ALLT ER HÆGT

MBLBirtist í helgarblaði Morgunblaðsins 14/15.10.17.

 Fyrir tveimur árum eða þar um bil, átti ég spjall við suðurafríska hæstaréttardómarann Essa Moosa sem lést fyrr á þessu ári, þá nýkominn á níræðisaldur. Hann hafði verið í framvarðarsveit andstæðinga kynþáttastefnunnar, apartheid, í heimalandi sínu og náinn samstarfsmaður Nelson Mandela. Mér er það minnisstætt að hann sagði að einn erfiðasti þröskuldurinn að stíga yfir í þessari baráttu hafi verið vantrúin á að breytingar væru yfirleitt mögulegar.

Í heimabyggð hans hefði verið reynt að fylkja fólki um hvatningarákall, sérstaklega hugsað til að blása þeim kapp í kinn sem voru bugaðir af bölsýni og vantrú á að nokkru yrði þokað. Þetta ákall, frelsi á okkar tíð, freedom in our lifetime, virtist okkur nú hins vegar harla meinlaust og rislítið. En það væri, sagði Essa Moosa, vegna þess að í baksýnisspeglinum sæjum við framvindu sigursællar baráttu, en minna færi fyrir því andstreymi sem við var að stríða.

Mér fannst þetta merkileg saga og minna á að allt er hægt ef staðfestan er fyrir hendi og trúin á árangur! Merkilegasta framtak þessara haustmánaða þykir mér vera plastátakið í september. Þar var á ferðinni fólk sem er að breyta heiminum. Það er að sjálfsögðu ekki eitt á báti, heldur rær það með umhverfissinnum og fólki sem starfar í sorphreinsunargeiranum. Smám saman er þessu fólki að takast að búa til með okkur það hugarfar að flokkun á úrgangi frá heimilum og fyrirtækjum sé mál málanna - að ekki sé minnst á framleiðslu skaðlegra umbúða á borð við plast. Ef við horfum inn í eigin þankagang kennir hugarfarsbreytingar sem varla hefði verið trúað fyrir aðeins örfáum árum að gæti orðið eins víðtæk og afgerandi og raun ber vitni.

Eins var það með reykingarnar. Fyrst hægt var að stöðva reykingar á breskum bjórkrám þá er allt hægt. Hér á landi dettur engum lengur í hug að reykja á fundi eða veitingastað og það hjá þjóð sem heimilaði ekki aðeins reykingar á fundum heldur einnig í Norðurleiðarútunni sem hossaðist á ómalbikuðum rykmettuðum vegum klukkutímum saman með bílveik börn innanborðs. Jafnvel þessu héldu sumir að yrði aldrei hægt að breyta.

En eftir að Ómar, Greenpeace og Hjörleifur Guttormsson hafa holað steininn í hálfa öld, erum við að átta okkur á því að ef fer fram sem horfir, eyðileggjum við hafið til frambúðar með því að fylla það af plasti og öðru drasli. Ég spái því að nú fari eitthvað í alvöru að gerast og að það muni gerast á æviskeiði minnar kynslóðar, fólksins sem er upp á sitt besta nú um stundir!

Tilefni þessara þanka nú er fundur Alkirkjuráðsins lútherska, sem þessa dagana efnir til alþjóðlegrar umræðu um umhverfismál hér á landi í tengslum við Arctic Circle ráðstefnuna. Þar kveður við róttækan tón - hinn sama og ég kynntist sem fréttamaður þegar Alkirkjuráðið lútherska fundaði hér á níunda áratugnum. Þá var umræðan um misréttið í heiminum og hefði hvaða róttæk pólitísk hreyfing sem er getað verið fullsæmd af henni.

Djúpt var þá tekið í árinni. Svo er og nú en að þessu sinni um umhverfisvána. Nú ríði á að gera friðarsáttmála við móður jörð um vistvæna sambúð. Ákallið er aðkallandi segir Alkirkjuráðið. Þetta verði að gerast á okkar tíð, in our lifetime.

Undir þetta hljótum við að taka enda vitum við að þetta er hægt. Sigursögu hinna bartsýnu höfum við nefnilega skjalfesta á spjöldum sögunnar.

Fréttabréf