Fara í efni

UM KÚRDA Í KÖLN

Ocalan - svunta
Ocalan - svunta

Sl. laugardag sat ég fund um málefni Kúrda í Köln í Þýskalandi. Á þessum fundum komu saman fulltrúar HDP flokksins í Tyrklandi sem talar máli Kúrda (en allir helstu leiðtogar hans sitja nú á bak við lás og slá fyrir meira og minna upplognar sakir), lögfræðingar úr teymi Öcalans, hins fangelsaða leiðtoga Kúrda og síðan fulltrúar stuðningshópa við málstað Kúrda víðs vegar að úr heiminum.

Heimsóttu Ísland í vor

Fundinum stýrði Havin Guneser, sem stendur framarlega í þessari sveit og hefur þýtt höfuðrit Öcalans á enska tungu. Hún var á fundi sem ég stóð fyrir í Iðnó í júní síðastliðnum ásamt Ebru Günay úr lögfræðingateymi Öcalans en hún sat lengi vel í fangelsi fyrir þær „sakir" að veita hinum forboðna málstað lögfræðiaðstoð (sjá slóð að neðan).
Ebru Günay hafði ráðgert að sækja þennan fund einnig en forfallaðist vegna þess að daginn áður var bróðir hennar ásamt fjórum mönnum öðrum drepinn í sprengjuárás tyrkneska hersins. Engar skýringar gefnar fremur en fyrri daginn. Þetta minnir á hlutskipti þessa fólks!

Táknræn þýðing Öcalans

Ástæðan fyrir þeirri ofuráherslu sem lögð er á frelsun Öcalans, sem setið hefur í fangelsi á Imrali eyju í Marmarahafinu í nær tvo áratugi, og með öllu einagraður síðustu ár, er sú að af beggja hálfu, tyrkneskra yfirvalda annars vegar og Kúrda hins vegar, gegnir hann táknrænni stöðu. Prísund hans er áminning tyrkneskra yfirvalda um hvað hendir andstæðinga þeirra og fyrir Kúrdana myndi frelsun hans hafa þýðingu í frelsisbaráttunni í þeim skilningi að vonarneistar um bjartari framtíð myndu kvikna og glæðast.
Áherslan á frelslun Öcalans tengist friðsamlegu friðarferli. Á síðari árum hafði Öcalan (nú heyrist ekkert frá honum hins vegar sökum einagrunar hans) beitt sér fyrir friðarferli í smáu sem stóru. Á fundinum sat ég við hliðina á útlaga frá Diyarbakir, stærstu borg í Kúrdahéruðum Tyrklands, sem sat í fangelsi í ein tvö ár á fyrri hluta þessa áratugar. Hann sagði að þegar hungurvökur voru i fangelsunum hefði Öcalan heldur varað við þeim. Hann sagði að ekki mætti skapa hernum skálkaskjól til hefndaraðgerða eins og raunin varð síðan á innan fangelsismúranna sem utan.
Oglan 1 

Kenning verður að veruleika

Á fundinum í Köln var rætt hvernig hugmyndafræði Öcalans hefði birst í verki í Rojava - sjálfsstjórnarsvæði Kúrda í Norður-Sýrlandi, eins og frægt varð eftir að Kúrdar brutu ISIS á bak aftur eftir umsátur um borgina Kobani. Stjórnunarhættir Kúrdanna í Rojava byggðu á aðkomu allra hópa en ekki á valdstjórn eins tiltekins hóps svo og á jafnrétti kynjanna.
Þetta eru framfarasinnaðar hugmyndir. Ekki að undra að allar bækur Öcalans sem útlista þessa nálgun til stjórnmálanna séu bannaðar í Tyrklandi!
ocalan 2

Tyrknesk þöggun breiðist til Evrópu

Þöggunin í Tyrklandi kemur þannig ekki á óvart. Hið undarlega og óhugnanlega er hins vegar þróun mála á  meginlandi Evrópu þessa dagana, sérstaklega í  Þýskalandi þar sem í mörgum sambandsríkjunum er nú  bannað að birta plaköt með myndum af Öcalan  með áskorun  um að hann verði látin laus!
Þetta á ekki við um öll sambandsríki Þýskalands enn sem komið er en hins vegar virðist stefna í allsherjarbann í Þýskalandi öllu.
Hvers vegna gerist þetta? Væntanlega vill þýska Merkel-stjórnin vingast að nýju við tyrknesk stjórnvöld eftir núninginn sem varð milli þeirra í tengslum við kosninguna um stjórnarskrá Tyrklands fyrr á árinu en þá settu þýsk yfirvöld Erdogan Tyrklandsforseta stólinn fyrir dyrnar þegar hann vildi tala beint til tyrkneskra landa sinna í Þýskalandi.
Svo er ekki úr vegi að spyrja hvort þýsk stjórnvöld kunni að eiga það sameiginlegt með tyrkneskum stjórnvöldum að óttast róttækar hugmyndir Öcalans.

Hafa fundið leiðir til að framfylgja dauðadómum

Hvað skal gera til að losa um rembihnútana í tyrknesku hengingarólinni? Hengingarólin væri reyndar raunveruleg gagnvart stjórnarandstæðingum ef Tyrkir þyrðu að framfylgja líflátsdómum en augljóst þykir að Evrópusambandsaðildarumsókn þeirra haldi aftur af þeim í því efni. En við höfum aðrar leiðir til að framfylgja dauðadómum, til dæmis með því að láta þá rotna í fangelsi, var einhvern tímann haft eftir aðila innan tyrkneska valdakerfisins. Hvort þetta er nákvæmlega rétt eftir haft veit ég ekki en það skiptir litlu máli því niðurstaðan er þessi fyrir þá óvini ríkisins sem þykja ógna valdhöfum: Dauðdagi í fangelsi.

Aðferðafræði fasismans

Og enn er nú hert á fangelsunum og réttarhöldum þar sem sakargiftir eru yfirleitt meintur stuðningur við hryðjuverkamenn. Aðferðafræðina þekkjum við úr öllum fasistaríkjum. Nánast öll samtök sem hafa lýðræði, mannréttindi og frelsi á stefnuskrá sinni eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök og öll samskipti við þau gera menn sjálfkrafa að stuðningsmönnum hryðjuverka. Þetta þekkja Palestínumenn vel.
Í janúar 2016 undirrituðu 1128 tyrkneskir fræðimenn yfirlýsingu undir heitinu, „Við neitum að eiga aðild að þessum glæp," og var þar vísað til ofbeldisverka stjórnvalda í Kúrdahéruðum Tyrklands. Með yfirlýsingu sinni segja fræðimennirnir að þeir ætli ekki að þegja um ofbeldið sem þar viðgengst. Fjöldi þeirra sem undirritað hafa þessa yfirlýsingu hafa verið hraktir úr starfi, fangelsaðir eða að þeir hafa flúið land.

Ekki verður lengur litið undan

Á fundinum í Köln var farið yfir yfirlýsingar alþjóðlegra mannréttindasamtaka á  undanförnum árum og er ljóst að þar gerist tónninn stöðugt gagnrýnni. Mátti hann reyndar verða það því undarlega dauf hafa þessi samtök verið gagnvart ofbeldinu í Tyrklandi. En fjölgar þeim óðum sem átta sig á því að ekki verður lengur litið undan þegar tyrkneskur ofbeldisfasimi er annars vegar. Það er þó bót í máli. 
Fyrrenfndur fundur í júní um málefni Kúrda:  https://www.ogmundur.is/is/greinar/upplysandi-og-gefandi-fundur