Fara í efni

TRUMP, ESB, BREXIT OG KÚRDAR Á HRINGBRAUT

Hringbraut - B Ö - 2
Hringbraut - B Ö - 2

Síðastliðinn þriðjudag mætti ég ásamt gömlum samstarfsfélaga af fréttasstofu Sjónvarps, Boga Ágústssyni, í sjónvarpsumræðu hjá öðrum gömlum samstarfsfélaga mínum - nú af Alþingi - Sigmundi Erni. Fór vel á með okkur eins og endranær.
Þetta var svolítið eins og stíga nokkur ár til baka þótt umræðuefnið hafi verið samtíminn og kannski ekki síður framtíðin.
Við vorum sammála um að Trump væri varasamur og að ákvörðun hans um að flytja sendiráð Bandaríkjanna til Jerúsalem væri til ills, að Evrópusambandið væri plagað af leyndarhyggju þótt ekki værum við algerlega á einu máli um hvert stefndi þar á bæ; að Brexit væri flókið og að lokum klykkti ég út með áskorun til fjölmiðla að fylgjast vel með því hvernig Evrópuríkin færu með Kúrda. Eftir að þeir hefðu lagt sitt af mörkum til að brjóta ISIS á bak aftur og sú hætta væri liðin hjá, þá mættu Kúrdar fara veg allar veraldar og Erdogan Tyrklandsforseti fara með þá eins og honum sýndist. Í mörgum þýsku sambandsríkjunum væri farið að banna þeim að efna til opinna funda þar og krefjast mannréttinda í Kúrdistan. (Eins gott að hafa ekki hátt um það heiti á tyrkneska þinginu. Fyrir fáeinum dögum var þingmanni HDP flokksins vísað af þingi fyrir að nefna Kúrdistan á nafn.)  

Þátturinn er hér: http://www.hringbraut.is/sjonvarp/thaettir/ritstjorarnir/ritstjorarnir-bogi-agustsson-og-ogmundur-jonasson/