Fara í efni

ÞÁ VERÐUR DÝRT AÐ FARA Í BAÐ

Vestmannaeyjagos 1973
Vestmannaeyjagos 1973


Í fréttum segir frá hræringum í Kötlu og viðvörun varðandi Múlakvísl sem gæti tekið brúna og rofið hringveginn. Það hefur jú áður gerst.

Svo eru jarðskjálftar á sunnanverðu Reykjanesinu, þeir eru sagðir óvenju miklir. Eins gott að þar gjósi ekki. Þá kynnu samgöngur við Leifsstöð að raskast og kannski heldur meira en það.

Áður hefur gosið á Reykjanesi, mörg hraunin þar runnu eftir landnám og örnefni minna á gossöguna, t.d. Hvassahraun.

Ísland er nefnilega eldfjallaland og má búast við öllu. Líka á ólíklegum stöðum. Í bók sem ég las í gagnfræðaskóla á sjöunda áratugnum var sagt að Helgafell í Vestmannaeyjum væri löngu útdautt eldfjall. Svo gaus þar 1973. Þá kom höfnin í Eyjum sér vel.

Í eldfjallalandi er gott að hafa flugvelli og hafnir sem víðast. Reykjavík er þar varla undanskilin.

En í grennd höfuðborgarinnar getur líka gosið. Hvað yrði þá um kaldavatnslindir okkar í Gvendarbrunnum? Væri þá hugsanlega eini kosturinn að kaupa vatn af Jóni Ólafssyni undan Ingólfsfjalli? Hann ku selja vatnið á flöskum. Þá gæti orðið dýrt að baða sig í Reykjavík.

Sennilega er það ágætt ráð að halda eignarhaldinu á drykkjarvatninu hjá samfélaginu og flugvellinum í Reykjavík.