Fara í efni

NÝTING EIGNA

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 02/03.09.17.
Í ræðu í Skálholti um miðjan júlí kvað ráðherra kirkjumála, Sigríður Á Andersen, það vera „löngu tímabært að eigendastefna ríkisins feli í sér fækkun fasteigna með það að markmiði að geta staðið skammlaust að viðhaldi og nauðsynlegri uppbyggingu menningarverðmæta á tilteknum stöðum. Skálholt er sannarlega einn þeirra staða sem á það skilið að staðinn sé vörður um."
Húrra fyrir þessu - það er að segja því síðastnefnda. Það er gott að hugsa til þess að ríkisstjórnin líti á Skálholt sem þjóðareign sem þurfi að hlúa að svo reisn hvíli yfir staðnum.

Óbotnað var hjá ráðherranum hvað átt var við með fækkun fasteigna, hvaða eignum skyldi fækkað? Ötull þingmaður úr stjórnarliðinu, Óli Björn Kárason, tók fyrsta skrefið til að botna þessa hugsun í Morgunblaðsgrein nú í vikunni og vísar hann í „nýtingu eigna" ríkisins í fyrirsögn á grein sinni.

Mér skilst hugsun hans vera þessi: Með sölu eigna má byggja upp nýja innviði og þannig stuðla að aukinni velsæld og vel að merkja, minni skattbyrði. Fyrir söluandvirði eigna megi nefnilega fjármagna nýjar framkvæmdir.

Og hann nefnir eina eign sem gjarnan megi byrja á að selja, alþjóðaflugvöll Íslendinga, Leifsstöð. Nú vill svo til að Leifsstöð er ein afkastamesta gullgerðarvél landsmanna. Og það sem meira er, hún hefur einokunaraðstöðu. Þegar yfirstjórnin þar hafði boðið út bílastæðin og rekstraraðilinn þótti keyra verðið upp úr öllu hófi, þá var unnt að taka reksturinn til baka, þar réð almannahagur.

Nú vill svo til að ég hef ekki alltaf verið sáttur við áherslur stjórnenda Leifsstöðvar, án þess að ég fari nánar út í þá sálma hér. En þessir stjórnendur eru þó á vegum Alþingis og í góðu kallfæri og því auðveldara að eiga við þá orðastað en væru þeir í London eða Shanghai en þangað má reikna með að eignarhaldið færðist við sölu.

Markaðsþenkjandi mönnum ber auk þess að hafa í huga að allan rekstur innan flughafnarinnar má bjóða út og fela þannig einkaðilum. En sá rekstur er að sjálfsögðu afturkræfur svo lengi sem flugstöðin sjálf er í okkar eigu.

Nú vil ég reyna að forðast að snúa út úr fyrir mönnum. Markmið fyrrnefndra stjórnmálamanna er að finna leið til að umbreyta eignum í nýjar eignir. En hér hræða dæmin. Reykjanesbær og fleiri bæjarfélög reyndu einmitt þetta. Fylltu pyngjur sínar tímabundið með sölu eigna sinna en enduðu síðan sem leiguliðar hjá nýju eigendunum sem að lokum reyndist skattborgurunum heldur betur þungbært.

Svo er það hitt, með kirkjujarðirnar sem ekki hlytu náð fyrir boðendum „endurskoðaðarar eigendastefnu," hvað yrði um þær? Og nú spyr ég kirkjumálaráðherrann: Hvernig væri að ráðast í uppbyggingu þeirra í stað sölu, gera úr gömlu kirkjujörðunum sem ekki verða setnar prestum, nýjar andlegar orkustöðvar, með sögurannsóknum, skrifandi skáldum og að sjálfsögðu slegnum túnum, með öðrum orðum, blómstrandi menningarsetrum? Sveitarfélög, listamannasamtök og skólar gætu komið að eignarhaldinu auk ríkis og kirkju. Og fyrir þá sem aðeins vilja hugsa á bókhaldsvísu mætti líta á afraksturinn sem andlegan arð.

Ísland var bókstaflega reist úr öskustónni á nýliðinni öld og það tókst í fámennara og fátækara þjóðfélagi en nú er.

Gerandinn var samfélagið og eignarhaldið opinbert.

En milliliðirnir, loðnir um lófana, voru að sönnu færri.