Fara í efni

ER TÍMABÆRT AÐ KYNNA „FINNAFJARÐARVERKEFNIÐ" UM ALLAN HEIM?

finnafjordur
finnafjordur

Þriðjudaginn 3. september greinir Fréttablaðið frá því að starfsmenn Cosco Shipping. „þriðja stærsta skipafélags heims" hefðu „í lok ágúst fundað með sveitarstjóra Langanesbyggðar, starfsmönnum verkfræðistofunnar EFLU og fulltrúum innanríkisráðuneytisins", og fengið kynningu á áformum um stórskipa- og olíuþjónustuhöfn í Finnafirði.

Sveitarstjóri Langanesbyggðar upplýsir að þar sem fulltrúar skipafélagsins "áttu leið hingað til lands" hafi þeir óskað eftir fundi.

Fréttablaðið greinir frá því að fundirnir hafi verið haldnir dagana 24. til 26. ágúst, "og þá bæði í innanríkisráðuneytinu og hjá Íslandsstofu. Þeir voru skipulagðir af EFLU verkfræðistofu og segir í fundargerð sveitarstjórnar Langanesbyggðar að þeir hafi verið áhugaverðir og gengið vel."

Í fréttinni er minnt á að viljayfirlýsing um áframhaldandi samstarf um uppbyggingu hafnarinnar hafi verið undirrituð í maí 2016 af fulltrúum íslenskra stjórnvalda, Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps, EFLU og þýska fyrirtækisins Bremenport. Samstarfssamningur um verkefnið hafi verið undirritaður tveimur árum áður. 

"Hugmyndin er sú að Bremenport leiði fjármögnun framkvæmda og öflun verkefna fyrir væntanlega höfn og að framkvæmdir hefjist eftir þrjú til fimm ár." segir ennfremur í fréttinni.

„Það er búið að ráðast í jarðvegsrannsóknir í firðinum og á gróðri og dýralífi. Síðan var skrifað undir viljayfirlýsinguna árið 2016 og verkefnið er í raun statt þar ennþá. Svo er verið að kynna þetta á ráðstefnum um allan heim en sveitarfélagið á enga aðkomu að því," hefur Fréttablaðið ennfremur eftir sveitarstjóra Langanesbyggðar.

Það er nefnilega það.

Fréttablaðinu ber að fyrirgefa að nefna innanríkisráðuneytið til sögunnar þótt það hafi verið lagt niður sem slíkt síðastliðið vor. 

Því ber að fyrirgefa vegna þess að blaðið sýnir alla vega viðleitni til að halda okkur upplýstum bæði með þessari tilvitnuðu frétt ...: http://www.visir.is/g/2017170909468/fundudu-med-kinverskum-skiparisa-um-finnafjardarverkefnid

... og m.a. einnig í maí síðastliðnum þar sem sagði frá fjárkröfum á hendur ríkinu vegna verkefnisins: http://www.visir.is/g/2017170529980/stilla-rikinu-upp-vid-vegg-

Eftir standa þessar spurningar:

1) Hefur verið veitt fé úr ríkiskassanum til þessa verkefnis og ef svo er hve mikið?
2) Er þetta verkefni ekki stærra í sniðum en svo að það eigi að vera á hendi fámenns sveitarfélags?
3) Er ekki óeðlilegt að umræða um þetta verkefni fari fram á "ráðstefnum um allan heim" án aðkomu Íslendinga og án þess að umræða hafi farið fram heima fyrir hvort fyrir því sé vilji að koma upp risavaxinni umskipunarhöfn hér á landi með tilheyrandi afleiðingum í umhverfi, atvinnulífi og samfélaginu almennt?