DRAUMSÝN JÓHÖNNU MEÐ SÖGULEGU ÍVAFI

Johanna Sig 2

Það er ágætur siður stjórnmálamanna að setja fram æviminningar sínar á prenti. Ekki endilega vegna þess að þær séu alltaf áreiðanlegustu heimildir um hvað á daga þeirra dreif heldur vegna þess að slíkar ævisögur varpa iðulega ljósi á þá sjálfa.

Nýútkomin ævisaga Jóhönnu Sigurðardóttur, sem Páll Valsson færði í letur, er þannig fyrst og fremst heimild um manngerð hennar sjálfrar, samskipti hennar við samferðarmenn, sanngirni í þeirra garð eða skort á sanngirni eftir atvikum því í bókinni er það hún sem eðli máls samkvæmt er til frásagnar og svo að sjálfsögðu sýn hennar á samtíð og framtíð og þá drauma sem hún hefur borið í brjósti. Ef til vill væri nær að tala um óskhyggju, hvernig Jóhanna hefði viljað hafa framvinduna eða öllu heldur hvernig hún vill að við sjáum hennar hlut.

Þessi hlið bókarinnar er þeim mun áhugaverðari fyrir þá sök að Jóhanna Sigurðardóttir leggur greinilega meira upp úr því að í bókinni verði líf hennar málað eigin draumalitum og þá minna gefið fyrir nákvæmni um staðreyndir eða hvort slettist úr pensli á þá sem komu að verkum með henni.

Páll Valsson hefur skrifað frábærar bækur og ber þar hæst ævisögu Jónasar Hallgrímssonar. Auðvitað er ósanngjarnt að bera saman ævisögur þeirra Jóhönnu og Jónasar, listaskáldsins góða. Þótt talsvert sé um skáldskap í ævisögunni um Jóhönnu þá er hún dæmd til að rísa aldrei hærra en Jóhanna Sigurðardóttir gerir sjálf.

Skrásetjari getur hins vegar glaðst yfir því að hafa komið á prent draumsýn Jóhönnu Sigurðardóttur, vissulega  með sögulegu ívafi í bland.

http://eyjan.pressan.is/frettir/2017/12/06/ogmundur-johanna-hefdi-aldrei-fengid-nobelinn-fyrir-sagnfraedi/ 

Fréttabréf