þar sem við höfum raunverulega aðkomu að ákvörðunum. En að fá ákvarðanir um þessi efni í formi tilskipana að utan er önnur saga. Og reyni enginn að halda því fram að öðru vísi væri þessu farið ef við sætum á þingi Evrópusambandsins og gætum þar haft áhrif á framvinduna og þar með okkar hlutskipti! Umrætt þing ræður nánast engu. Og þar sem leyndarhyggja er nú talsvert til umræðu þá er ástæða til að minnast þess að hvergi hefur leyndarhyggjan verið stækari en í meðförum Evrópusambandsins á alþjóðlegum viðskiptasamningum á borð við GATS og TiSA. Um það mætti hafa langt mál.

Lýðræðisvinkillinn nægir mér

Sem betur fer eru sífellt fleiri að vakna til vitundar um þá tilskipanapólitík sem vera okkar í EES hefur í för með sér. Menn sjá jafnframt að fyrirskipanir frá Brussel gerast sífellt ágengari og frekari. Ég læt öðrum eftir að tala um hagstæða tvíhliða samninga Evrópusambandsins við lönd utan EES sem nú eru farnir að dúkka  upp og opna augu manna fyrir öðrum valkostum.
Mér nægir að beina sjónum að lýðræðishallanum til að vilja útúr EES.
Enda er sá halli ekki þýðingarlítill.

Fréttabréf