Fara í efni

VÍSINDIN EFLA ALLA DÁÐ

Vísindafélag
Vísindafélag
Fróðlegt er að fletta svokölluðu „dagatali íslenskra vísindamanna" þar sem segir frá viðfangsefnum þeirra. Á slóð sem leiðir inn í þennan heim segir að vísindamennirnir séu "valdir af stjórn Vísindafélagsins og ritstjórn Vísindavefsins, í samráði við forstöðumenn háskóla og rannsóknastofnana, með það fyrir augum að bregða upp svipmynd af fjölbreyttri flóru blómlegs rannsóknastarfs hér á landi og þýðingu þess fyrir samfélagið allt."

Frábært þykir mér þetta framtak, kannski ekki síst vegna þess að ég kannast við fleiri en eitt nafn á listanum og hef því á honum sérstakan áhuga. https://www.visindavefur.is/flokkur/242/dagatal-islenskra-visindamanna/

Síðan eru það allir hinir vísindamennirnir sem ógetið er á þessum lista - enn sem komið er. Maður staðnæmist við þá einstaklinga sem maður þekkir en færir sig síðan yfir á fleiri nöfn og fyrr en varir blasir við stór akur rannsókna og fræða sem okkur almenningi eru iðulega ókunn.

Þau störf sem þarna er getið - og hin sem enn er ógetið - skila sér iðulega inn í alþjóðlegt samstarf og er gleðilegt til þess að hugsa hve öflugir Íslendingar eru á þeim sviðum sem þeir á annað borð leggja rækt við.

Við getum hins vegar gert enn betur en þá þarf líka að hlúa að vísinda- og rannsóknastarfi í íslenskum menntastofnunum. Fyrr en varir munum við verða vitni að keðjuverkun út í alla anga samfélagsins.

Þá mun sannast sem lengi hefur verið haft á orði, að vísindin efli alla dáð eins og Jónas Hallgrímsson sagði á þann hátt sem hann einn hafði lag á, í kvæði sínu sem hann orti til náttúruvísindamannsins Páls Gaimards. Hann kom í rannsóknarleiðangur til Íslands á fjórða áratug 19. aldar og skrifaði merk rit um rannsóknir sínar. „Ísland skal lengi muna þig" sagði í niðurlagsorðum Jónasar í kvæði sem hann orti til Páls þegar honum var haldin veisla í Kaupmannahöfn við komu hans þangað árið 1839. Fimmta erindið af sex í þessu kvæði Jónasar Hallgrímssonar hljóðar svo:

Vísindin efla alla dáð,
orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð;
tífaldar þakkir því ber færa
þeim sem að guðdómseldinn skæra
vakið og glætt og verndað fá
viskunnar helga fjalli á.