ÞAKKIR TIL ÆVARS!

Ævar Kjartansson III

Ég var að ljúka við að horfa á þætti Ævars Kjartanssonar um Lúther en tilefnið er að liðin eru 500 frá Siðbót Lúthers.

Ævar var á vettvangi, leiddi okkur inn í alla leyndardóma og það verður að segjast eins og er að það er meira en lítið sem vinnst við að segja okkur frá áhrifum Lúthers við hliðina á borðinu þar sem hann sjálfur hafði setið við skriftir og ganga um sömu dyr. Og sjónvarpsmaðurinn frá Grímsstöðum á Fjöllum veit að við þurfum að sjá meira en eitt skrifborð, hús, garða og götur, við þurfum líka að sjá landslag. Allt þetta fylgdi með í pakkanum auk viðmælenda sem ekki voru af verri endanum.

Ég hygg að ekki standi margir fyrrum prófastinum á Reynivöllum í Kjós, Gunnari Kristjánssyni, framar í vitneskju og skilningi á Marteini Lúther og Siðbótinni. Og horfi ég þá ekki bara til íslenskra manna.

Það var líka frólegt að heyra sjónarmið fræðimannanna Thomasar Kaufmans, Hjalta Hugasonar og Arnfríðar Guðmundsdóttur. Þarna var þetta allt, jú Lúther sundraði kirkjunni en sameinaði um tungumálið og hleypti mönnum milliliðalaust að almættinu, sagði Reynivallaprófastur, eða á þá leið, og ekki gerði Lúther kurkjuna undirgefna hinu veraldlega valdi heldur var það fremur á hinn gagnstæða veg. Þannig rann umæðan áfram, fróðleg og skemmtileg.Ævar sprangaði um Eisleben, Erfurt, Wittenberg og aðra staði þar sem Lúther kom við sögu og að sjálfsögðu þurfi engum að koma á óvart þegr hann dúkkaði upp í Skálholti og tengdi Ísland inn í umfjöllun sína.

Margt fróðlegt kom fram í þáttunum, svo sem afstaða Lúthers til bændauppreisnanna á þriðja áratug 16. aldar, víðtækustu uppreisnar hinna undirokuðu í Evrópu fram að frönsku stjórnarbyltingunni undir lok 18. aldar. Lúther snerist gegn bændauppreisninni á síðari stigum hennar og hafa margir talið hann fyrir vikið mann valdsins á sama hátt og ummæli hans um gyðinga þóttu ekki til fyrirmyndar; hefðu fylgjendur hans á seinni tíð "blygðast sín" fyrir þau. En vel að merkja Kristur var gyðingur minnti Lúther á og hefði án efa fallið illa ef lagt hefði verið út af ummælum hans á þann veg sem til dæmis nasistar gerðu rúmum fjögur hundruð árum síðar.

Allt þetta var rætt í þáttunum sem eru aðgengilegir hér:

http://ruv.is/sarpurinn/ruv/sidbotin/20171031

http://ruv.is/sarpurinn/ruv/sidbotin/20171107

Ævari Kjartanssyni, Jóni Viðari Haukssyni, dagsrkrárgerðarmanni og öllum öðrum sem komu að gerð þáttanna kann ég bestu þakkir.
  

Fréttabréf